Þetta er alveg frábært salat og kryddjurtadressingin er engri lík. Hún er svo góð og lyftir bygginu upp á hærra plan. Það er vel hægt að mæla með þessu salati til að njóta hvort sem það er borið fram sem meðlæti eða eitt og sér. Síðan er hægt að nota dressinguna með alls konar öðrum réttum líka, til að mynda með fisk og kjúkling.
Heiðurinn af þessari uppskrift á Kristjana Steingrímsdóttir, sem lesendur þekkja betur undir nafninu Jana, en það hafa birst ófáar uppskriftir eftir hana á Matarvefnum síðustu misseri.
Hlaðið byggsalat með kryddjurtadressingu
- 1 bolli soðið bankabygg
- 1 tómatur, skorinn í litla bita
- 1 rauð paprika, skorin í litla bita
- 1/3 rauðlaukur, skorinn í litla bita
- 1/2 epli, skorið í litla bita
- 1/3 bolli bláber
- 6-8 döðlur, skornar í litla bita
- 1/3 bolli rifinn parmesanostur
- 1/4 bolli sesamfræ
Aðferð:
- Byrjið á því að sjóða bankabyggið eftir leiðbeiningum á pakkanum. Jana sýður oft ríflegan skammt og geymir auka skammt kalt inni í ísskáp til að nota í salat eins og þetta.
- Skerið síðan allt hráefni niður sem til þarf í salatið.
- Takið stóra skál og setjið hráefnið saman í skálina.
- Hellið dressingunni yfir og blandið vel (sjá uppskrift fyrir neðan).
Kryddjurtadressing
- 1 box steinselja, söxuð smátt
- 1 box mynta, söxuð smátt
- 1 msk. þurrkað óreganó
- 1/3 tsk. hvítlaukskrydd eða eitt pressað hvítlauksrif
- 2 msk. hvítvínsedik
- Nokkrar msk. ólífuolía
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Setjið allt hráefnið saman í hæfilega stóra skál og hrærið saman.
- Geymið í kæli meðan þið klárið að gera salatið.
- Hellið síðan dressingunni yfir salatið og blandið vel saman.