Heimabökuð langloka með osti og ljúffengu áleggi í ferðalagið

Þessar eru fullkomnar til að taka með í ferðalagið um …
Þessar eru fullkomnar til að taka með í ferðalagið um helgina. mbl.is/Birta Margrét

Ef þú ert að leita að góðri, einfaldri og heimabakaðri lausn í nesti eða fyrir ferðalagið, þá er þessi langloka með osti akkúrat það sem þú þarft. Hún er mjúk og seig að innan, með stökkri ostaáferð að utan sem bráðnar fallega í ofninum. Hún minnir á ferskt brauð úr bakaríinu – en þú gerir hana sjálf/ur með hráefnum sem þú þekkir og treystir.

Langlokan hentar einstaklega vel með alls kyns áleggi: kjötáleggi, eggjasalati, tómötum, eða bara smjöri og osti. Hún er frábær í lautarferðir, skólaboxin eða sem helgarbiti með góðum kaffibolla. Þegar hún kemur volg úr ofninum fær hún alla við borðið til að brosa.

Sameinar það sem við elskum mest við heimabakstur

Heiðurinn af þessari uppskrift og hugmyndum að áleggi á okkar tryggi bakarameistari, Árni Þorvarðarson, fagstjóri við Hótel- og matvælaskólann í Kópavogi.

„Þessi langloka með osti sameinar það sem við elskum mest við heimabakstur sem er ilmur, áferð og einfalt notagildi. Hana má skera í sneiðar, frysta og hita síðar – eða bera fram heita með smjöri og grænmeti,“ segir Árni.

„Ef þú vilt breyta til má strá kryddjurtum yfir ostinn áður en hún fer í ofninn, eða fylla hana með osti og skinku áður en hún er rúlluð upp. Ein uppskrift – fjölbreyttar útgáfur,“ bætir Árni við.

Langlokan er alltaf góð hugmynd, hvort sem þú ert að undirbúa fjölskyldunesti, gönguferðir, veisluborð eða einfaldlega nýtur bakstursins fyrir sjálfa þig.

Árni Þorvarðarson er iðinn við að bjóða sínum börnunum upp …
Árni Þorvarðarson er iðinn við að bjóða sínum börnunum upp á heimabakaðar langlokur og segir þær mjög góðar til að taka með í nesti í ferðalög sumarsins. mbl.is/Birta Margrét

Langloka með osti

  • 483 g volgt vatn
  • 30 g þurrger (ca. 2 msk.)
  • 72 g matarolía (t.d. repju- eða sólblómaolía)
  • 97 g sykur (ca. ½ bolli)
  • 14 g salt (ca. 2 ½ tsk.)
  • 1013 g hveiti (ca. 7 ½ bollar – bæta við ef þarf)
  • 100–150 g rifinn ostur (t.d. Gouda, Cheddar eða ostablanda)

Aðferð:

  1. Hitið vatnið þar til volgt og blandið saman við sykur og þurrger. Látið freyða í 5–10 mínútur.
  2. Bætið olíu og salti út í.
  3. Hrærið hveitinu saman við smátt og smátt og hnoðið í 6–8 mínútur þar til deigið verður mjúkt og seigt.
  4. Látið deigið hefast í 45–60 mínútur undir viskastykki.
  5. Fletjið deigið út í ferhyrning og rúllið upp í langa rúllu – eða mótið í löng brauðform.
  6. Setjið á bökunarpappír, penslið með vatni eða mjólk og stráið rifnum osti yfir brauðið.
  7. Látið hefast aftur í 20–30 mínútur.
  8. Bakið í ofni við 200°C í 12–15 mínútur, eða þar til osturinn er gullinbrúnn og brauðið holt við bank.
  9. Látið kólna á grind. Gott að sneiða eftir kólnun.

 

 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert