Haustið er skollið á í allri sinni dýrð, fallegu haustlitirnir skarta sínu fegursta og ný uppskera er komin í hús út um land allt. Fátt er betra en að fá matarmikla og góða rétti þar sem nýtt íslenskt grænmeti er í forgrunni.
Rúnar Gíslason matreiðslumeistari, eigandi Spírunnar og veisluþjónustunnar Kokkanna, fagnar þessa dagana og fer á kostum í eldhúsinu þar sem ný uppskera er komin í hús.
Rúnar tekur á móti okkur ljósmyndara Morgunblaðsins í líflegu eldhúsi Kokkanna. Þar má finna ilm af fersku rótargrænmeti og kryddjurtum – vísbendingu um að haustið sé uppáhaldsárstíðin hans í eldhúsinu. Hann er að gera dýrindis gulrótarsúpu sem hann kallar haustsúpuna sína.
„Ég hef alltaf haft mikla ástríðu fyrir íslenskri uppskeru,“ segir Rúnar og brosir. „Það er eitthvað sérstakt við að vinna með hráefni sem kemur beint úr moldinni okkar. Ég vil að fólk finni bragðið af árstíðunum í hverjum bita.“
Á þessum tíma árs veitir hin nýupptekna gulrótauppskera innblástur hjá honum. „Gulrætur eru alveg ótrúlega fjölhæfar,“ segir hann. „Þær gefa sætan og djúpan grunn í súpur og hlýja, litríka rétti sem passa fullkomlega í rigningunni og kuldanum. Svona mauksúpur eru ekta haustsúpur – kraftmiklar og góðar.“
Spíruna og Kokkana þekkja margir fyrir skapandi matargerð og mikil bragðgæði. Nú er annasöm vertíð í gangi hjá Rúnari og hans fólki.
„Fyrirtækjapartíin eru í fullum gangi þessa dagana,“ segir hann. „Við leggjum okkur fram við að skapa veislur sem passa við ólíkar þarfir. Það er okkur mikilvægt að hafa úrval bæði af hágæða kjötréttum og bragðgóðum grænmetisréttum fyrir þá sem kjósa plöntumiðað fæði.“
Fram undan er spennandi jólaundirbúningur með hátíðlegum hlaðborðum og gjafakössum, sem hafa notið mikilla vinsælda hjá bæði fyrirtækjum og fjölskyldum.
„Við finnum að fólk vill gæði og eitthvað sem er persónulegt,“ segir Rúnar og bætir við: „Þess vegna leggjum við mikla áherslu á að pakkarnir okkar séu bæði fallegir og bragðgóðir – þeir eiga að gleðja bæði auga og bragðlauka.“
Þegar hann er spurður hvað standi upp úr í hans starfi á þessum árstíma svarar hann hiklaust:
„Það er þessi tenging við hráefnið og fólkið sem nýtur matarins. Það er svo gefandi að sjá hvernig eitthvað sem vex hér á Íslandi getur orðið að hlýlegum, litríkum réttum sem sameina fólk.“
Rúnar segir að hann hlakki til að taka á móti gestum í vetur – hvort sem það er á jólahlaðborðinu í Spírunni fyrir fyrirtæki eða útsend jólahlaðborð frá Kokkunum.
„Gjafakassarnir skipa alltaf skemmtilegan sess hjá okkur. Fyrir kassana framleiðum við árstíðabundnar vörur eins og villibráðarpaté og heitreykta villibráð sem hafa orðið vinsælli og vinsælli með hverju árinu. Matargerð á alltaf að gleðja og það er akkúrat það sem við viljum gera,“ segir hann að lokum og deilir hér með lesendum uppskriftinni að gulrótarsúpunni sinni sem er hreinasta sælgæti.
Gulrótarsúpan hans Rúnars
Fyrir 2-4
Aðferð: