Írena Björk Gestsdóttir á heiðurinn af vikumatseðlinum sem er einstaklega gómsætur að þessu sinni. Hún starfar sem viðskiptastjóri hjá VAXA og er innan um ferskt salat og kryddjurtir nánast alla daga. Góður matur er eitthvað sem hefur ávallt fylgt henni og ekki finnst Írenu verra að vera innan um ferskar matjurtir í vinnunni.
„Fyrir þá sem ekki vita þá er VAXA fyrirtæki sem ræktar matjurtir í lóðréttum landbúnaði á mörgum hæðum með LED-ljósi og er nýting á landi, orku og vatni þannig hámörkuð. Þannig er grænmetið okkar ræktað í hæsta gæðaflokki á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt allt árið um kring. Algjör snilld,“ segir Írena og brosir.
Írena flutti fyrst í Reykjavík þegar hún var í námi við Háskólann í Reykjavík, en þaðan er hún útskrifuð úr bæði viðskiptafræði með lögfræði sem aukagrein og lögfræði með viðskiptafræði sem aukagrein. Einnig er hún viðurkenndur stafrænn markaðssérfræðingur.
„Ég er úr Þorlákshöfn og elskaði að alast þar upp en bý núna í höfuðborginni með Ingimari kærastanum mínum. Fjölskylda mín er þó ennþá öll í Þorlákshöfn svo ég er alltaf með annan fótinn þar og er meðal annars formaður Íþrótta- og tómstundanefndar þar sem er einmitt mjög mikið af spennandi hlutum í gangi í augnablikinu.“
„Ég hef verið í fótbolta frá því ég man eftir mér og spila núna með Selfossi en ég er þar á láni frá Fram. Áhugasviðið er því ansi fjölbreytt og líður mér best þegar það er mjög mikið að gera.
Matur hefur ávallt skipt máli í lífi Írenu. „Ég hef alltaf verið mikill matgæðingur, alveg frá því ég var 7 ára gömul og smakkaði nautasteik í fyrsta skipti á Costa del Sol. Þá var ekki aftur snúið. Það var alltaf kvöldmatur heima í Þorlákshöfn, alveg sama hversu upptekin mamma var svo fjölskyldan settist alltaf saman og borðaði kvöldmat og mér finnst það virkilega dýrmætt.
Frá því að ég flutti að heiman hef ég haldið þessum sið og við Ingimar erum mjög dugleg að elda saman þó að við borðum yfirleitt mjög seint þar sem við erum iðulega að koma seint heim af fótboltaæfingu. Það er svo heppilegt að hann er einnig mikill matgæðingur svo við erum dugleg að prófa eitthvað nýtt og þróa uppskriftir áfram.
Svo að sjálfsögðu er ávallt eitthvað grænt með frá VAXA enda gerir það allan mat betri,“ segir Írena glöð í bragði.
„Það er því virkilega gaman að fá að vera með vikumatseðilinn að þessu sinni, enda er hann einstaklega gómsætur þó að ég segi sjálf frá.“
Mánudagur – Tagliatelle með hvítlauks- og parmesansósu
„Ég er mikil pasta-manneskja svo það er fullkomið að byrja vikuna á gómsætu tagliatelle með VAXA-sprettum að sjálfsögðu, þær eru punkturinn yfir i-ið.“
Þriðjudagur – Steiktur fiskur
„Steiktur fiskur í raspi er einn af uppáhaldsmatnum mínum og við eldum hann eiginlega í hverri viku. Hann verður því að fá að fljóta með í vikumatseðilinn.“
Miðvikudagur - Kjúklingasalat
„Þetta kjúklingasalat er sjúklega gott og algjör orkubomba.“
Fimmtudagur – Bolognese með pestó
„Talandi um að vera mikil pasta-manneskja þá er þetta bolognese mjög skemmtilegt, aðeins öðruvísi en venjulegt bolognese og hrikalega gott að hafa pestóið með. Smá VAXA basil yfir og þetta er fullkomin fimmtudagsmáltíð!“
Föstudagur – Lambasteik og hasselback-kartöflur
„Eftir langa viku er fullkomið að henda karlinum á grillið, enda sér hann yfirleitt um þann hluta eldamennskunnar á heimilinu. Hasselback-kartöflurnar eru svo æði með og að sjálfsögðu gott salat. Allt eins og það á að vera.“
Laugardagur - Kjúklinganachos
„Hvað er betra á laugardagskvöldi en að henda í eitt stykki kjúklinganachos? Ekki neitt nefnilega. Hægt að gera algjörlega eftir sínu höfði.“
Sunnudagur – Hægeldað lambalæri með öllu tilheyrandi
„Sunnudagar eru fullkomnir til að bjóða fjölskyldunni í mat og þá er mjög algengt að við bjóðum upp á hægeldað lambalæri við mikla lukku. Þessi uppskrift með bláberjakrydduðu læri er æði.“