Suðrænn túrmerik unaður Kristínar

Kristín Amy Dyer er áhugakona um næringu og heilbrigðan lífsstíl. …
Kristín Amy Dyer er áhugakona um næringu og heilbrigðan lífsstíl. Hún gerði þennan frábæra þeyting sem er stútfullur af góðum næringarefnum. Samsett mynd

Kristín Amy Dyer er áhugakona um næringu og heilbrigðan lífsstíl og leggur metnað í að skapa hreinar og næringarríkar uppskriftir sem henta öllum aldurshópum. Hún er mikill talsmaður 80/20 reglunnar og leggur áherslu á að nálgast mataræði með jafnvægi og án öfga þar sem bæði hollusta og bragðgæði fá að njóta sín. Hún gefur lesendum uppskrift að þeytingi, sem ber heitið suðrænn túrmerik unaður, sem hún og ung dóttir hennar halda mikið upp á.

„Með komu sumars og góðu veðri er klárlega tilefni til að fjölga þeytingum í mataræðinu. Ég hef reynt markvisst að gera barnvænar og bragðgóðar uppskriftir sem 18 mánaða dóttir mín tekur vel í og þessi uppskrift sló heldur betur í gegn hjá okkur báðum. Hún er einföld og sameinar næringarrík hráefni sem margir þekkja og getur haft mikinn heilsufarslegan ávinning í för með sér,“ segir Kristín alvörugefin.

Ein sú öflugasta sem völ er á

Kristín fer líka aðeins yfir hráefnin sem eru í uppskriftinni og segir að það skipti sköpun að velja góða og holla næringu þegar kemur að því að búa til bragðgóðan þeyting.

„Túrmerik er sannkölluð ofurfæða og að mínu mati ein sú öflugasta sem völ er á. Túrmerik hefur lengi verið notað í náttúrulækningum og þekkt fyrir bólguminnkandi eiginleika en rannsóknir hafa sýnt að virka efnið í túrmerik, kúrkúmín, geti hjálpað við að draga úr langvinnum bólgum sem tengjast til dæmis meltingarvandamálum, húðkvillum og liðverkjum.

Ég set stundum örlítið af fínmöluðum svörtum pipar í mína þeytinga þegar ég nota túrmerik því rannsóknir hafa sýnt að virka efnið frásog kúrkúmíns í líkamanum verður margfalt skilvirkara ef þess er neytt með pipar, sérstaklega vegna efnisins piperíns – sem getur mögulega aukið upptökuna um allt að 2000%.

Banani gefur náttúrulega sætu

Ananas og mangó geta stuðlað að betri meltingu en ananas inniheldur ensímið bromelain, sem hefur í sumum tilvikum verið tengt við betri meltingu próteina og mangó er ríkt af trefjum, sem gegna lykilhlutverki í heilbrigðri meltingu og stuðla að reglubundinni þarmahreyfingu.

Banani gefur náttúrulega sætu, ásamt því að vera góður orkugjafi og uppspretta B6-vítamíns og kalíums, sem styðja við orkubúskap og vöðvastarfsemi.

Kanill er einnig vinsælt krydd sem hefur fengið athygli fyrir möguleg blóðsykursstýrandi áhrif, þó að niðurstöður séu misvísandi og háðar tegund og magni.

Að lokum tryggir kókosmjólkin að fituleysanleg efni, eins og kúrkúmín, nýtist líkamanum sem best, auk þess að gefa þeytingnum fyllingu og mýkt,“ segir Kristín.

Suðrænn túrmerik unaður Kristínar.
Suðrænn túrmerik unaður Kristínar. Ljósmynd/Kristín Amy

Suðrænn túrmerik unaður

Fyrir 2

  • Hálfur banani
  • 1 bolli frosnir ananasbitar
  • ½ bolli frosnir mangóbitar
  • 2 msk. kókosmjólk (þykki hlutinn í dós)
  • Dass af köldu vatni
  • Klípa af kanil
  • ¼ tsk. túrmerik

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið í blandara og blandið vel saman.
  2. Hellið í tvö glös, berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert