Á sumrin er fátt betra en grillað sjávarfang og litríkt og ferskt meðlæti. Þessi uppskrift að grilluðum lax sem borinn er fram með mangósósu er ómótstæðilega girnileg og þá má líka vera með bleikju eða lúðu í staðinn fyrir laxinn. Rétturinn er borinn fram með mangósósu, rifnu mangói, grillaðri papriku og handfylli af salatblöðum.
Heiðurinn af þessari uppskrift á Inga Elsa Bergþórsdóttir matgæðingur en réttinn gerði hún fyrir uppskriftavefinn Gott í matinn.
Grillaður lax með mangósósu
Fyrir 4
- 800 g lax
- salt og pipar eftir smekk
- olía eftir smekk og þörfum
Aðferð:
- Hitið grillið vel.
- Smyrjið olíu á grillgrindurnar og á fiskinn. Gott er að nota fiskiklemmu undir flakið.
- Grillið laxinn í 3–4 mínútur, fyrst á roðlausu hliðinni og síðan 3–4 mínútur á roðhliðinni.
- Saltið og piprið eftir smekk.
- Berið strax fram heitt með mangó-sósunni, rifnu mangói, grillaðri papriku og handfylli af salatblöðum (sjá uppskriftir fyrir neðan).
Mangósósa
- 180 g sýrður rjómi 10% frá Gott í matinn (1 dós)
- 1 stk. mangó, afhýtt og skorið í litla bita
- 1⁄2 stk. límóna, safi og fínrifinn börkur
- 3 sneiðar jalapeño-pipar í krukku
- ögn af karrídufti
Aðferð:
- Maukið allt saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.
- Geymið í kæli á meðan laxinn er grillaður.
Tillaga að meðlæti
- 1 stk. mangó, afhýtt og grófrifið
- handfylli af salati
- 1 stk. grilluð rauð paprika, skorin í strimla