Nú þegar hillir undir von um frið skiptir hver mínúta máli og því blæs UNICEF á Íslandi til sóknar í neyðarsöfnun sinni fyrir börn á Gaza. Af því tilefni mun Krónan bjóða viðskiptavinum að styrkja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi við innkaup í verslunum sínum næstu daga og mun Krónan jafna hvert framlag að því fram kemur í tilkynningu frá þeim.
Krónan mun bjóða viðskiptavinum sínum að styðja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi þar sem allur ágóði mun renna til aðstoðar barna á Gaza. Söfnunin hófst formlega í gær, fimmtudaginn, og stendur yfir til sunnudagsins 19. október. Á tímabilinu fá viðskiptavinir tækifæri til að bæta við 500 krónum eða meira í lok innkaupa í öllum verslunum Krónunnar og mun upphæðin sem safnast mun renna óskert til söfnunarinnar. Krónan mun þá jafna hvert framlag viðskiptavina, krónu á móti krónu.
„Við hjá UNICEF á Íslandi erum þakklát að enn á ný sé Krónan að stíga upp til að standa með réttindum barna sem búa við neyð,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. „Við vitum að framtakið mun mælast vel fyrir hjá viðskiptavinum Krónunnar og vonum að þetta verði öllum hvatning til að leggja sitt af mörkum, því þegar kemur að mannúðaraðstoð á Gaza skiptir hver mínúta máli. UNICEF er í þeirri stöðu að geta skipt sköpum í lífi barna sem búa við hörmulega neyð og til að mæta þörfinni þarf fjárhagslegan stuðning og því skiptir hver króna máli.“
Guðrún Aðalsteinsdóttir framkvæmdastjóri Krónunnar segir að það sé Krónunni bæði ljúft og skylt að nýta lausnir sínar til að safna fyrir jafn þörfu málefni og þessu, og á sama tíma leggja sitt af mörkum til aðstoðar barna í neyð.
„Það er erfitt að setja sig í spor barna sem búa við hungur, ótta og óöryggi dag eftir dag og nú eru yfir 130 þúsund börn undir fimm ára aldri á Gaza alvarlega vannærð. Við í Krónunni viljum leggja okkar af mörkum með því að virkja samfélagið okkar til góðra verka. Með hjálp viðskiptavina getum við staðið saman og látið hvert framlag vega tvöfalt – krónu á móti krónu,“ segir Guðrún.