Björhátíð Ölverks verður haldin í sjötta sinn í byrjun október í Gróðurhúsinu í Hveragerði. Fjöldi brugghúsa munu kynna vörur sínar og boðið verður upp á ost og ís svo fátt sé nefnt.
„Þetta er alltaf ótrúlega skemmtilegt og það er gaman að fá öll brugghúsin til að taka þátt í þessu með okkur,“ segir Laufey Sif Lárusdóttir, einn eigenda Ölverks í Hveragerði. Undirbúningur stendur nú yfir fyrir bjórhátíð Ölverks sem haldin verður dagana 3. og 4. október. Þetta verður í sjötta sinn sem hátíðin er haldin en hún er bæði sótt af fólki sem býr í og við Hveragerði auk bjóráhugafólks af höfuðborgarsvæðinu.
Laufey segir að hátíðin hafi stækkað að umfangi síðan hún var fyrst haldin árið 2019. Gestafjöldinn er nú í kringum 300 en framleiðendum og innflytjendum sem kynna vörur sínar hefur fjölgað umtalsvert. Í ár verða yfir 20 íslensk brugghús á hátíðinni auk nokkurra erlendra og ýmissa annarra framleiðenda. Þar á meðal er íslenskt kombucha, ís frá Kjörís þar sem bjór er notaður í framleiðsluna og ostur frá MS sem bæði er látinn liggja í bjór og eldpiparsósum sem Ölverk framleiðir. „Þetta er mikil tilraunastarfsemi, mjög spennandi og passar vel með bjórunum á hátíðinni,“ segir Laufey.
Hátíðin virkar þannig að fólk kaupir sér passa, annaðhvort fyrir bæði kvöldin eða annað hvort þeirra. Á föstudeginum gefa framleiðendur smakk á vörum sínum frá klukkan 17-20 og á laugardeginum er það frá 16-20.
„Það eru yfir 60 tegundir hvorn daginn. Það eru væntanlega bara þeir hörðustu sem ná að smakka allt. Þeir sem ná því eru algerlega á eigin ábyrgð í því ferðalagi,“ segir Laufey og hlær.
Eftir að smakkinu lýkur tekur við tónlistarveisla þar sem boðið er upp á rjómann af því skemmtilegasta í dag, að sögn Laufeyjar.
Á föstudeginum mætir Herra Hnetusmjör á svæðið og þegar hann hefur lokið sér af þeyta meðlimir FM Belfast skífum. Á laugardeginum mæta Þórunn Antonía og Berndsen og að því búnu tekur plötusnúðurinn Andri Freyr við.
„Þetta fer allt fram í eldgömlum heitum gróðurhúsum fyrir aftan veitingastaðinn Ölverk í Hveragerði. Það er auðvitað allra veðra von í október en við bara hækkum hitann. Í upphafi lak svolítið inn í gróðurhúsin og það var oft meira vatn en bjór í glösunum. Nú er búið að skipta um allar rúður og þetta er vatnshelt. Þarna inni er alltaf heitt og gott,“ segir Laufey.
Hún segir að mikil stemning sé jafnan á hátíðinni. Blómaskreytar séu fengnir til að skreyta gróðurhúsið, margir mæti í búningum og þau setji upp sérstaka glimmerstöð.
Auk þess er seldur matur á svæðinu af pop-up matseðli frá Ölverki. Á matseðlinum verða meðal annars pretzel með heimagerðri obatzda-dýfu, bratwurst með Ölverks-bjórsinnepi eða currywurst-sósu, samlokufjör í focaccia, síam sem er pad kra Pao naut og gráðostur, jammin sem er jerk-kjúklingur og strákasalat, yamas sem er vegan gyros og pítusósa.
Laufey segir að heimamenn mæti alltaf á hátíðina auk fólks úr næstu sveitarfélögum. „Og fólk úr Reykjavík sem er búið að fatta hvað þetta er skemmtilegt. Það er alls konar gisting í boði hérna en svo er líka einfalt að taka strætó. Þetta er búið snemma og fólk getur því komist heim enda er aðeins hálftími á milli.“
Mikil stemning myndast jafnan á meðal bruggaranna á staðnum. „Þetta er hálfgerð uppskeruhátíð brugghúsanna. Það eru allir á kafi yfir sumarið en þarna getum við skemmt okkur saman.“
Meðal brugghúsa sem boðað hafa komu sína eru Horn brugghús sem nýlega var stofnað á Höfn, Mývatn öl, Malbygg, Litla brugghúsið úr Garði og Dokkan frá Ísafirði.
Auk þeirra verða fulltrúar frá KHB á Borgarfirði eystri á svæðinu, áhugabruggarar frá Fágun, mjaðargerðin Öldur á Hellu mætir til leiks og drengirnir úr Grugg & Makk sömuleiðis en þeir gerðu nýlega bjór fyrir Skúla Craft bar.
Gestir geta gestir smakkað á bjór frá Birrificio Italiano sem er með lögfesti við Como-vatn á Ítalíu. Sömuleiðis verður hægt að lepja bjór frá tveimur norskum brugghúsum: Lervig og Oslo Brewing Company.
Um 300 miðar eru í boði á bjórhátíð Ölverks og eru þeir til sölu á tix.is. Þegar er búið að selja helming miðanna.