Þessar linsupönnukökur eru ótrúlega góðar og það besta við þær er að uppskriftin er glúteinlaus.
Hildur Ómarsdóttir, uppskriftahöfundur með meiru, á heiðurinn af þessari einföldu uppskrift að glúteinlausum pönnukökum með lauk og svörtu salti.
Hægt er að nota þær sem vefjur og setja eitthvað inní, bera fram sem meðlætisbrauð með mat eða bara sem pönnukökur til að dippa í sósu eða einhvers konar chutney. Vefjurnar eru bæði ríkar af plöntupróteini og trefjum sem er kærkomið fyrir marga.
Hildur bar til að mynda pönnukökurnar fram ásamt chili-mauki og sumac-lauk og þær ruku út.
Vert er þó að hafa í huga að linsurnar þurfa að liggja í bleyti fyrir bestu útkomuna á pönnukökunum svo gerið ráð fyrir undirbúningstíma að lágmarki 4 klukkustundir. Hægt er að leggja þær í bleyti kvöldið áður eða um morguninn sama dag og þið viljið gera þær.
Linsupönnukökur Hildar
- 2 dl rauðar lífrænar linsur frá Rapunzel
- 11/4 tsk. laukduft
- 1 tsk. huskduft
- 2 dl vatn
- 11/4 tsk. svart salt
- ½ smátt skorinn gulur laukur
- 1 tsk. ólífuolía til steikingar
Aðferð:
- Byrjið á því að skola linsurnar.
- Setjið skolaðar linsur í skál með sirka tvöföldu magni af vatni og leyfið að liggja í bleyti í að minnsta kosti í 4 klukkustundir.
- Hellið svo vatninu af linsunum, það má skola þær léttilega, og setjið þær í blandara ásamt öllu nema smátt skorna lauknum og olíunni.
- Bætið smátt skornum lauknum útí deigið og hrærið með gaffli.
- Hitið pönnu og setjið ólífuolíu á pönnuna. Nóg er að setja olíu fyrir fyrstu pönnukökuna.
- Hellið eins og 3/4 dl af linsudeiginu á pönnuna og dreifið úr því svo lagið verði frekar þunnt og jafnt.
- Leyfið henni að bakast í um það bil 2 mínútur á meðalháum hita, eða þar til hún losnar auðveldlega af pönnunni og snúið við til að baka hina hliðina.
- Ef deigið þykknar á meðan þið eruð að baka pönnukökurnar er hægt að bæta pínu vatni út í deigið og þynna.
- Berið fram sem hugurinn girnist.