Dagana 9.–13. september síðastliðinn fór fram keppnin Euroskills 2025 í iðn- og verkgreinum, sem haldin var í Herning í Danmörku. Keppnin hefur verið haldin reglulega frá árinu 2008, fyrst í Rotterdam, og er þetta í annað sinn sem íslenskur keppandi nær á verðlaunapall.
Gunnar Guðmundsson, keppandi í iðnaðarrafmagni, tryggði sér bronsverðlaun í sinni grein. Þá hlaut Andrés Björgvinsson, matreiðslumaður á Torfhús Retreat og meðlimur kokkalandsliðsins, hina virtu viðurkenningu Medal of Excellence fyrir framúrskarandi frammistöðu.
Haraldur Jóhann Sæmundsson, framkvæmdastjóri Hótel- og matvælaskólans, var meðal þeirra sem fylgdust með keppendum úti og hvatti þá til dáða.
„Í keppninni þurfti Andrés að útbúa fjölbreytta rétti fyrir alþjóðlega dómnefnd, þar á meðal pastarétt, fiskrétt og kjötrétt. Hann sýndi mikla yfirvegun þrátt fyrir álagið og áreitið frá fjölda áhorfenda, sem höfðu greinilega engin áhrif á einbeitingu hans.
Keppnin sjálf stóð yfir í þrjá daga þar sem keppendur þurftu að takast á við fjölbreytt verkefni, allt frá umhellingu á víni til flókinna skrautstykkja í bakstri. Álagið var gífurlegt, bæði vegna krefjandi verkefna og ekki síður vegna þess að yfir 100.000 áhorfendur fylgdust grannt með hverri hreyfingu keppenda.
Skemmtilegt augnablik átti sér stað þegar Daníel Árni Sverrisson, keppandi í framreiðslu, var að undirbúa kaffidrykki fyrir dómarana. Hann varð þá var við óvenju mikið umstang í kringum sig, leit upp og sá ástæðuna: Friðrik tíundi, konungur Dana, stóð beint fyrir framan hann og fylgdist af miklum áhuga með kaffihæfileikum Daníels,“ segir Haraldur og bætir við að það hafi verið mikil upplifun að fylgjast með seiglu og dugnaði íslensku keppendanna.
Ísland sendi alls 13 keppendur til leiks í fjölbreyttum iðn- og verkgreinum. Þar á meðal voru þrír keppendur frá Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi sem kepptu í matvælagreinum:
Andrés Björgvinsson í matreiðslu,
Daníel Árni Sverrisson í framreiðslu,
Guðrún Erla Guðjónsdóttir í bakaraiðn.
Árangur þessara ungu og efnilegu fagmanna undirstrikar þann mikla árangur sem Ísland hefur náð á sviði iðn- og verkgreina á alþjóðavettvangi. Hann sýnir líka hversu mikilvægt er að hið góða samspil skóla og vinnustaðar sé ávallt til staðar til að hægt sé að halda sem þéttast utan um nemendur meðan á námi þeirra stendur.
„Gaman er að segja frá því að mikil og jákvæð þróun hefur átt sér stað á síðustu árum í bakaraiðninni þar sem kvenkyns nemendum fer hratt fjölgandi og eru þær um helmingur nemenda í bakstri í Hótel- og matvælaskólanum á þessari önn. Það er mjög mikilvægt að þessir ungu nemar sem eru að stíga sín fyrstu skref í sinni iðn hafi flottar og öflugar fyrirmyndir til að líta upp til eins og þau hafa svo sannarlega í Guðrúnu Erlu og þeim fjölmörgu flottu kvenkyns bökurum sem hafa komið á undan henni.“
Að keppninni lokinni bauð frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, keppendum, þjálfurum og liðsstjórum til móttöku á Bessastöðum. Þar veitti hún viðurkenningu fyrir þátttöku og árangur á Euroskills.
Frú Halla hefur lengi verið ötul talskona iðn- og verkgreina. Hún á sjálf sterka tengingu við greinarnar sem dóttir pípulagningameistara og eiginkona Björns Skúlasonar, heilsukokks. Í ávarpi sínu sagði hún meðal annars:
„Ég hef lengi haft mikinn áhuga, virðingu og þakklæti til þeirra sem stunda verk- og iðnnám og held að vegur þess þurfi að vera enn meiri í okkar samfélagi.“