„Matarævintýri á TIDES – ferð um íslenska náttúru á disknum“

Ævintýraleg matarupplifun á TIDES COUNTER, á veitingastaðnum TIDES á The …
Ævintýraleg matarupplifun á TIDES COUNTER, á veitingastaðnum TIDES á The Reykjavík EDITION hótelinu við Reykjavíkurhöfn. Kokkurinn Mikael Ásgeirsson bauð upp á óvissuferð um íslenska náttúru sem á sér enga líka. Samsett mynd

Á dögunum var ég svo lánsöm, ásamt fleiri góðum gestum, að fá að njóta ævintýralegrar matarupplifunar á TIDES COUNTER, á veitingastaðnum TIDES, sem staðsettur er á The Reykjavík EDITION hótelinu við Reykjavíkurhöfn. Þar bauð kokkurinn Mikael Ásgeirsson upp á óvissuferð um íslenska náttúru sem á sér enga líka.

Ljósmynd/Aðsend

Veitingastaðurinn TIDES er einstaklega fágaður og þjónustan framúrskarandi í alla staði. Móttökurnar eru ávallt hlýjar og starfsfólkið vandað í fasi – það leggur metnað sinn í að lesa viðskiptavinina og bjóða þeim upp á allt sitt besta.

Útsýnið á þakbarnum er stórfenglegt.
Útsýnið á þakbarnum er stórfenglegt. Ljósmynd/Aðsend

Þegar ég mætti til kvöldverðarins var mér boðið upp á þakbarinn, þar sem ævintýraförin um íslenskar óbyggðir hófst fyrir alvöru. Það var virkilega viðeigandi að byrja þar, þar sem útsýnið skartar sínu fegursta og endurspeglar þá náttúru og andstæður sem Ísland hefur upp á að bjóða. Þarna sá ég yfir höfnina sem iðaði af lífi, fjallagarðinn þar sem Esjan sýndi sínar bestu hliðar og hafið með öllum sínum leyndardómum.

Töfrandi útgeislun og frásögn

Mikael tók vel á móti gestum og hóf förina á persónulegum nótum, þannig að við fengum strax innsýn í hvaða persónu hann hefur að geyma. Ástríða hans fyrir hráefninu og meðhöndlun þess skein í gegn, og sögurnar um hvern einasta rétt voru bæði fræðandi og skemmtilegar. Hann náði að heilla mig með sinni töfrandi útgeislun og frásögn.

Hann sýndi að einfaldur íslenskur réttur með smá tvisti getur orðið að algjöru meistaraverki – ef hann er gerður af ástríðu. Það var einmitt mín upplifun þetta kvöld.

Uppi á þakbarnum var boðið upp á léttan og fallegan kokteil til að koma bragðlaukunum á flug. Síðan hófst matarupplifunin í berjamó, þar sem Mikael rúllaði inn kræsingum sem bornar voru í berjamó, stökku andalæri og nýstárlegu krönsí flatbrauði með krásum úr íslenskri náttúru. Þetta var forsmekkurinn af því sem koma skyldi.

Fágaður og fallegur staður.
Fágaður og fallegur staður. Ljósmynd/Sjöfn Þórðar

Síðan lá leiðin niður á veitingastaðinn TIDES, sem er á fyrstu hæð. Þar fengum við sæti við „chef’s table“ og höfðum yfirsýn yfir allt sem var að gerast í eldhúsinu. Þá hófst matarveislan fyrir alvöru – sem snerti við öllum skilningarvitunum.

Þvílík dýrð á disk.
Þvílík dýrð á disk. Ljósmynd/Sjöfn

Mikael ásamt kokkateyminu á TIDES töfruðu fram ómótstæðilega og ljúffenga rétti, hvern af öðrum, af ástríðu og fagmennsku. Það sem gerði upplifunina svo áhugaverða var að hverjum rétti fylgdi saga og frásögn Mikaels var svo skemmtileg að hann hreif mann með sér út á sögusviðið á einstakan hátt.

Íslensk náttúra færð á diskana í fallegum búningi

Fyrsti rétturinn var íslensk heiðagæsabringa sem frændi kokksins veiddi, borin fram með krækiberjasafti og íslensku byggi og með henni var boðið upp á rósavín frá Sikiley. Algjört lostæti að njóta.

Gæsabringan bragðaðist guðdómlega vel.
Gæsabringan bragðaðist guðdómlega vel. Ljósmynd/Sjöfn

Síðan var boðið upp á ljúffengan plokkfisk, steinbít, sem var borinn fram með ostinum Feyki, styrjuhrognum ofan á íslensku heimabökuðu rúgbrauði.

