Brynhildur Guðjónsdóttir er leikari og leikstjóri söngleiksins Moulin Rouge! og fyrrverandi leikhússtjóri Borgarleikhússins. Hún er mikil áhugamanneskja um listir, menningu og tungumál.
Hún lýsir sér sem listhneigðri og heimakærum fagurkera sem elskar að róta í beðum, tala við dýr og drekka kampavín. Brynhildur hefur mikla ástríðu fyrir franskri menningu og öllu sem henni fylgir. Hún fór ung til Frakklands til að stunda nám í frönsku.
„Ég fór 16 ára í málaskóla í Frakklandi og stundaði síðar nám við Université Paul Valéry í Montpellier sem hluta af BA-námi í frönsku við Háskóla Íslands. Það má segja að það hafi verið eins konar ást við fyrstu sýn – óútskýrð, innileg væntumþykja og rómantísk tilfinning sem tengdist bókmenntum, listasögu og þessu dásamlega tungumáli, frönskunni,“ segir Brynhildur af innlifun.
Að sögn Brynhildar er hlutverk leikhússtjóra að vera stöðugt á höttunum eftir bestu verkunum fyrir leikhúsið.
„Sem leikhússtjóri er maður alltaf að leita að bestu bitunum fyrir leikhúsið. Sem unnandi kvikmyndar Baz Luhrmann frá 2001 og áhugamanneskja um söngleiki var það draumur að fá réttinn að söngleiknum fræga til Borgarleikhússins.
Svo var að setja saman teymið til að leiða verkefnið til lykta. Það tókst frábærlega og sérstaklega er ég stolt af leik- og danshópnum sem er á algjörum heimsmælikvarða, íslensku þýðingunni, ljósa- og hljóðhönnun – að ógleymdri tónlistinni allri. Algjört dúndur!“
Að leikstýra verki á borð við Moulin Rouge! er stórt verkefni, en Brynhildur segir það henta sér vel.
„Þegar það eru áskoranir og krefjandi verkefni fram undan kann ég best við mig – í krefjandi aðstæðum með góðu fólki. Það heldur mér vakandi, hamingjusamri og lifandi.“
Frumsýningin fékk mikið lof, bæði frá áhorfendum og gagnrýnendum. Brynhildur segir upplifunina eftir frumsýningu hafa verið tilfinningaþrungna.
„Ég var óskaplega stolt af mínu fólki, stolt að standa við hlið danshöfundarins Kirsty McDonald og aðstoðarleikstjórans míns Melkorku Gunborgar Briansdóttur. Hjartað sló nokkur aukaslög þegar ég áttaði mig á að þetta var búið – og svo leið tíminn allt of hratt, ég náði ekki að knúsa helminginn af fólkinu,“ segir hún meyr.
Brynhildur hefur ekki aðeins brennandi áhuga á franskri list og menningu – heldur einnig á franskri matargerð.
„Já, mér finnst frönsk matargerð dásamleg og hún hentar mér vel – fer vel í mig, eins og sagt er,“ segir hún og brosir.
Þegar talið berst að mat, segir Brynhildur einfaldleikann höfða mest til sín.
„Mér finnst einfaldur matur bestur. Ostrur og kampavín, confit de canard, steik og grænt salat, geitarostasalat, lifur og allir ostarnir.
Mér finnst gaman að borða góðan mat – ég er létt á fóðrum, þannig að ég get ekki borðað mikið. Allt fínt í hófi. Ég er ekki sérlega flink að elda – eldamennska hefur setið á hakanum á meðan ég var leikhússtjóri, en nú má gera bragarbót!“
Þegar spurt er um uppáhaldsmatarborg, kemur svarið tafarlaust:
„París.“
Og uppáhaldsstaðurinn þar?
„La Coupole. Hann er gamall, klassískur, alltaf eins – grand boulevard brasserie eins og það gerist best.“
Brynhildur á erfitt með að velja einn rétt, en samsetningin er alltaf frönsk í grunninn.
„Ostrur og kampavín, sole meunière og crêpes Suzette í desert.“
Hún á sér einnig nokkra ómissandi staði í París sem hún heimsækir ávallt.
„Þá eru Le Procope, Les Deux Magots, Café de Flore og Café de la Paix í miklu uppáhaldi, og ég reyni alltaf að gera mér ferð á þessa staði.“
Þegar hún situr á frönsku kaffihúsi er drykkurinn einfaldur en klassískur.
„Ég bið ávallt um une noisette (espresso macchiato).“
Og þegar kemur að uppáhaldsdrykk?
„Kampavín – Bollinger og Drappier Clarevallis! / Pinot Noir / Á sumrin finnst mér Ricard og 51 gott, en hitastigið verður að vera yfir 25 gráður,“ segir Brynhildur og brosir breitt.
Aðspurð hvað standi upp úr þegar hún heimsækir París, er svarið fullt af lífi og ástríðu.
„Byggingarlistin, listasöfnin, Père Lachaise-kirkjugarðurinn, Signa, ljósaskiptin, glitrandi Eiffelturninn, rauðvín og ostar á kaffihúsi í Montmartre á kvöldin. Þið sem hafið ekki farið – heimsækið Frakkland! París er æði, Bretagne er æði, og beina flugið til Nice er snilld.“