Ari ljóstrar upp leyndarmálinu bak við einn vinsælasta eftirréttinn

Ari Jónsson yfirkokkur á veitingastaðnum OTO er iðulega beðinn um …
Ari Jónsson yfirkokkur á veitingastaðnum OTO er iðulega beðinn um uppskriftina að hinni frægu Tiramísú nýtur mikilla vinsælda á staðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veitingastaðurinn OTO við Hverfisgötu 44 nýtur ávallt jafn mikilla vinsælda og eru sumir réttir vinsælli en aðrir. Margir koma aftur og aftur til að fá sína uppáhaldsrétti og sumir leitast við að fá uppskriftir hjá kokkinum. Einn af vinsælustu eftirréttunum er þessi fágæti ítalski tiramísú og hafa þeir ófáir verið bornir fram til gesta.

Gullfalleg Tiramísú sem lætur engann sælkera ósnortinn.
Gullfalleg Tiramísú sem lætur engann sælkera ósnortinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Undirrituð heimsótti yfirkokkinn á OTO, Ara Jónsson, og fékk hann til að afhjúpa leyndarmálið á bak við réttinn og deila uppskriftinni með lesendum.

Ávallt haft ástríðu fyrir mat

Ari elskar starf sitt og nýtur sín best í eldhúsinu. Hann er fæddur og uppalinn Skagamaður en fluttist í Mosfellsbæ eftir grunnskóla.

„Ég byrjaði síðan strax í kokkanáminu í Menntaskólanum í Kópavogi og fór í framhaldi að læra á Hótel Sögu þar sem ég vann meðal annars á hinum sögufræga stað, Grillinu. Eftir það vann ég mikið sem kokkur í veiðihúsum úti um land allt ásamt því að vinna hjá snillingunum á Nomy veisluþjónustu áður en ég byrjaði á OTO þegar við opnuðum staðinn,“ segir Ari þegar hann er spurður um ferilinn.

„Ég hef ávallt haft mikla ástríðu fyrir mat frá því ég man eftir mér en byrjaði að fikra mig áfram í eldhúsinu sjálfur um 14 ára aldur. Síðan þá hefur áhuginn og ástríðan bara aukist með hverju ári, enda er maður alltaf að læra eitthvað nýtt í þessum bransa.“

Ari byrjaði að vinna á OTO fyrir rúmum tveimur árum og fékk þá að taka þátt í að þróa og opna veitingastaðinn.

„Það var mjög skemmtilegt tímabil, OTO fór vel af stað strax í byrjun og hefur notið mikilla vinsælda frá því við opnuðum. Núna í byrjun árs tók ég við sem yfirkokkur á staðnum. Síðastliðin tvö ár hefur matargerðin hjá okkur haldið í sömu gildi og lagt var upp með, en að sjálfsögðu hefur hún þróast og margir réttir tekið nýjan blæ eftir árum og árstíðum.

Hugmyndin á bak við staðinn hefur frá upphafi verið að taka innblástur frá ítalskri og japanskri matargerð og setja okkar eigið fingrafar á hana, annaðhvort í sitthvoru lagi eða sem samblöndu af mismunandi aðferðum og hráefnum frá báðum löndum,“ segir Ari glaður í bragði.

Ari hefur starfað á OTO frá upphafi.
Ari hefur starfað á OTO frá upphafi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Andrúmsloftið einkennir staðinn

„Það sem mér finnst einkenna staðinn er andrúmsloftið. Við leggjum mikið upp úr því að hafa afslappað andrúmsloft hjá okkur þar sem gestir geta bæði mætt í léttan mat og drykk eða heila matarupplifun.

Við á OTO erum búin að vera með meðmæli frá Michelin núna tvö ár í röð sem við erum afar stolt af og höldum áfram að reyna að halda gæðunum á hæsta plani,“ segir Ari stoltur.

„Við erum með þó nokkra vinsæla rétti á OTO. Fáir koma út að borða án þess að smakka á japanska mjólkurbrauðinu okkar, en annars má nefna „bikini“-réttinn hjá okkur og yakitori-spjótin okkar. Einnig förum við í gegnum gríðarlegt magn af tiramísú, en mig langar einmitt að gefa uppskriftina svo fólk geti prófað að gera hann heima. Það eru margir gestir sem hafa beðið um uppskriftina og nú er komið að því að svipta hulunni af henni.

Það sem einkennir þetta tiramísú frá öðrum er muscavadósykurinn sem við notum í staðinn fyrir venjulegan sykur. Hann gefur því aðeins dýpri, nánast karamellutóna, sem passa fullkomlega með kaffinu í eftirréttinum.“

Augnakonfekt að sjá og enn betri að njóta.
Augnakonfekt að sjá og enn betri að njóta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tiramísú

Botn:

  • 440 g kaffi (uppáhelt)
  • 230 g sykur
  • 200 g Kahlúa
  • 1 stk. vanillustöng (fræin fara í grunninn)
  • 15-20 stk. dömufingur (ladyfingers)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skafa fræin úr vanillustönginni og setjið til hliðar fyrir grunninn.
  2. Setjið vanillustöngina, kaffið og sykurinn saman í pott og hitið þangað til sykurinn leysist upp.
  3. Slökkvið þá undir pottinum og bætið kahlúa við.
  4. Finnið til form fyrir tiramisu-ið og bleytið upp í dömufingrunum með sírópinu. 3-5 sek á hvorri hlið ættu að vera nóg.
  5. Leggið síðan fingurna í botninn á forminu þangað til botninn er hulinn.

Grunnur:

  • 6 stk. eggjarauður (120 g)
  • 130 g muscavado púðursykur
  • 1 stk. vanillustöng (bara fræin)
  • 800 g mascarpone-ostur
  • 2 g salt
  • 180 g rjómi
  • Kakóduft eftir smekk

Aðferð:

  1. Skafið fræin úr vanillustönginni og þeytið saman við eggjarauðurnar og muscovado púðursykurinn í hrærivél þar til sykurinn er uppleystur að fullu og eggin orðin létt og ljós.
  2. Þeytið næst mscarpone-ostinn við eggjablönduna í litlum skömmtum.
  3. Léttþeytið síðan rjómann og „foldið“ hann við tiramisu-grunninn og bætið við smá salti í lokin.
  4. Hellið loks blöndunni í formið yfir dömufingurnar og sléttið úr að ofan með spaða.
  5. Best er að leyfa því að taka sig inni í kæli í 24 klukkustundir, en eftir það má sigta kakóduft yfir toppinn og njóta.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert