Nýstárlegir kókoshjúpaðir þorskhnakkar með kúskússalati og wasabisósu

Undursamlega góðir kókoshjúpaðir þorskhnakkar með kúskússalati og wasabisósu sem ljúft …
Undursamlega góðir kókoshjúpaðir þorskhnakkar með kúskússalati og wasabisósu sem ljúft er að njóta. Ljósmynd/Erna Sverrisdóttir

Fátt er betra en ljúffengur fiskréttur á mánudegi eftir hátíðarmat helgarinnar. En hér er á ferðinni nýstárlegur fiskréttur, kókoshjúpaðir þorskhnakkar með kúskússalati og wasabisósu. Wasabisósan er dásamlega góð og lyftir réttinum á hærra plan. Það er miklu auðveldara að töfra fram þennan rétt en þið haldið við fyrstu sýn.

Uppskriftin birtist á uppskriftavefnum Gott í matinn  og heiðurinn af henni á Erna Sverrisdóttir matgæðingur.

Kókoshjúpaðir þorskhnakkar með kúskússalati og wasabisósu

Þorskhnakkar

  • 4 stk. þorskhnakkar
  • Svartur pipar eftir smekk
  • 2 msk. smurostur og beikon
  • 1 ¼ dl kókosmjöl
  • 1 dl möndlumjöl
  • 1 msk. fínsöxuð fersk mynta
  • 1 msk. ólífuolía

Kúskússalat

  • 2 ½ dl kúskús
  • 2 ½ dl sjóðandi vatn
  • 1⁄2 stk. grænmetisteningur
  • 1 msk. rifinn appelsínubörkur
  • 1 msk. rifinn sítrónubörkur
  • 1 dl pistasíuhnetur, saxaðar
  • 2 dl þurrkuð trönuber, söxuð
  • Handfylli af fersku kóríander, saxað
  • Handfylli af ferskri myntu, söxuð
  • Tvö handfylli af spínati, saxað
  • 1 msk. ólífuolía
  • Svartur pipar eftir smekk

Wasabisósa

  • 1 ½ dl sýrður rjómi frá Gott í matinn
  • 1 msk. hrísgrjónaedik
  • 1⁄2 msk. wasabimauk, meira ef vill eða fersk wasabirót, rifin niður
  • 1 stk. límóna

Aðferð:

  1. Stillið ofninn á 180°.
  2. Byrjið á að gera sósuna.
  3. Hrærið sýrðum rjóma, hrísgrjónaediki og wasabi saman.
  4. Smakkið til með límónusafa og meira wasabimauki/wasabirót ef vill.
  5. Setjið þorskhnakkastykkin í olíuborið eldfast fat, eða á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Piprið.
  6. Bræðið smurost í potti á mjög lágum hita.
  7. Smyrjið honum yfir fiskstykkin.
  8. Blandið saman kókosmjöli, myntu, möndlumjöli og olíu og þekið fiskstykkin með blöndunni.
  9. Bakið í 15-20 mínútur.
  10. Setjið kúskús í skál sem þolir háan hita og myljið grænmetistening ofan á.
  11. Hellið síðan sjóðandi vatninu yfir og hyljið með plastfilmu.
  12. Látið standa í 10 mínútur.
  13. Blandið síðan öðrum hráefnum saman við sem eiga að fara í salatið og smakkið til með svörtum pipar.
  14. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert