Afhjúpar uppskriftina að Jóa Fel sósunni frægu

mbl.is/Karítas

Þá er komið að því að afhjúpa leyndardómsfullu Jóa Fel sósuna þar sem osturinn Feykir og íslensku kryddjurtirnar leika aðalhlutverkið. Þessi er alveg svakalega góð og passar vel með nánast öllum grillmat, líka grilluðum grænmetisréttum.

Jóhannes Felixsson, betur þekktur undir nafninu Jói Fel er iðinn …
Jóhannes Felixsson, betur þekktur undir nafninu Jói Fel er iðinn við að þróa nýjar uppskriftir reglulega og eitt af því sem hann elskar eru góðar sósur. mbl.is/Karítas

Jóhannes Felixsson, alla jafna kallaður Jói Fel, er duglegur að þróa og hanna nýjar sósur og þessi er ein af hans vinsælustu þegar grillveislu skal gjöra. Hann heldur úti uppskriftavefnum Elda baka þar sem hægt er að finna fjölmargar uppskriftir úr hans smiðju.

Nú er bara að prófa að gera þessa sósu og sjá hvað gerist.

Jóa Fel sósan

  • 4 stk. hvítlauksrif
  • 100 g feykir ostur
  • Tvær góðar lúkur af kryddjurtunum basilíku, rósmarín og garðablóðbergi, má líka nota krydd
  • 1 dl ólífuolía
  • 1 dl hvítvín
  • 2 dl rjómi
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að vinna hvítlauk og ost saman ásamt smá af olíunni.
  2. Setjið síðan kryddjurtirnar saman við og restina af olíunni og vinnið í gott mauk.
  3. Setjið hvítvínið á pönnu og sjóðið niður um rúmlega helming.
  4. Setjið svo rjómann saman við og náið upp suðunni, kryddið til með salti og pipar.
  5. Bætið loks kryddmaukinu saman við og slökkvið á pönnunni, blandið vel saman og berið fram með því sem hugurinn girnist.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert