Pítsuskólinn hjá Grazie Trattoira hefur á undanförnum árum notið mikilla vinsælda meðal pítsuaðdáenda. Skólinn leggur áherslu á að kenna bæði hefðbundnar og nýstárlegar aðferðir við pítsugerð, og fær reglulega til sín gestakennara sem miðla þekkingu sinni og innblæstri.
Á dögunum var staðið fyrir námskeiði og að þessu sinni fékk Grazie Trattoria hinn margreynda pítsumeistara Marco Greco í heimsókn.
Jón Arnar Guðbrandsson hjá Grazie Trattoria fer fögrum orðum um Greco og segir að hann hafi slegið í gegn í pítsuskólanum og þátttakendur verið yfir sig hrifnir.
„Það var mikill heiður fyrir okkur að fá Marco Greco sem gestakennara í Pítsuskólann okkar, sem hefur notið mikilla vinsælda síðustu ár. Við hjá Grazie trúum því að pítsa sé ekki bara pítsa og til að halda okkur á tánum fáum við til okkar pítsumeistara einu sinni á ári. Það er okkar leið til að læra nýjar aðferðir og fylgjast með nýjustu straumum í pítsugerð.“
Hver er Marco Greco og hvað einkennir hans nálgun í pítsugerð?
„Greco er fæddur og uppalinn á Ítalíu, þar sem hann lærði pítsugerð frá grunni. Hann sérhæfir sig í napólískri pítsu, sem er í raun heill heimur út af fyrir sig. Hann kynnti okkur meðal annars notkun á „tipo 00“-hveiti, sem gefur deiginu einstakt bragð og áferð. Hann fór einnig ítarlega yfir hvernig hægt er að betrumbæta deigið, velja hágæðaálegg og ná fullkomnum bakstri,“ segir Jón Arnar af innlifun.
Hvernig var upplifunin af námskeiðinu með honum?
„Hún var hreint út sagt frábær og þátttakendur voru alsælir með kennsluna. Greco hefur bakað pítsur frá unga aldri, opnað nokkra pítsustaði sem hann rekur sjálfur og ferðast nú um allan heim til að kenna fólki að gera hina fullkomnu pítsu. Það var mikill innblástur að fá hann til okkar og fá meiri þekkingu á pítsugerð sem kemur til með að nýtast öllum þeim sem tóku þátt í námskeiðinu.“
Það verður nóg að gera í Pítsuskólanum í vetur og boðið verður upp á ný námskeið. „Skólinn okkar fer aftur af stað af fullum krafti eftir sumarfrí og við hvetjum fólk til að bóka tímanlega sem hefur áhuga á að koma, því það hefur verið uppselt undanfarin ár.
Auk þess erum við með nýja viðbót sem hefur slegið í gegn – pítsu-, pasta- og tiramísú-námskeið í „pop-up“-formi. Þá munum við heimsækja fyrirtæki og kenna starfsfólki að gera pítsur, pasta og tiramísú eftir óskum. Þetta er frábær leið til að efla samheldni og skemmtileg upplifun fyrir hópa. Við hlökkum til að geta boðið fleirum upp á skemmtileg og fræðandi námskeið í haust og aukið færni fólks í pítsugerð,“ bætir Jón Arnar við.
„Með reglulegum gestakennurum og sífelldri leit að nýjum hugmyndum hefur Grazie skapað sér einstaka stöðu í pítsugerð á Íslandi. Með innblæstri frá meisturum á borð við Greco heldur Pítsuskólinn áfram að þróast og heilla nýja nemendur að pítsugerðinni ár eftir ár,“ segir Jón Arnar að lokum og er strax farinn að undirbúa næsta námskeið.