Bleiki drykkurinn á OTO innblásinn af japönskum plómum

Umeboshi er nýr drykkur í smiðju teymisins á veitingastaðnum OTO.
Umeboshi er nýr drykkur í smiðju teymisins á veitingastaðnum OTO. Ljósmynd/Aðsend

Umeboshi er nýr drykkur í smiðju teymisins á veitingastaðnum OTO sem staðsettur er á Hverfisgötu 44 í miðborginni og verður í boði út október. Hann er líka helgarkokteillinn að þessu sinni.

„Drykkurinn er ferskur, ávaxtaríkur og með góðum beiskum undirtón. Nafnið er innblásið af japönskum súrsuðum plómum sem við hjá OTO notumst mikið við. Plómurnar eru bæði súrar, saltar og svakalega góðar. Við breytum þeim síðan í síróp sem er undirstaðan í þessum drykk,“ segir Finnur Vilhelmsson, veitingastjóri á OTO.


„Við blöndum sírópinu saman við Sarti og Italicus líkjöra til að fá ferskan sítrus og smá beiskju á móti. Umeboshi er bleikur á litinn og var gerður í tilefni Bleiks októbers,“ bætir Finnur við.

Hann deilir hér með lesendum uppskriftunum að kokteilnum og plómusírópinu sem hann segir að sé lítið mál að gera heima.

Umeboshi

  • 30 ml vodki
  • 15 ml sarti
  • 15 ml Italicus bergamot-líkjör
  • 20 ml plómusíróp, sjá uppskrift fyrir neðan
  • 20 ml sítrónusafi
  • Klaki eftir þörfum

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin saman í kokteilhristara og fyllið upp með klaka.
  2. Hristið vel saman og sigtið í fallegt kokteilglas.
  3. Skreytið með appelsínubörk.

Plómu-síróp

  • 500 ml plómusafi
  • 500 g sykur

Aðferð:

  1. Setjið hráefnið saman í kokteilhristara og hristið þar til sykurinn leysist upp.
  2. Þið getið líka sett í skál og hrært þar til sykurinn leysist upp.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert