Moka út grænmetiskössum

Hilmar Steinn Grétarsson og Tjörvi Bjarnason hafa í nægu að …
Hilmar Steinn Grétarsson og Tjörvi Bjarnason hafa í nægu að snúast við að afgreiða grænmetiskassana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kaupmennirnir í Matlandi selja gæðavörur frá bændum. Vitundarvakning hefur orðið hjá landsmönnum og sífellt fleiri vilja vita hvað þeir setja ofan í sig og hvaðan það kemur.

„Það er fullt af bændum sem eru að gera spennandi hluti. Hver og einn bær er ákveðið vörumerki, rétt eins og í vínrækt í Frakklandi. Ef þú ert með nógu góða vöru þá vilja allir kaupa hana. Við sjáum um að koma þessum vörum á framfæri,“ segja þeir Tjörvi Bjarnason og Hilmar Steinn Grétarsson, eigendur Matlands við Hrísateig.

Í Matland kemur fólk ekki til að sækja sér þriðjudagstilboð á kjötfarsi eða dós af fiskbúðingi. Þar fær það gæðavörur frá bændum og fyrsta flokks framleiðendum. Sífellt fleira fólk vill vera meðvitað um hvað það borðar; frá hverjum varan kemur, hvernig aðbúnaður dýra var, á hverju þau voru fóðruð og svo framvegis.

Viðskiptavinum Matlands hefur fjölgað jafnt og þétt síðan það var sett á stofn fyrir rúmum þremur árum. Upphaflega hugmyndin hjá Tjörva og Hilmari var að Matland yrði miðill sem fjallaði um matvælaframleiðslu í landinu. Þeir höfðu enda báðir reynslu af þeim vettvangi, Tjörvi af Bændablaðinu og Hilmar af Reykjavík Grapevine. Samhliða þessum miðli var sett upp vefverslun sem átti að vera tekjulind fyrir hann. Fljótlega yfirtók búðin þó allt.

Pylsumeistarinn flutti á brott

Tjörvi og Hilmar rifja upp að ýmsir hafi áður reynt að selja upprunamerkt matvæli. Frú Lauga hafi gert það að nokkru leyti og allmargir bændur selji sjálfir. Dreifileiðin til neytenda hefur verið óljós og stundum torfær en hjá Matlandi er boðið upp á vefverslun, heimkeyrslu og sjálfsafgreiðslu þar sem viðskiptavinir sækja sínar vörur.

„Við afhentum vörurnar okkar til að byrja með hér hjá Sigga pylsumeistara. Við byrjuðum undir hans verndarvæng, leigðum aðstöðu og afhentum. Þegar grænmetiskössunum fjölgaði óhóflega ákvað Siggi að flytja sig yfir götuna þar sem Frú Lauga var áður og við tókum þetta húsnæði yfir og gerðum að okkar.“

Margir borga fyrir góða vöru

Þeir félagar hafna því að aðeins lítill, afmarkaður hópur sæki í vörur þeirra. Það komi þeim ekki á óvart hversu margir séu tilbúnir að borga fyrir góða vöru.

Gott dæmi sé ásókn í nautakjöt í Matlandi. Lengi hafi sú mýta verið uppi að íslenskt nautakjöt væri síðra en erlent kjöt. Í dag leggi margir bændur mikinn metnað í nautgriparækt. Hér fæst kjöt af angus-kyni og grasfóðrað kjöt svo dæmi séu tekin en ekki muni minna um að kjötið sé látið hanga og meyrna. Slíku sé almennt ekki til að dreifa í stórmörkuðum.

Naut og grænmeti vinsælt

„Við erum svo litlir að við getum valið hvaðan við fáum kjöt, við bæði veljum bændur og við veljum réttu skrokkana. Núna fáum við kjöt frá sex búum og ekkert þeirra er eins. Sama gildir með lambakjötið, við erum að fá kjöt sem er búið að hanga í fimm daga,“ segja þeir og bæta við að viðskiptavinir hafi jafnframt tekið vel í kjöt af frjálsum grísum. „Fólk spyr um þessar vörur,“ segir Hilmar.

