Thelma Lind Hinriksdóttir kom, sá og sigraði SCW Open - Hanastél keppnina sem var haldin í Stykkishólmi í síðustu viku. Hún sigraði keppnina með kokteilnum sínum sem ber heitið „Íslensk sumarnótt.“ Hún gefur lesendum uppskriftina að verðlaunadrykknum sem fær þann heiður að vera helgarkokteillinn að þessu sinni.
Hún er aðeins 22 ára gömul, fædd og uppalin í Stykkishólmi og býr núna upp í sveit rétt fyrir utan Stykkishólm sem heitir Lyngholt þar sem henni líður afar vel. Þessa dagana starfar hún sem þjónn á veitingastaðnum Narfeyrarstofu í Stykkishólmi og er að læra búvísindi við Landbúnaðarháskóla Íslands.
„Ég hef verið að vinna á Narfeyrarstofu í rúm 5 ár. Þegar ég byrjaði að vinna hérna var verið að gera kokteila og ég lærði mikið á því. Síðan opnaði vínstúka hérna í kjallaranum árið 2022 og þá var ég farin að leika mér aðeins að búa til drykki og finnst það mjög skemmtilegt.
Aðalstarf mitt er að vinna sem þjónn uppi á veitingastaðnum en ég hoppa svo niður og bý til drykki þegar ég er búin að þjóna,“ segir Thelma Lind með bros á vör.
„En ég hef ekki hugsað um þetta sem draumastarfið mitt, ég stefni að því að læra dýralækningar eftir að klára búvísindin þannig þetta er aðallega áhugamál og vinnan mín eins og er,“ bætir hún við sposk á svip.
Hvað er það sem heillar þig mest við barþjónastarfið?
„Það sem heillar mig mest þegar kemur að barþjónastarfinu er að hitta fólkið og mér finnst skemmtilegt að vinna í miklu aksjóni. Svo er ég líka mikil næturugla þannig það hentar vel að vinna seint á kvöldin.“
Hefur þú tekið þátt í mörgum kokteilakeppnum?
„Nei, ég hef aldrei tekið þátt í einstaklingskokteilakeppni en það hefur verið undanfarin ár kokteilahelgin í Stykkishólmi um páskana og ég hef græjað drykki fyrir Narfeyrarstofu nokkrum sinnum fyrir það og er það alltaf jafn skemmtilegt.“
Segðu okkur aðeins frá sigurkokteilnum, hvar fékkst innblásturinn?
„Innblásturinn fékk ég í rauninni gegnum hráefnið sem ég notaði. Ég elska að nota jarðarberja-ginið í kokteila og hef dálæti af því að gera hrista drykki og fá froðuna líka. Þegar ég var búin að ákveða að keppa hugsaði ég strax að það væri eitthvað sem ég vildi nota.
Svo átti þetta að tengjast íslenskri náttúru og þá kom hugmyndin að hann væri bleikur og líkist himninum á íslenskri sumarnótt. Þannig þar kom líka nafnið, Íslensk sumarnótt.“
Hvernig fannst þér stemningin vera í Hólminum meðan á kokteilavikunni stóð?
Fólk skemmti sér konunglega þannig vikan var í heildina mjög lífleg og skemmtileg. Gestirnir sem komu voru mestmegnis Hólmarar en það var líka eitthvað um að aðkomufólk mætti og prófaði drykkina sem var mjög ánægjulegt.
Ég vil hvetja fólk til þess að heimsækja Stykkishólm í sumar. Þetta er virkilega fallegur og vinalegur bær til þess að eyða helginni í og er heillandi á marga vegu. Það eru frábærir veitingastaðir hérna og miðbærinn er mjög fallegur þar sem gömlu húsin skarta sínu fegursta,“ segir Thelma Lind með bros á vör.
„Svo er um að gera að mæta og prófa drykkinn „Íslensk sumarnótt“ á Narfeyrarstofu. Það er mjög huggulegt að byrja niðri í vínstúkunni hjá okkur og fara í fordrykk þar og fara síðan upp og fá sér mat. Við erum með frábæra kokka og ég mæli eindregið með því að prófa matinn þeirra. Svo eftir mat er hægt að fara aftur niður í vínstúkuna og fá sér drykk,“ bætir hún við að lokum.
Íslensk sumarnótt
Fyrir 1
Aðferð: