Færir Íslendingum ítalskan gæðabjór

Haukur Heiðar Leifsson kynnir bjóráhugafólki ítalska bjórinn Tipopils á Skúla …
Haukur Heiðar Leifsson kynnir bjóráhugafólki ítalska bjórinn Tipopils á Skúla Craft Bar á fimmtudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haukur Heiðar Leifsson hefur lengi verið í hópi mestu smekkmanna þegar kemur að bjór og léttvínum. Hann og Guðbjörg Þorsteinsdóttir kona hans hafa nú látið gamlan draum rætast og hafið innflutning á gæðavínum- og bjór. 

Á morgun, fimmtudaginn 9. október, blása þau til ítalskrar bjórveislu á Skúla Craft Bar við Aðalstræti. Þar verða sex bjórar frá ítalska brugghúsinu Birrificio Italiano á krana, þar á meðal hinn þekkti Tipopils sem kemur í sölu hér á landi á næstunni. 

Agostino Arioli og félagar hjá Birrificio Italiano eru frumkvöðlar í ítalskum handverksbjór en þetta litla brugghús nálægt Como er búið að vera starfandi síðan 1994. Tipopils er frumgerðin af hinum svokallaða „Italo Pils“. 

Bjórinn frá Birrificio Italiano er annálaður fyrir ferskleika og er alveg laus við tilgerð. Bjór fyrir bjórunnendur eins og Agostino orða það, segir Haukur Heiðar.

„Við hjónin höfum haft brennandi áhuga á víni í gegnum tíðina og þá sér í lagi náttúruvíni og þessi hugmynd hefur verið lengi í gerjun. Eftir ferð til Sikileyjar þar sem við komumst í tæri við hreint mögnuð vín varð ekki aftur snúið og við stofnuðum fyrirtækið Pinot,“ segir Haukur Heiðar.

Haukur Heiðar kveðst hafa komið að stofnun tveggja bara í Reykjavík auk þess sem hann hefur starfað af og til innan áfengisbransans. Hann kveðst ekki geta neitað því að það sé eitthvað við þetta umhverfi sem togar sífellt í hann. 

„Við erum miklir náttúruvínsunnendur og hér á landi eru nokkrir frábærir innflytjendur en lengi má gott bæta. Mér hefur fundist „trendið“ á alþjóðavísu vera að fara í þá átt að veitingastaðir væru meira farnir að hugsa um litla framleiðendur og náttúruvín. Við höfum kynnst frábærum bændum, bæði á Ítalíu og í Frakklandi sem við erum afar stolt að vera að flytja inn. 

Bjórinn er seldur bæði 33 cl flöskum og 75 cl …
Bjórinn er seldur bæði 33 cl flöskum og 75 cl flöskum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Við erum í viðskiptum við frábæra veitingastaði og finnum að þrátt fyrir að þetta sé eins og staðan er í dag frekar lítil „sena“ að þá er hún engu að síður á uppleið. Mín tilfinning er að komandi kynslóðir muni sækja meira í sjálfbærni og lífrænar vörur beint frá býli heldur en verksmiðjuframleidd vín.“

Sveipað goðsagnakenndum blæ

Haukur segir að þegar kom að því að velja bjór til innflutnings hafi einnig verið horft til gilda fyrirtækisins um litla framleiðendur og sjálfbærar vörur. 

„Birrificio Italiano er eitt elsta handverksbrugghús Ítalíu og hefur í gegnum tíðina verið sveipað goðsagnakenndum blæ hvað varðar þeirra aðalbjór, Tipopils. Tipopils hefur lengi verið ákveðið „rarity“ í bjórheiminum og sannkallaður bruggarabjór, enda ógerilsneyddur þurrhumlaður lagerbjór. 

Eigandi og aðalbruggari brugghússins fékk þessa hugmynd áður en hann stofnaði brugghúsið, að brugga lagerbjór sem væri algjörlega ógerilsneyddur og þurrhumlaður. Hugmyndin er sprottin upp frá CAMRA-hreyfingunni í Bretlandi sem fór að berjast fyrir ógerilsneyddum og ósíuðum bjór þar í landi um 1970. 

Þegar brugghúsið var stofnað 1996 var ekkert nema verksmiðjubjór á Ítalíu og lítið sem ekkert um ógerilsneydda bjóra eða handverksbjór. Agustino Arioli, eigandi og bruggari fékk því þessa hugljómun í árdaga handverksbjórs á Ítalíu. 

Allir bjórar Birrificio Italiano eru sannkallaðir handverksbjórar, allir ógerilsneyddir og Agostino kappkostar að brugga bjóra sem eru ferskir og hreinir í eðli sínu en samt sem áður bragðmiklir og með stóran karakter. Þegar okkar samstarf hófst á Ítalíu í sumar á fundi í Toscana-héraði þá kom strax þessi hugmynd upp, að halda hér viðburð sem er nú orðinn að veruleika á Skúla Craft Bar á fimmtudagskvöld. Agostino kemur svo hingað til lands í næsta mánuði til að brugga bjór með íslensku brugghúsi.“

Vinsæll þýskur pilsner á leiðinni

Þess má geta að Tipopils er ekki eini ógerilsneyddi lagerbjórinn í vöruúrvali Pinot því eftir langt ferli verður Rothaus Tannenzäpfle fáanlegur í ÁTVR í þessari viku að sögn Hauks Heiðars.

„Rothaus-brugghúsið hefur lengi bruggað þennan vinsæla þýskal pilsner bjór sem flestir Íslendingar ættu að þekkja af miðanum einum. Þess má geta að Rothaus brugghúsið er sjálfbært brugghús og er alfarið í eigu Baden Wurtemberg-ríkisins. Rothaus Tannenzäpfle hefur lengi verið ákveðinn „költ"-bjór, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum og því gaman að sjá hvernig Íslendingar bregðast við honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert