Í dag hófst stórglæsileg matarhátíð í Turku í Finnlandi, þar sem 15 alþjóðlegir gestakokkar taka höndum saman með fremstu veitingastaðunum borgarinnar. Hátíðin hófst í dag, 8. október, og stendur til 12. október næstkomandi.
Íslenskir fagmenn verða í sviðsljósinu meðal þátttakenda og munu láta ljós sitt skína með framúrskarandi matargerð. Einnig er íslenskt hráefni á hávegum haft, en þátttakendur sýna listir sínar í matargerð með ekta íslensku wasabi frá Nordic Wasabi, sem hefur vakið mikla eftirtekt um allan heim.
Á meðal þeirra sem eru staddir á hátíðinni í ár eru Axel Þorsteinsson, bakari og konditor frá Hygge bakaríi, Leifur Kolbeinsson, matreiðslumeistari á La Primavera í Reykjavík, Sigurður Laufdal, matreiðslumeistari frá veitingastaðnum Lólu, Þráinn Freyr Vigfússon, matreiðslumeistari og Michelin-stjörnukokkur frá ÓX og Sumac, og Friðgeir Ingi Eiríksson, matreiðslumeistari frá EIRIKSSON Brasserie.
„Við Sveinn Þorri erum að elda á veitingastaðnum Oobu í Turku og mér skilst að við séum komnir með rúmlega 300 gesti bókaða frá miðvikudegi til laugardags. Við erum ekkert búnir að undirbúa okkur neitt sérstaklega fyrir þetta nema bara að senda hráefnislista á undan okkur, og svo byrjum við bara að vinna,“ segir Friðgeir þegar undirrituð hafði samband til að forvitnast um hátíðina.
„Þetta verður skemmtilegt og ávallt gaman að koma á nýjan stað þar sem ákveðið konsept er í gangi og í raun breyta því á einni nóttu. Við þekkjum það sjálfir að það er alltaf spennandi að fá önnur augu, aðra tækni, annað bragð og aðrar áherslur í eldhúsið í gegnum gestakokka, og það skilur alltaf eitthvað gott eftir sig. Einnig hafa fastir kúnnar alltaf gaman að sjá eftirlætisstaðina sína skipta um búning í skamman tíma á svona festivali eins og Food & Fun er,“ segir Friðgeir jafnframt.
„Matseðillinn sem við erum búnir að setja saman endurspeglar mjög svo það sem EIRIKSSON stendur fyrir. Við ætlum að bjóða upp á hörpuskel og kavíar með kröftugu humarsoði. Síðan trufflu-gnocchi sem er einn vinsælasti réttur á EIRIKSSON Brasserie. Þriðji réttur er svo rauðspretta og kantarellur. Þá verður það finnskt hreindýr, „Rossini“, og að lokum mini pavlova með mascarpone og hindberjum.“
Friðgeir segir að þátttakan þeirra sé fyrst og fremst gleði og reynsla. „Það er kannski erfitt að setja fingur á það hvað svona þátttaka gerir fyrir okkur á EIRIKSSON, en auðvitað er þetta ákveðin auglýsing fyrir okkur og um leið viðurkenning á að við séum að gera gott mót sem veitingastaður þar sem fagmennska er okkar undirstaða,“ segir Friðgeir að lokum.
Axel Þorsteinsson, bakari og konditor, verður á veitingastaðnum Move 5-D og hefur staðið í ströngu fyrir hátíðina.
„Ég er aðallega að fara yfir hráefni og passa að allar uppskriftir séu skýrar og hægt sé að fara eftir þeim. Síðan þurfti ég líka að tryggja að allt hráefni væri til staðar, til að mynda finna sambærilegt hráefni úti ef það sem ég nota hér fæst ekki í Turku, og passa að það passi við uppskriftina,“ segir Axel þegar hann er inntur eftir því hvort mikill undirbúningur hafi verið fyrir ferðina.
Bakstur verður í forgrunni hjá Axel og hann mun einnig bjóða upp á desserta.
„Ég verð með brauðmeti í nokkrum réttum og dip. Svo verð ég með ferskan „pre dessert“ til að hreinsa palletuna, aðaldessert sem er epli, möndlur og Hokkaido-ís. Síðan verða makkarónur í lokin,“ segir Axel.
Hann er á því að þátttakan í þessari hátíð sé til góðs, styrki fagið og búi til góð framtíðarsambönd. „Gaman að vera sýnilegri með Hygge og sýna hvað í okkur býr og hvað við getum gert í þessu frábæra teymi sem við erum með,“ segir Axel að lokum og vindur sér í næsta verkefni.
Hægt er að skoða Food & Fun dagskrána í Turku hér.