Plokkfiskur með styrjuhrognum borinn fram á rúgbrauði í smábita formi.
Plokkfiskur með styrjuhrognum borinn fram á rúgbrauði í smábita formi. Ljósmynd/Sjöfn

Þriðji rétturinn sem mér fannst sá frumlegasti og skemmtilegasti var pönnukaka, millee-feuille, með taðreyktum silungi frá Svartárkoti með skyri. Rétturinn innihélt íslenskar pönnukökur sem smurðar voru með skyri, lag fyrir lag og rétturinn var borinn fram eins og fallegasta laggterta. Mikael sagði þetta vera besta silung í heimi enda veiddur og verkaður á æskuslóðum hans.

Íslensk pönnukaka með taðreyktum silungi og skyri saman sett eins …
Íslensk pönnukaka með taðreyktum silungi og skyri saman sett eins og lagterta. Ljósmynd/Sjöfn

Langvía, sem er ein tegund af svartfugli var fjórði rétturinn, sem kokkurinn kallaði sjófugla tataki, borinn með sjávarþangi og rabarbara sem kom skemmtilega á óvart. Hér var á ferðinni wakame, japanskt þang sem passar afar vel með íslenska fuglinum.

Langvía, sem er ein tegund af svartfugli, var fjórði rétturinn, …
Langvía, sem er ein tegund af svartfugli, var fjórði rétturinn, sjófugla tataki, borinn með sjávarþangi og rabarbara sem kom skemmtilega á óvart Ljósmynd/Sjöfn

Sá fimmti var algjörlega frábær, grillað hvítkál með bláskel og papriku í rjómasmjörsósu sem bráðnaði í munni.

Grillað hvítkál með bláskel og papriku í rjómasmjörsósu.
Grillað hvítkál með bláskel og papriku í rjómasmjörsósu. Ljósmynd/Sjöfn

Sjötti rétturinn var léttgrillaður steinbítur með kerfli og þara sem fékk að njóta sín í sínu eigin soði. Ekta íslenskur réttur af bestu gerð.

Léttgrillaður steinbítur með kerfli og þara sem fékk að njóta …
Léttgrillaður steinbítur með kerfli og þara sem fékk að njóta sín í sínu eigin soði. Ljósmynd/Sjöfn

Sjöundi rétturinn var hið óvænta ballotine, önd og súrsuð ber, sem gáfu bragðlaukunum góðan gaum.

Ballotine, stokkönd og súrsuð ber.
Ballotine, stokkönd og súrsuð ber. Ljósmynd/Sjöfn

Áttundi rétturinn og sá ferskasti var graníta, túrsúra og basilíka í formi sorbet. Gott að enda ævintýraförina á honum.

Graníta, túrsúra og basilíka.
Graníta, túrsúra og basilíka. Ljósmynd/Sjöfn

Loks var boðið upp á affogato, kaffi og ís eða heitt súkkulaði og ís ásamt koníaksdreitli sem rann ljúft ofan í mannskapinn. Þar sem ég drekk ekki kaffi, valdi ég heita súkkulaðið. Og, vá, þvílík framsetning og bragð, besta heita súkkulaði sem ég hef fengið á veitingastað.

Ofan í heitt súkkulaði eða kaffi skal það vera.
Ofan í heitt súkkulaði eða kaffi skal það vera. Ljósmynd/Sjöfn

Í hjartastað

Þetta var hreinn unaður að njóta, og fagmennskan var í fyrirrúmi alls staðar. Það er ákveðinn sjarmi yfir því að sjá kokkana að störfum í eldhúsinu – hvernig eldhúsið virkar sem lifandi lífvera þar sem allt vinnur saman sem eitt teymi. Það er magnað að sjá hversu mikið matur getur snert hjartað, jafnvel hjá kokkum sem hafa unnið við fagið allt sitt líf.

Matreiðsla og matargerð eru list, líkt og tónlist, bókmenntir eða málverk – og á TIDES er hún í hæsta gæðaflokki.

Einnig var aðdáunarvert að sjá framsetningu réttanna og hve fallega þeir voru bornir fram. Glöggt gestsaugað gat meðal annars séð hönnun Guðbjargar Káradóttur hjá KER – þetta kvöld var sannkölluð list í öllum sínum myndum.

Teymið á TIDES gerði upplifunina ógleymanlega með sinni einstöku hæfni, ástríðu og hlýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert