Hinrik ætlar sér að vinna gullið í Bocuse d´Or

Matreiðslumaðurinn Hinrik Örn Lárusson og Kokkur ársins 2024 mun keppa …
Matreiðslumaðurinn Hinrik Örn Lárusson og Kokkur ársins 2024 mun keppa fyrir hönd Íslands í virtustu matreiðslukeppni heims, Bocuse d´Or. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Matreiðslumaðurinn Hinrik Örn Lárusson mun keppa fyrir hönd Íslands í virtustu matreiðslukeppni heims, Bocuse d´Or. Þetta var tilkynnt á fjölmennum blaðamannafundi í gær, föstudaginn 27. júní, sem fram fór í versluninni Fastus við Höfðabakka 7.

Keppnin fer fram í janúar árið 2027 i í Lyon í Frakklandi þar sem bestu kokkar heims koma saman og keppa um besta réttinn en keppni fer fram á tveggja ára fresti.

Hinrik er að fara að hefja tæplega tveggja ára ferðalag þar sem allt verður lagt undir. Ísland hefur ávallt staðið sig vel í Bocus D’or-keppninni og alltaf verið á topp 10 listanum. Núna er stefnan að fara alla leið og sækja gullið.

Viktor Andrésson og Hákon Már Örvarsson eiga besta árangur Íslands en báðir hafa þeir náð bronsi.

Hlakkar til að hefja störf

„Mér líst vel á þetta tæplega tveggja ára ferðalag. Ég hlakka til að hefja störf en núna hefst vinnan utan eldhússins, finna aðstoðarfólk, hitta hönnuði og annað sem til þarf fyrir undirbúninginn, þetta verður skemmtileg ferð,” segir Hinrik og bætir við að hann setji markið hátt og ætli sér að vinna gullið.

Æfingaaðstaða Hinriks og aðstoðarteymsins verður í glæsilegu eldhúsi í Fastus við Höfðabakka 7 sem er sérhannað fyrir æfingar eins og fyrir keppnir sem þessa. Rýmið er með gleri þannig að fólk getur fylgst með hvað fram fer í eldhúsinu.

Hinrik er hokinn reynslu í kokkabransanum og draumurinn hefur ávallt að komast á toppinn í Bocuse d’Or. Hann byrjaði ungur að standa vaktina í eldhúsinu á Hótel Heklu og lesendur gætu þekkt hann sem matreiðslumanninn í þættinum Bannað að hlæja, sem Auðunn Blöndal stýrir. 

Hann er stofnandi Lux veitinga ásamt Viktori Erni Andréssyni, bronshafa úr Bocuse d’Or-keppninni, og þeir eiga og reka einnig Sælkerabúðina. Báðir hafa þeir verið í íslenska kokkalandsliðinu.

Hinrik hefur líka mikla reynslu af því að keppa í faginu. Hinrik hefur tvisvar farið í keppnina sem aðstoðarmaður keppanda og þekkir því vel til og hvað þarf til að ná langt í keppni sem þessari. Hann vann titilinn Kokkur ársins árið 2024.

Blaðamannafundurinn fór fram í Fastus fyrir framan æfingaeldhúsið þar sem …
Blaðamannafundurinn fór fram í Fastus fyrir framan æfingaeldhúsið þar sem töfrar Hinriks og aðstoðarteymisins munu fara fram. Frá vinstri í neðri röð: Þráinn Freyr Vigfússon, Benedikt Bóas, Hinrik Örn Lárusson, Friðgeir Ingi Eiríksson. Efri röð: Friðrik Sigurðsson, Jakob Hörður Magnússon, Ólafur Helgi, Sigurður Helgason og Viktor Örn Andrésson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Virtasta matreiðslukeppni heims

Bocuse d’Or er allra virtasta matreiðslukeppni sem haldin er í heiminum og hefur verið haldin síðan 1987 í Lyon í Frakklandi, og komast færri þjóðir að en vilja. 24 þjóðir fá keppnisrétt eftir að hafa komist í gegn úr forkeppni í sinni heimsálfu. Bocuse d’Or er kölluð hin eina sanna heimsmeistarakeppni í matreiðslu.

„Þessi keppni er ekki aðeins sú virtasta heldur líka sú skemmtilegasta. Þetta er eins og að fara á leik í enska boltanum,” segir Þráinn Freyr Vigfússon varaforseti Bocus D’or-akademíunnar á Íslandi.

 

 

Samningurinn við Fastus handsalaður um samstarf og æfingaaðstöðu. Hildur Erla …
Samningurinn við Fastus handsalaður um samstarf og æfingaaðstöðu. Hildur Erla Björgvinsdóttir og Friðgeir Ingi Eiríksson, Hinrik Örn Lárusson og Viktor Örn Andrésson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Gestum fundarins var boðið upp á glæsilega smárétti í tilefni …
Gestum fundarins var boðið upp á glæsilega smárétti í tilefni þessa. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert