Bleika slaufan er árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins, tileinkað baráttunni gegn krabbameini hjá konum. Hagkaup er stoltur samstarfsaðili átaksins og tekur virkan þátt í því að styðja þetta mikilvæga málefni að því fram kemur í tilkynningu.
Hagkaup stendur fyrir sérstakri söfnun á afgreiðslukössum dagana 4.–12. október, og geta viðskiptavinir Hagkaups lagt söfnuninni lið í öllum verslunum landsins. Viðskiptavinum gefst tækifæri til að bæta 500 kr. framlögum við innkaup sín, sem renna beint til átaksins og Hagkaup bætir einnig við þá upphæð.
Hagkaup hefur um árabil tekið virkan þátt í átakinu með því að selja Bleiku slaufuna í verslunum sínum, auk þess að bjóða viðskiptavinum að styrkja málefnið í afgreiðslukössunum.
„Við hjá Hagkaup erum ótrúlega stolt af því að taka þátt í Bleiku slaufunni ár eftir ár. Þetta er mál sem snertir okkur öll á einhvern hátt, við þekkjum flest einhvern sem hefur staðið í þessari baráttu. Því finnst okkur sjálfsagt að leggja okkar af mörkum til að styðja við það ómetanlega starf sem Krabbameinsfélagið vinnur,“ segir Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups.
Hann bætir við að þátttaka viðskiptavina skipti sköpum:
„Við sjáum ár eftir ár hversu mikill samhugur ríkir þegar kemur að Bleiku slaufunni. Viðskiptavinir okkar sýna einstaka hlýju og vilja til að styðja við málefnið, og við erum þeim afar þakklát. Það er þessi samstaða sem gerir átakið svona áhrifaríkt.“
