Á Fabrikkunni er nú mættur nýr borgari — ítalskur burrata-borgari — sem er engum líkur. Sú sem þetta skrifar heimsótti Fabrikkuna og fékk að smakka þennan nýja borgara, sem kom virkilega á óvart. Hann er svo bragðgóður og burrata-osturinn parast ákaflega vel með kjúklingnum, chili-sultunni og pestóinu. Þetta minnir á Ítalíu og hver biti er ljúffengur.
Umsjónarmaður Matarvefsins tók spjall við Maríu Rún Hafliðadóttur, framkvæmdastjóra Fabrikkunnar, og Bjarka Long hjá Mjólkursamsölunni, en þau eiga heiðurinn af burrata-borgaranum sem er nýr á matseðli staðarins.
„Uppskriftin er samvinnuverkefni okkar og Bjarka, eins helsta ostasérfræðings landsins hjá Mjólkursamsölunni. Hann kom við hjá okkur og vildi kynna hina fullkomnu burrata-kúlu fyrir hamborgara. Við fórum að skoða netið og ítalska hamborgara og þetta var niðurstaðan: „Hinn fullkomni ítalski burrata-borgari.“ Hann er borinn fram með grænu pestói, tómat, kjúklingi, burrata-kúlu og sweet chili-sultu. Litirnir eru líka svo fallegir og við borðum jú með augunum. Gæðin á þessum íslenska burrata-osti eru sambærileg, ef ekki betri, en á Ítalíu að mínu mati. Frábær vara,“ segir María Rún, sem er afar ánægð með útkomuna.
Bjarki er mikill sælkeri og hugsar mikið um mat — og sérstaklega hvernig má bæta osti við alla rétti.
„Innblásturinn að þessum borgara var einfaldur: Mig langaði svo svakalega í borgara með nýju 50 gramma burrata-kúlunni og fór í hugarflug. Þá var mér hugsað til Fabrikkunnar og ákvað að ljóstra upp löngun minni. María Rún tók svo vel í hugmynd mína um borgara með þessum osti og við skelltum okkur í að útbúa einn slíkan og fórum í að gera prufur.
Úr varð þessi borgari. Við prufuðum bæði með nautakjöti og kjúklingi, og kom kjúklingurinn frábærlega út. Hann skaraði fram úr og við vorum sammála um að þetta væri hinn rétti borgari,“ segir Bjarki og bætir við: „Það er klassík að vera með klettasalat, pestó og tómata með burrata-osti og síðan toppar það borgarann alveg að bæta við smá sætu með sweet chili-sultunni.“