Þessar dásamlegu „Apple Crumble Cookies“ eru ilmandi, mjúkar kökur með rifnum eplum, kanil og stökkri áferð. Þær minna á haustlegt eplabrauð í formi smáköku – mjúkar að innan og með gómsætum mulningi að utan. Þessar kökur eru tilvaldar til að baka á köldum dögum þegar heimilið þarf að fyllast af hlýju og góðri lykt.
Heiðurinn af þessari uppskrift á Árni Þorvarðarson, bakarameistari með meiru og fagstjóri hjá Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi.
„Það sem gerir þessar kökur svo sérstakar er samspil milda súkkulaðibragðsins og náttúrulegu sætunnar úr eplum. Þær henta jafnt sem kaffimeðlæti, í kökubox eða sem eftirréttur með vanilluís og smá karamellusósu. Þetta eru kökur sem líta út og bragðast eins og þær hafi verið keyptar í bakaríi, en þú getur auðveldlega gert þær heima,“ segir Árni þegar ég spyr hann út í baksturinn.
Kaka sem fær alla til að brosa
Apple Crumble Cookies eru ekki aðeins fallegar á borði, heldur fylla þær húsið af heimilislegri lykt og hlýju. Hvort sem þið bakið þær fyrir gesti, veislu eða ykkur sjálf – þá er það ómögulegt að stoppa við eina. Með bolla af kaffi eða skeið af vanilluís, þá er þetta kaka sem fær alla til að brosa.
Börnin hans Árna, Emma og Aron, kunna vel að meta kræsingarnar sem hann gerir á heimilinu.
mbl.is/Birta Margrét
Apple Crumble Cookies
2 stórar cookies
- 110 g púðursykur
- 130 g sykur
- 160 g smjör (við stofuhita)
- 2 egg
- 3 g vanilludropar
- 1 tsk. kanill
- 280 g hveiti
- 1 tsk. lyftiduft
- ½ tsk. matarsódi
- ½ tsk. salt
- 1 meðalstórt epli (rifið gróft, ca. 120 g)
- 100 g hvítt súkkulaði (má sleppa eða nota saxað dökkt súkkulaði fyrir andstæðu)
- ½ tsk eplaedik til að skerpa á bragði ef vill
Aðferð:
- Hitið ofn í 180°C (blástur) og leggið bökunarpappír á plötu.
- Þeytið smjör, sykur og púðursykur saman þar til létt og ljóst.
- Bætið eggjum og vanillu út í.
- Blandið þurrefnum (hveiti, kanil, lyftidufti, matarsóda og salti) saman og bætið smátt og smátt út í deigið.
- Rífið epli gróft (með eða án hýðis) og kreistið aðeins vatn úr því ef það er mjög safaríkt.
- Bætið því og súkkulaðinu við deigið.
- Mótið stórar kúlur (ca. 80 g hver) og raðið á plötu.
- Þrýstið létt niður og stráið eða þrýstið mulningi ofan á ef notaður (sjá uppskrift fyrir neðan).
- Bakið í 11–13 mínútur.
- Kökurnar mega vera aðeins mjúkar í miðjunni.
- Kælið á plötu í 10 mínútur áður en þær eru færðar á grind.
- Skerið epli í þunnar sneiðar og leggið fallega yfir hverja bakaða köku.
- Sprautið marens snyrtilega hringinn í kringum eplin og brennið örlítið með gasbrennara fyrir fallegan lit og karamelluáferð (sjáið uppskrift að marens fyrir neðan).
Fylling eða „crumble“ ofan á
(valfrjálst)
- 50 g smjör
- 50 g púðursykur
- 70 g hveiti
- ½ tsk. kanill
Aðferð:
- Blandið í skál með fingrum þar til mulningskennd áferð myndast.
Marens (grunnuppskrift)
- 100 g eggjahvítur (ca. 3 stór egg)
- 200 g sykur (fínn kristalsykur eða flórsykur, eftir áferð)
Aðferð:
- Hreinsið skál og písk mjög vel.
- Það má ekki vera fita eða raki í skálinni, best er að nota ryðfrítt stál eða gler.
- Þeytið eggjahvíturnar á meðalhraða þar til þær verða froðukenndar og byrja að stífna. Þetta tekur 1–2 mínútur.
- Bætið sykrinum smátt og smátt út í, um 1 msk. í einu, á meðan haldið er áfram að þeyta. Þetta tryggir að marengsinn verði glansandi og stöðugur.
- Þeytið þar til marensinn er stífur og glansandi.
- Marensinn á að halda toppi þegar þið lyftið písknum, og sykurinn á að vera uppleystur (nuddið smá í fingrum til að finna – engin sykurkorn ættu að vera).
- Marensinn er óbakaður.
- Hann er sprautaður á og brenndur með gasbrennara á t.d. tertur, kökur eða crumble kökur.