Björn Bragi Arnarsson, uppistandari og sjónvarpsmaður, ljóstrar fyrir lesendum Matarvefsins nokkrum skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar. Hann er einn handritshöfunda að Áramótaskaupinu í ár, sem margir bíða eftir með eftirvæntingu enda einn vinsælasti þáttur landsins.
Það er aldrei lognmolla hjá Birni, en þessa dagana er hann meðal annars í uppistandssýningunni Púðursykri sem hefur slegið rækilega í gegn í Sykursalnum, þar sem landslið grínista kemur fram. Þá stýrir hann sjónvarpsþættinum Kviss á Sýn sem nýtur mikilla vinsælda.
Björn Bragi gefur einnig út hin vinsælu Kviss-spurningaspil, og á næstu dögum koma nýjar útgáfur í verslanir – Pöbbkviss 5, Krakkakviss 5, Krakkakviss Hrekkjavaka og Stubbakviss.
Matur spilar stóra rútínu í lífi Björns og ástríða hans fyrir mat þykir nokkuð sérstök fyrir margar sakir.
„Ég elska mat og mér finnst gaman að elda þegar ég hef tíma til þess. Ég er góður kokkur þó að ég segi sjálfur frá. Annars er ég með mjög skrýtna matarástríðu. Mig langar alltaf að borða svona fjórar heitar máltíðir rétt áður en ég fer að sofa – reyni samt að hemja mig. Ég hef líka verið sakaður um að hafa matarsmekk eins og aldraðir. Elska allt svona hrásalat, baunir, sósu, þurrar kökur og eitthvað dæmi sem þú myndir finna á Hrafnistu,“ segir Björn og glottir.
Björn svarar hér nokkrum laufléttum spurningum um matarvenjur sínar sem gefa lesendum innsýn í hvað honum finnst gott að borða.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Alltaf búst og alltaf sömu blönduna. Innihaldið er banani, haframjöl, haframjólk, möndlur, döðlur, saltkaramelluprótín og klakar. Þetta er ekkert eðlilega gott. Svo eru tvö linsoðin egg með þessu.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Nei, engan veginn. Ég borða frekar fáar en stórar máltíðir á dag. Ég á það líka til að gleyma að borða, sem er ekki nógu gott. Það er það sem er helst að koma í veg fyrir að ég geti keppt í vaxtarrækt.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Nei, alls ekki. Ég er eins og krókódíll. Ég get sleppt því að borða í svona mánuð og borðað svo mánaðarskammt í einni máltíð. Þetta er mjög óeðlilegt.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Sultu.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Hérna ætla ég að koma með mjög væmið svar og segja að uppáhaldsmaturinn minn sé hjá mömmu. Hún er snillingur í eldhúsinu og á nokkra heimsklassa signature-rétti. Ég elska svona góðan heimilismat og mamma býr til besta matinn. Það er uppáhaldsveitingastaðurinn minn.“
Eru matarvenjur þínar öðruvísi þegar þú ert á ferðalagi erlendis?
„Já, það fer náttúrulega svolítið eftir því hvar maður er. En ég elska að fara á góða veitingastaði erlendis og prófa eitthvað nýtt. Mér finnst ég eiginlega alltaf fá geggjaðan mat þegar ég fer til pínu framandi landa, eins og til dæmis í Óman og Panama.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Grænmeti. Uppáhaldspítsan mín er bara svona frosin pítsa úr búð sem er hituð í bakarofni – helst með kokteilsósu. Þá mega jólin koma.“
Hvað færð þú þér á pylsuna þína?
„Veganpylsu með þessum helstu sósum og hráum og steiktum lauk. Ég hætti að borða svínakjöt fyrir 16 árum og mun aldrei borða það aftur. Veganpylsur eru líka margfalt betri. Mæli með.“
Hefur þú drukkið kampavínspylsu?
„Nei, það hljómar eins og alvöru vandamál.“
Hver er uppáhaldsrétturinn þinn?
„Ég er bestur í að setja alls konar rugl saman út á pönnu og gera einhvern geðveikan rétt úr því. Það er eiginlega uppáhaldsmaturinn minn – bara eitthvert fusion rugl á pönnu.“
Átt þér uppáhaldshaustrétt?
„Nei, get ekki sagt það. Matarvenjur mínar eru ekki sérstaklega bundnar við árstíðir.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Helst bæði. Ég elska kartöflur og elska gott salat.“
Uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Ég drekk mikið gos og elska líka gott kaffi. Ég er svolítið að vinna með það núna að fara á kaffihúsið Örnu á Seltjarnarnesi í takeaway Americano. Ég drekk það svo í bílnum mínum og spila Netskrafl á meðan – eins og alvöru síkópati.“
Ertu með æði fyrir einhverju þessa dagana?
„Grísk jógúrt með hunangi. Grétar Ali Khan í Granda 101 er þjálfarinn minn og hann kom mér upp á lagið með það. Hann borðar sjálfur einn lítra af grískri jógúrt á dag. Líkami hans er 40% vöðvar og 60% grísk jógúrt. Ég stefni á að komast með tærnar þar sem hann hefur hælana.“