Í fyrsta þættinum, Logandi ljúffengt, tók Sjöfn Þórðardóttir, umsjónarmaður Matarvefs mbl.is, á móti Snædísi Jónsdóttur, þjálfara íslenska kokkalandsliðsins.
Snædís grillaði sína uppáhaldsrétti sem voru annars vegar snjókrabbaklær og hins vegar bleikja með chili og engifersoja-noiset, fennel- og eplasalati ásamt grilluðu íslensku bok choy og Feykir-osti. Snædís er afar hrifin af því að grilla sjávarfang með „asianfusion“ tvisti. Hún gaf einnig góð grillráð þegar fisk og grænmeti skal grilla.
Þjálfari íslenska kokkalandsliðsins er fyrsti gestur Sjafnar Þórðardóttur umsjónarmanns Matarvefs..mbl.is í þættinum Logandi ljúffengt.
mbl.is/Eyþór
Snjókrabbaklærnar segir Snædís vera frábæran partírétt sem gott er að bera fram sem forrétt eða hreinlega snarl með góðum drykk þegar gesti ber að garði á góðum degi.
Snjókrabbaklærnar eru algjört ljúfmeti að njóta.
mbl.is/Eyþór
Gott er að undirbúa allt hráefnið sem þarf fyrir snjókrabbaklærnar áður en þær eru grillaðar. Til að mynda er upplagt að gera wasabi-majó fyrst, síðan poppaða hirsi og kínóa. Síðan að grilla snjókrabbaklærnar og skreyta þær síðan með wasabí-majónesinu eins og Snædís gerir í þættinum. Strá síðan poppaða hirsinu og kínóa-inu yfir og raða á fallegan disk sem þið ætlið að bera réttinn fram á.
Grilluð bleikja með chili og engifersoja-noiset, fennel- og eplasalati ásamt grilluðu íslensku bok choy og Feykir-osti beint af grillinu.
mbl.is/Eyþór
Snjókrabbaklær með wasabi-majó, poppuðu hirsi og kínóa
Snjókrabbaklær
- 1 pk. snjókrabbaklær ( 20-30stk. í poka), þiðnar
- Olía eftir smekk
- Salt eftir smekk
Aðferð:
- Setjið salt og olíu á snjókrabbaklærnar.
- Grillið snjókrabbaklærnar í um það bil 1 mínútu og takið af, síðan af og raðið á disk.
Wasabi-majó
- 250 g japanskt majónes
- ½rauður chili, smátt saxaður
- Ferskur graslaukur, smátt saxaður
- Ferskt dill, smátt saxað
- Sítrónusafi úr einni sítrónu
- 1 tsk. wasabi duft frá Nordic wasabi
Aðferð:
- Blandið saman majónesi, graslauk, dilli, chili og wasabi-dufti í skál og hrærið saman.
- Smakkið til með sítrónusafa.
- Setjið í sprautupoka og geymið í kæli þar til snjókrabbaklærnar eru skreyttar.
Poppað hirsi og kínóa
- 100 g hirsi
- 100 g kínóa
- Salt eftir smekk
- Olía til djúpsteikingar
Aðferð:
- Setjið hirsi og kínóa í pott með vatni sem nær um það bil 1 cm yfir hráefnið.
- Sjóðið í um það bil 12 mínútur.
- Hitið olíu í potti eða á djúpri pönnu í 180°C hita.
- Sigtið hirsi og kínóablönduna og djúpsteikið í 180°C heitri olíu þar til það hættir að poppast í olíunni.
- Stráið á pappír eða bökunarpappír og stráið salti yfir.
- Stráið síðan yfir wasabi-majó-skrautið á snjókrabbaklærnar þegar þær eru tilbúnar.
Grilluð bleikja með chili og engifersoja-noiset, fennel- og eplasalati ásamt grilluðu íslensku bok choy og Feykir-osti
Grilluð bleikja
Fyrir 4
- 4 stk. bleikjubitar, um það bil 200 g hver
- Salt eftir smekk
- Olía eftir smekk
- Sítrónusafi eftir smekk
Aðferð:
- Dressið bleikjuna vel með olíu og salti.
- Grillið bleikjuna á funheitu grilli á roðinu í um það bil 1-2 mínútur.
- Snúið henni síðan við og látið hana vera í um það bil 30sek -1 mínútur á grillinu, takið hana af, dressið sítrónusafa og látið hana hvíla.
Chili- og engifersoja-noiset
- 500 g smjör
- 50 g ferskt engifer
- ½ rauður chili
- 80 g sojasósa
Aðferð:
- Setjið smjör í pott og hitið smjörið uppí 155°C hita. S
- Sigtið síðan í gegnum klút og setjið til hliðar og geymið.
- Saxið engifer og chili og setjið útí noisettið og bætið síðan sojasósunni út í.
Grillað íslenskt bok choy og feykir
- 2 pk. íslenskt bok choy
- Feykir ostur eftir smekk
- Olía eftir smekk
- Salt eftir smekk
- Sítrónusafi úr ferskri sítrónu eftir smekk
Aðferð:
- Setjið olíu og salt á bok choyið, grillið létt á báðar hliðar, alls ekki of mikið.
- Takið síðan af grillinu og dressið með sítrónusafaog rífið niður Feyki-ostinn yfir salatið eftir smekk.
Fennel, epla- og radísusalat
- 1 stk. fennel
- ½ grænt epli
- 3 stk. rauðar radísur
- Sítrónusafi úr ferskri sítrónu eftir smekk
- Salt eftir smekk
- Sesamolía eftir smekk
Aðferð:
- Skerið fennel, epli og radísur niður í mandólín, það er líka hægt að skera með hníf og reyna þá að hafa sneiðarnar örþunnar.
- Blandið öllu saman og smakkið til með sítrónusafa, sesamolíu og salti.