Hagkaup býður nú í fyrsta sinn upp á úrvals Angus holdanaut frá Nýjabæ undir Eyjafjöllum. Hér er um að ræða hágæðakjöt sem sameinar íslenskan uppruna, sjálfbæra ræktun og einlægan metnað einstakra bænda að því fram kemur í tilkynningu frá Hagkaup.
Að baki Nýjabæ eru hjónin Jón Örn Ólafsson og Edda G. Ævarsdóttir, sem hafa á undanförnum árum byggt upp öflugt holdanautabú frá grunni. Þau hafa helgað sig ræktun Angus-nauta með áherslu á dýravelferð og gæði, og rækta þau nær eingöngu á íslensku fóðri, grasi, heyi og heimaræktuðu byggi. Með sérstakri áherslu á norskt erfðaefni hafa þau náð að þróa gripi sem skila sér í framúrskarandi kjötgæðum.
„Það sem gerir þetta bú jafnframt sérstakt er hugsjónin sem þar býr að baki. Jón Örn og Edda vinna markvisst að sjálfbærari landbúnaði, taka þátt í loftslagsverkefnum og leggja sig fram um að rækta í sátt við náttúruna með ábyrga framtíðarsýn og virðingu fyrir jörðinni,“ segir Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri Hagkaups.
Kjötið frá Nýjabæ er nú fáanlegt í takmörkuðu magni í Hagkaup Garðabæ og Skeifunni.
„Við vonumst til að framleiðslan stækki í framtíðinni svo við getum boðið þessa gæðavöru í fleiri verslunum. Við hvetjum viðskiptavini okkar eindregið til að grípa tækifærið því hér er um að ræða einstaka íslenska vöru, sem er unnin af mikilli fagmennsku og hjartahlýju. Við erum stolt af því að fá að vera hluti af þessari vegferð með þeim hjónum á Nýjabæ og hlökkum til að kynna ykkur fyrir bragðgæðum sem segja sína eigin sögu,“ segir Sigurður enn fremur.