Bændur hafa í nógu að snúast á þessum tíma árs, hvort sem þeir eru að smala fé af fjöllum eða huga að uppskeru sumarsins. Lífrænar gulrætur, stútfullar af hollustu, streyma nú í vinnsluhús Akurs Organic frá ökrum þeirra í Þistilfirði og virðist uppskeran vera með ágætum en eingöngu er um lífræna ræktun að ræða.
„Sumarið var einstaklega hagstætt og uppskeran mun betri en í fyrra,“ sögðu þær Brynja Reynisdóttir og Ólína I. Jóhannesdóttir, sem eiga og reka fyrirtækið ásamt eiginmönnum sínum.
„Jarðvinnsla og sáning í maí gekk vel í blíðunni en svo kom júníhretið með illviðri og stormi. Þá rifnuðu dúkar yfir gulrótunum og við þurftum að endurnýja þá og skemmdir urðu líka á nokkrum beðum. En júlí og ágúst bættu það allt upp með dásamlegri veðurblíðu og allt lítur vel út núna.“
Enginn tilbúinn áburður er notaður við lífræna ræktun en ekki er um langan veg að fara til að fá úrvals lífrænan áburð, fiskimjöl frá bræðslu Ísfélagsins á Þórshöfn. Gulræturnar spretta vel af áburðinum en illgresið lætur líka á sér kræla.
„Arfann þarf að handtína minnst tvisvar sinnum yfir sumarið og allir fjölskyldumeðlimir leggja þar hönd á plóginn, hér má aldrei nota illgresiseyði af neinu tagi,“ sögðu þær Ólína og Brynja, stoltar af sínu hreina, lífræna grænmeti, en Akur Organic er með stærstu framleiðendum landsins á lífrænum gulrótum.
Á lífræna deginum nýverið var svo opið hús hjá fyrirtækinu þar sem íbúum byggðarlagsins var boðið í heimsókn og að skoða húsnæðið þar sem búið er að koma upp fullbúinni vinnslu fyrir lífræna grænmetið. Rúmt ár er síðan Akur Organic festi kaup á húsinu á Þórshöfn en það var áður í leiguhúsnæði.
Brynja og Ólína tóku vel á móti gestum og að sjálfsögðu voru nýuppteknar, brakandi ferskar gulrætur á boðstólum. Eiginmenn þeirra voru önnum kafnir þá, annar að smala en hinn á ökrunum að taka upp því að uppskerutíminn stendur enn yfir.
„Við erum því ekki komnar með tölur yfir uppskerumagnið en nokkuð ljóst að það er alveg með ágætum núna,“ sögðu gestgjafarnir.
Lífrænar gulrófur eru líka í ræktun en þurfa aðeins lengri tíma og uppskera á þeim því ekki hafin. Gulrófan er meinholl líkt og gulrætur og er hún stundum nefnd sítróna norðursins þar sem hún er mjög rík af C-vítamíni.
Gulræturnar eru komnar í dreifingu um allt land á vegum Sölufélags garðyrkjumanna og enn er fersk uppskera að berast í hús hjá Akri Organic í flokkun og pökkun.