Vinsælustu vörurnar í Matlandi eru nautakjötið og grænmetiskassar. Þeir eru afgreiddir vikulega og hefur svo verið frá því að Matland hóf starfsemi. „Grænmetið er hryggjarstykkið í rekstrinum sem við seljum um allt land,“ segir Tjörvi.

Selja á vinsæla veitingastaði

Misjafnt er hvað er að finna í kassanum hverju sinni, einkum og sér í lagi eftir árstíðum. Nú er rótargrænmeti áberandi en yfir háveturinn tekur gróðurhúsagrænmeti við. Kassana og aðrar vörur getur fólk fengið heimsent gegn gjaldi eða valið að sækja í Matland. Ef enginn er við getur fólk sjálft opnað með kóða sem það fær sendan.

Auk þess að selja vörur til almennings hefur Matland líka milligöngu um hráefni fyrir veitingastaði. Þannig selja þeir félagar kjöt á Michelin-staðinn Dill og á veitingastaðinn Vox hjá Hilton við Suðurlandsbraut, auk þess sem Edition-hótelið kaupir grænmeti í hverri viku.

Smábæjarbragurinn góður

Hilmar og Tjörvi sjá sjálfir um allan reksturinn en segjast þó hafa notið aðstoðar ýmissa hjálparhella í fjölskyldunni við pökkun, útkeyrslu og fleira. Þeir eru hæstánægðir með staðsetninguna. „Hér er góður smábæjarbragur. Við finnum að fólk kann að meta verslun í nærumhverfinu,“ en í sama húsi er bakarí, myndlistarvöruverslun og kaffihús og hinum megin við götuna Pylsumeistarinn, Krambúðin og ísbúð.

Aðspurðir segja þeir að framtíðin sé björt. Þeir hafa keypt húsnæðið við hliðina á Matlandi og hafa því möguleika á að stækka í framtíðinni. Þeim liggi þó síður en svo á.

„Ef við horfum þrjú ár aftur í tímann má sjá að við höfum byggt okkur hægt og rólega upp. Þetta er hægur vöxtur, rétt eins og hjá hráefnunum sem við seljum. Það þýðir ekki að taka stór stökk, sérstaklega ekki ef þú ert að vinna með bændum. Allt tekur sinn tíma.“

Framleiðendur um allt land

Eins og viðskiptavinir Matlands hafa fengið að kynnast er úrvalið þar á bæ fjölbreytt og tekur vitaskuld breytingum eftir árstíðum. Tjörvi og Hilmar voru beðnir að nefna nokkra bæi og framleiðendur sem þeir kaupa hráefni af.

Þeir kaupa af Sölvanesi sem er lífrænt vottað sauðfjárbú í Skagafirði, grasfóðrað naut frá þeir frá Tjörn á Mýrum og hreindýrakjöt er keypt beint af veiðimönnum. Eins skipta þeir við lífrænu kúabúin á Neðra-Hálsi, Búlandi og Eyði-Sandvík, Gunnbjarnarholt, sem framleiðir mjólk og holdagripi, og Sólskins grænmeti á Flúðum.

Frá Hvammi í Ölfusi koma Ölnaut og aðrar steikur, frá Árdal í Kelduhverfi kemur lambakjöt, sama gildir um Miðhús á Ströndum, geitakjöt kemur frá Snorrastöðum, grísakjöt kemur frá Litla búgarðinum og Biobú er með lífræna kjötið, frosið og ferskt. Þá má ekki gleyma hrossakjöti og fleiri kjötvörum sem koma frá Villt og alið á Hellu.

Seljavellir í Hornafirði útvega Matlandi kartöflur og Biobóndinn í Litlu-Hildisey selur lífrænar kartöflur þangað. Sjávarbúrið í Hafnarfirði og Hnýfill í Eyjafirði selja Matlandi fiskmeti og Kaffibrugghúsið sér um kaffið.

Garðyrkjubændur innan raða Sölufélags garðyrkjumanna leggja vitaskuld til vörur og Lambhagi útvegar grænmeti. Frá Völlum í Svarfaðardal koma ber, sultur og fleira en Tariello og Pylsumeistarinn útvega pasta, pylsur og salami.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert