„Crumble“ súkkulaðibitakökur sem allir verða vitlausir í

Þessar eru æðislega góðar og súkkulaðibitarnir bráðna í munni.
Þessar eru æðislega góðar og súkkulaðibitarnir bráðna í munni. mbl.is/Birta Margrét

Ef það er eitthvað sem flestir geta sammælst um, þá er það að súkkulaðikökur eru alltaf góð hugmynd – en þessar crumble cookies eru meira en það. Þær eru þykkar og mjúkar að innan, með stökkum súkkulaðibitum ofan á sem mynda fallega sprungna og dekraða áferð.

Heiðurinn af þessari uppskrift á Árni Þorvarðarson, bakarameistari og fagstjóri í Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi.

„Þessar „crumble“ súkkulaðibitakökur eru eins og faðmlag í kökuformi, mildar, sætar og með smá stökku lagi að ofan. Þið getið blandað súkkulaðitegundum eftir því sem þið átt í skápnum og mótað kökurnar eftir ykkar stíl: stórar og dekraðar, eða smærri og munnbitahæfar,“ segir Árni.

„Það besta við þær er að þær krefjast ekki neinnar sérhæfðrar kunnáttu – aðeins góðs deigs og örlítið af kærleika. Og ef þið viljið gleðja einhvern, þá er þessi uppskrift alveg ómótstæðileg leið til þess. Mín reynsla er sú að allir sem smakka verða vitlausir í þessar súkkulaðibitakökur,“ bætir Árni við og glottir.

Enn betri daginn eftir
Það sem gerir þær svo sérstakar er hvernig mismunandi tegundir súkkulaðis leika saman í hverjum bita – hvort sem það er dökkt, mjólkur eða hvítt. Þær eru jafnvel enn betri daginn eftir, ef þær endast svo lengi. Þetta eru kökur sem gera daginn betri, hvort sem þið borðið þær volgar með rjúkandi kaffi eða setjið í kökubox fyrir gestina.

Árni Þorvarðarson gefur börnunum sínum smakk af því sem hann …
Árni Þorvarðarson gefur börnunum sínum smakk af því sem hann er að gera. Fastur liður á heimilinu. mbl.is/Birta Margrét

„Crumble“ súkkulaðibitakökur

12 stórar súkkulaðibitakökur

  • 115 g púðursykur
  • 140 g sykur
  • 160 g smjör (við stofuhita)
  • 2 egg
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 290 g hveiti
  • 1 tsk. lyftiduft
  • ½ tsk. matarsódi
  • ½ tsk. salt
  • 150 g súkkulaði (t.d. 50 g dökkt + 50 g mjólk + 50 g hvítt – eða það sem þið eigið til)
  • 100 g súkkulaði til að setja ofan á (má vera sömu tegundir eða karamelluútgáfa)

Aðferð:

  1. Hitið ofn í 180°C (blástur) og leggið bökunarpappír á plötu.
  2. Þeytið saman smjör, púðursykur og sykur þar til ljóst og létt.
  3. Bætið eggjum og vanillu saman við og hrærið vel.
  4. Blandið hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti saman í skál og bætið saman við blautu efnin.
  5. Saxið súkkulaðið gróft og hrærið saman við deigið.
  6. Mótið stórar deigkúlur (ca. 80–90 g hver), raðið á bökunarplötu og þrýstið aðeins niður.
  7. Þrýstið eða stráið restinni af súkkulaðibitunum ofan á kökurnar – þetta myndar crumble súkkulaðiáferð.
  8. Bakið í 11–13 mínútur.
  9. Látið kólna á plötunni í 10 mínútur áður en þær eru færðar á grind.

Góðar hugmyndir - krem eða skraut (valkvætt)

  • Þið getið sprautað örþunnu súkkulaðikremi eða bætt ofan á með súkkulaðihjúpi.
  • Stráið sjávarsalti yfir í lokin ef þið viljið sætara saltbragð.
  • Gott að frysta hluta deigsins og baka seinna – passar vel fyrir óvæntar gestakomur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka