Nýir eigendur hafa tekið við veitingastaðnum Duck & Rose og yfirkokkur staðarins, Margrét Ríkharðsdóttir, sem var einnig einn af eigendum staðarins, hefur látið af störfum.
Margrét hefur verið yfirkokkur á Duck & Rose síðan staðurinn var opnaður sumarið 2020 og fór síðar sama ár í eigendahópinn.
„Árin hafa verið krefjandi en skemmtileg og ég hef lært margt á leiðinni. Við höfum verið svo heppin að vera með frábært starfsfólk með okkur í þessu frá opnun. Við seldum staðinn í sumar og nýir eigendur, Skarphéðinn Guðmundsson og Helga Þórunn Pálsdóttir, hafa tekið við staðnum. Þau eru að koma ný inn í veitingageirann, sem getur svo sannarlega verið mikil áskorun, en þau eru heppin með allt frábæra starfsfólkið sem mun koma þeim á réttan veg,“ segir Margrét.
Hún hefur nú rétt arftaka sínum eldhúsið og horfir björtum augum til framtíðarinnar – í bland við söknuð á staðnum.
„Nú, eftir fimm góð ár, hef ég lokið störfum og rétt keflið til Joao Portilheiro með stolti. Hann hefur einmitt verið vaktstjóri hjá mér síðan staðurinn opnaði. Við höfum starfað saman í mörg ár. Joao er reynslumikill kokkur sem hefur unnið á mörgum góðum stöðum og því spennandi að sjá þær breytingar sem hann mun koma með inn á seðilinn. Ég hlakka mikið til að fylgjast með Joao í sinni nýju stöðu og þykir vænt um að hann fái þetta tækifæri,“ segir Margrét og bætir við:
„Það er verulega skrítið að kveðja staðinn og allt frábæra fólkið sem mér þykir svo vænt um. Staðurinn er eins og barnið mitt og mér líður svolítið eins og ég sé að yfirgefa hann. Tilfinningin er engu að síður góð, því ég veit að gott fólk er í brúnni.“
Það er margt sem fór gegnum hugann hjá Margréti þegar hún rétti fyrrverandi félaga sínum keflið.
„Það sem stendur upp úr eru allar góðu stundirnar á staðnum. Mér þykir svo vænt um tímann minn þar og allt góða fólkið sem hefur hjálpað mér að gera staðinn að því sem hann er. Ég mun sannarlega sakna þess að sjá ekki fastakúnnana mína – sumir hverjir eru orðnir góðir vinir mínir,“ segir Margrét meyr.
Aðspurð segir hún að rétt hafi verið að stíga til hliðar og prófa eitthvað nýtt.
„Ég vil líka gefa öðrum tækifæri til vaxtar og vinna næstu skref með nýju eigendunum, Skarphéðni og Helgu, að setja sitt fingrafar á staðinn. Ég er alveg að breyta um stefnu og ætla að prófa að fara í dagvinnu. Ég hef þegar hafið störf hjá SV-veitingum og mun sjá um mötuneytið hjá Sjóvá. Ég vona innilega að ég geti glatt það góða fólk með góðum mat – svo verður auðvitað alls konar skemmtilegt með því,“ segir Margrét með bros á vör.
Nýi yfirkokkurinn er kominn á fullt og segir að margt spennandi sé á döfinni.
„Við erum byrjuð með skemmtilegar nýjungar og ég hef sett saman Októberfest-rétti sem verða í boði allan októbermánuð með alvöru Októberfest-bjór. Svo er jólaseðillinn tilbúinn – og hann er mjög spennandi, þó að ég segi sjálfur frá,“ segir Joao með bros á vör.