Á þessum árstíma elska ég fátt meira en að eiga góðar stundir í eldhúsinu og elda ljúffengan mat sem gleður matarhjartað. Einn af mínum uppáhaldsréttum, sem fjölskyldan heldur mikið upp á, er Beef bourguignon eða bœuf bourguignon, einnig kallaður Beef Burgundy.
Þetta er pottréttur með nautakjöti sem soðið er í rauðvíni, oft rauðu Burgundy, og nautakjötssoði, og bragðbættur með gulrótum, lauk, hvítlauk, perlulauk og sveppum. Aðalmálið er að leyfa honum að malla í þrjár til fjórar klukkustundir þannig að kjötið bráðni í munni.
Gulræturnar skornar smátt, síðan eru það laukarnir og loks kryddjurtirnar.
mbl.is/Sjöfn
Ég leik mér stundum með þennan rétt og hef beikonbita í honum í stað sveppa. Síðan er ómissandi að bera réttinn fram með ekta heimagerðri kartöflumús, og sumum finnst gott að fá nýbakað franskt baguette-brauð með.
Girnilegur og matarmikill pottréttur.
mbl.is/Sjöfn
Á dögunum gerði ég þennan rétt og hann sló í gegn eins og ávallt.
Ferskt steinselja passar ákaflega vel í þennan pottrétt.
mbl.is/Sjöfn
Beef bourguignon
Fyrir 4–6
- 1,5 kg nautakjöt (gúllas eða nautahnakki, skorinn í litla bita)
- 200 g beikon
- 2 msk. ólífuolía eða eftir þörfum
- 1 laukur
- 3–4 skarlottulaukar
- 4 gulrætur
- 3–4 litlir hvítlaukar
- 2 nautateningar
- 500- 600 ml rauðvín
- 700 ml vatn
- 2–3 msk. tómatpúrra
- 3 lárviðarlauf
- ½ búnt fersk steinselja, smátt skorin
- 2-3 msk. ferskt timjan
- Salt og pipar eftir smekk
- Sósujafnari ef vill (ég nota hann ekki)
Aðferð
- Finnið til stóran og góðan steypujárnspott — gott er að nota pott sem þið mynduð vilja bera réttinn fram í.
- Skerið beikonið í litla bita og steikið í pottinum þar til það er vel brúnað. Takið það þá af og leggið til hliðar í skál.
- Setjið kjötið í pottinn og brúnið það.
- Skerið gulræturnar í bita og laukinn smátt niður.
- Takið kjötið úr pottinum og setjið í skálina með beikoninu.
- Setjið næst smá ólífuolíu í pottinn og hitið.
- Bætið síðan gulrótum og lauknum út í og steikið í 2–3 mínútur eða þar til laukurinn verður mjúkur.
- Bætið kjöti og beikoni aftur út í og blandið saman við grænmetið.
- Setjið vatnið í könnu, bætið nautateningunum út í og látið leysast upp.
- Hellið vökvanum – vatninu með nautateningunum og rauðvíninu – út í pottinn og kryddið til eftir smekk.
- Bætið við kryddjurtunum og lárviðarlaufunum.
- Blandið saman og hrærið.
- Leyfið réttinum að malla næstu þrjár klukkustundir með loki á pottinum.
- Þegar rétturinn hefur mallið í þrjár klukkustundir, takið þá lárviðarlaufin úr pottinum.
- Leyfið sósunni að þykkna eftir smekk.
- Berið réttinn fram með heimagerðri kartöflumús og nýbökuðu frönsku baguette – við kertaljós og huggulegheit.
Unaður að njóta þessarar dýrðar.
mbl.is/Sjöfn