Belgískar vöfflur sem bræða hjörtu

Belgískar vöffur af betri gerðinni sem enginn stenst.
Belgískar vöffur af betri gerðinni sem enginn stenst. mbl.is/Eyþór

Íslendingar eiga sér sterka vöffluhefð. Þunnar og mjúkar vöfflur með rjóma og sultu eru nánast ómissandi í kaffiboðum, fljótlegur og notalegur bakstur sem fyllir eldhúsin af ilmi af kanil og kardimommum. En þegar litið er út fyrir landsteinana má sjá að vöffluhefðin tekur á sig nýjar og spennandi myndir. Þar stendur Belgía fremst í flokki, með vöfflur sem teljast ekki aðeins bakstur heldur líka listform.

Gerjaðar vöfflur með karamelluðum sykri og stökkri áferð

Belgískar vöfflur skiptast í tvo flokka. Annars vegar eru Brussels-vöfflur, léttar og loftkenndar, hins vegar Liège-vöfflur – ríkulegar, smjörkenndar og með stökkri karamelluáferð. Þær síðari eru búnar til úr gerjuðu deigi og perlusykri sem bráðnar og karamelluserast við bökunina. Vöfflurnar eru oft seldar heitar á götum Belgíu, bornar fram án meðlætis – einfaldlega vegna þess að bragðið stendur fyrir sínu.

Heiðurinn af þessari uppskrift, eins og oft áður, á snillingurinn Árni Þorvarðarson, faggreinastjóri hjá Hótel- og matvælaskólanum.

„Hægt er að leika sér með meðlætið þegar belgískar vöfflur eru annars vegar. Til að mynda eru þær mjög góðar með flórsykri og smá vanilluís. Einnig er hægt að setja þær í sparibúning og bera þær fram með þeyttum rjóma, jarðarberjum, súkkulaðisósu eða Nutella. Loks er það belgíska útgáfan: Þá er bara að fá þær heitar úr járninu – ekkert annað, bara karamellan og smjörið í sínu besta samspili,“ segir Árni þegar hann er beðinn um að gefa hugmyndir að meðlæti með vöfflunum.

Hátíðleg bragðupplifun

Ef íslenskar vöfflur minna á hlýtt eldhús hjá ömmu eða mömmu, þá eru belgísku Liège-vöfflurnar hátíðleg upplifun sem fær bragðlaukana til að fagna. Hvort sem þær eru bornar fram á kaffiborði eða pakkaðar inn í smjörpappír til að njóta á göngu, eru þær sannkölluð sælkeraupplifun.

Árni Þorvarðarson kann að heilla lesendur upp úr skónum með …
Árni Þorvarðarson kann að heilla lesendur upp úr skónum með sínum girnilegu uppskriftum. mbl.is/Eyþór

Hér er uppskrift að hinum klassísku Liège-vöfflum, með mildri vanillu og perlusykri sem myndar fallegt karamellubrot í hverjum bita.

Liège-vöfflur

  • 500 g hveiti
  • 2 tsk. þurrger (eða 25 g ferskt ger)
  • 80 ml volg mjólk
  • 2 egg
  • 1 tsk. vanilludropar
  • ½ tsk. salt
  • 1 msk. sykur
  • 250 g ósaltað smjör (við stofuhita)
  • 200 g perlusykur*

*Perlusykur (e. pearl sugar) fæst í sérvöruverslunum eða á netinu. Hægt er að komast nálægt perlusykri með því að brjóta sykurmola gróflega.

Aðferð:

  1. Hitið mjólkina að volgu (ekki heitu) og blandið með sykri og geri. Látið standa í 5–10 mínútur, þar til blandan freyðir.
  2. Blandið hveiti og salti í stóra skál. Hellið gerblöndunni út í og bætið eggjum og vanillu við. Hnoðið þar til mjúkt deig myndast.
  3. Setjið smjörið út í í litlum skömmtum og hnoðið áfram þar til það er fullkomlega innblandað og deigið orðið slétt og glansandi. Þetta tekur um 10 mínútur í hrærivél.
  4. Þekið skálina með viskastykki og látið deigið hefast í um 1 klukkustund, eða þar til það hefur tvöfaldast að stærð.
  5. Hnoðið perlursykrinum varlega inn í deigið með höndunum.
  6. Skiptið deiginu í 10–12 jafnar kúlur. Geymið í kæli yfir nótt.
  7. Hitið belgískt vöfflujárn og bakið eina vöfflu í einu í 3–5 mínútur, þar til þær eru stökkar, djúpgullnar og karamellaðar að utan.
  8. Berið fram með því sem hugurinn girnist.

Athugið:
Sykurinn getur bráðnað og lekið úr járninu. Smyrjið járnið með smá smjöri eða olíu til að forðast að vöfflurnar festist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert