„Barnabarnið kallar mig afa ís“

Kristján Geir Gunnarsson býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni.
Kristján Geir Gunnarsson býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni. mbl.is/Karítas

Kristján Geir Gunnarsson á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni og það má segja að íslenskt hráefni sé í forgrunni hjá honum. Kristján er mikill matgæðingur og nýtur þess að borða góðan mat. Hann er líka mjög hrifinn af ís, og ekki af ástæðulausu.

Kristján er uppalinn á Selfossi en er búinn að vera í Mosfellsbæ í töluverðan tíma. Hann er framkvæmdastjóri hjá EmmessÍs og hefur verið það undanfarin tvö ár.

Forréttindi að framleiða og þróa ís

„Starfið á hug minn allan enda lít ég á það sem algjör forréttindi að fá að vinna við að framleiða og þróa ís sem á að koma neytendum á óvart enda er markmiðið hjá okkur í Emmessís að fara stöðugt fram úr væntingum neytenda. Sem dæmi má nefna að við vorum að setja nýjan topp á markað í samvinnu með Nóa Síríus sem er virkilega vel heppnaður að mínu mati,“ segir Kristján en hann er duglegur að fá sér ís í sumarblíðunni.

„Við leggjum mikla áherslu á gæðamál í okkar vinnu og erum stolt af því að vera með margar gæðavottanir og ekki síst matvælaöryggisvottun FSSC22000 sem við erum gríðarlega stolt af því að hafa náð eftir margra ára undirbúningsvinnu,“ bætir Kristján við.

„Það má svo segja að fjölskyldan fari ekki varhluta af því að vinnan er mitt áhugamál sem er ekki alltaf neikvætt, sem dæmi þá kallar barnabarnið mig „afa ís“ sem mér þykir bara virkilega vænt um,“ segir Kristján og brosir.

Kristján setti saman vikumatseðilinn eins og hann ætlar að hafa hann þessa fyrstu viku júlímánaðar.

Mánudagur – Ofnbakaður lax með hrísgrjónum og mangó- og jalapenósósu

„Alltaf gott að byrja vikuna á góðum próteingjafa, markmiðið er að hafa fisk tvisvar í viku sem gengur oftast nær upp.“

Þriðjudagur – Bragðgóð kjúklingasúpa

„Geggjað með einhverju fljótlegu og skemmtilegu eftir góðan dag.“

Miðvikudagur – Subbupési hamborgarinn hans Huga

„Mjög mikilvægt að leyfa sér eitthvað gott í miðri viku, það þarf ekki alltaf að bíða eftir helginni. Þessi hamborgari er einstaklega freistandi þegar það á að gera vel við sig.“

Fimmtudagur – Ostafylltar kjúklingabringur í rjómalegi

„Bragðgóðir kjúklingaréttir eru í uppáhaldi hjá okkur heimilisfólkinu og mér líst vel á þessa uppskrift.“

Föstudagur – Súrsæt svínasíða

„Þessi réttur er settur í gang fyrir vinnu og þá er sannarlega eitthvað til að hlakka til inn í helgina.“

Laugardagur – Lax í sous vide

„Ég er mikill aðdáandi sous vide og leyfi mér að gera alls konar tilraunir, þessi réttur er virkilega áhugaverður.“

Sunnudagur – Hægeldaðir lambaskankar í rauðvínssósu

„Eins ekta íslenskt eins og hægt er að hafa það. Íslenska lambið klikkar ekki og hvað þá þegar það er hægeldað í langan tíma.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert