Endurreisn sögufrægs húss við Vesturgötu 2 í hjarta Reykjavíkur hefur vakið mikla athygli – og ekki allir sem vita að þar leynist spennandi veitingastaður sem býður upp á einstaka og ógleymanlega upplifun.
Í lok sumars voru dyr hins rótgróna og fræga Bryggjuhúss við Vesturgötu 2 í Reykjavík opnaðar á ný eftir miklar endurbætur. Þar er nú glæsilegur veitingastaður og veisluþjónusta þar sem í boði er það besta sem íslensk matarmenning og list hafa upp á að bjóða.
Aðstandendur staðarins eru hjónin Hrefna Ósk Benediktsdóttir og Ýmir Björgvin Arthúrsson, sem eru miklir sælkerar og hafa undanfarin 15 ár rekið fyrirtækið Magical Iceland. Það býður upp á upplifunar- og sælkeraferðir sem hafa hlotið mikið lof fyrir frumleika og persónulegan blæ.
Þau kalla nýja staðinn sinn „sælureit sælkerans“ þar sem íslenskur matur, drykkir, hönnun, saga og nútímalist sameinast í einstakri upplifun fyrir fagurkera. Markmið þeirra er að skapa framúrskarandi vinnuumhverfi með færasta fólkinu á landinu, þar sem valin manneskja er í hverju rúmi.
Undirrituð heimsótti hjónin í Bryggjuhúsið og settist niður með þeim í spjall. Móttökurnar voru höfðinglegar og stemningin notaleg. Á meðan við töluðum saman var borinn fram hver rétturinn á fætur öðrum sem yfirkokkur staðarins og teymi hans töfruðu fram – hver réttur fegurri og bragðmeiri en sá fyrri.
Það var ljóst að hér er ekki aðeins verið að elda mat, heldur skapa upplifun.
„Við höfum ávallt verið mjög áhugasöm og veik fyrir góðum mat og drykk, og sérstaklega andrúmsloftinu og stemningunni í kringum gjörninginn,“ segir Hrefna. „Síðustu 15 árin höfum við skipulagt sælkeraferðir í hjarta Reykjavíkur fyrir ferðamenn og íslenska hópa, en líka farið sjálf í slíkar ferðir erlendis – bæði til að njóta og læra. Þessar ferðir hafa gefið okkur innblástur sem við nýtum nú hér.
Við ætlum að sameina alla þessa reynslu og ástríðu í einu fallegasta húsi Reykjavíkur, Bryggjuhúsinu. Við vorum himinlifandi þegar vinur okkar, Skúli Gunnlaugsson listsafnari, kom til okkar með hugmynd um að sýna íslenska nútímalist á veggjum hússins. Þetta gamalgróna hús, byggt árið 1863, fær nú að lifa á ný – þar sem sagan og nútíminn mætast á einstakan hátt,“ segir hún brosandi.
Aðspurð segja þau að útlit, saga og staðsetning hússins hafi verið það sem fyrst heillaði þau og kveikti hugmyndina að verkefninu.
„Þetta er eitt sögufrægasta hús Reykjavíkur. Hér er miðja borgarinnar og öll húsnúmer eru talin héðan – þetta er núllpunkturinn,“ segir Ýmir.
„Árið 1863 var höfnin beint við húsið og þá voru göng í gegnum það sem kölluð voru „Borgarhliðið“. Þetta var eina leiðin inn og út úr Reykjavík sjóleiðis. Fjölmargir eiga góðar minningar úr húsinu, og við höfum fengið margar skemmtilegar sögur frá gestum sem nú koma aftur eftir breytingarnar. Það er bæði gefandi og gaman að sjá þetta hús lifna við á ný.“
Til að koma húsinu í gagnið á ný þurfti að ráðast í miklar framkvæmdir og endurbætur. Framkvæmdir hófust í byrjun febrúar og hjónin lögðu sjálf mikla vinnu í að halda í upprunalegan sjarma hússins.
„Þetta er hús með sál, og þannig höfum við hugsað það frá upphafi,“ segir Hrefna. „Við leyfum íslenskri byggingarlist að njóta sín í botn, en blöndum henni við fallegt handverk innanhúss. Íslensk nútímalist á veggjunum rammar svo stílinn inn í nýjan heim. Við erum alsæl með útkomuna og finnst verkið hafa tekist mjög vel.“
Þau viðurkenna að ófá kvöld hafi farið í að pússa burðarbitana og afhjúpa steinhleðslurnar í veggjunum – smáatriði sem skapa stemningu og anda hússins.
Hjónin leggja mikinn metnað í matar- og drykkjarmenninguna og segja íslenskt hráefni og matargerð í hávegum höfð.
„Veitingastaðurinn og brauðtertu- og búbblubarinn eru hjarta hússins,“ segir Ýmir. „Gestir geta notið matar frá hádegi og fram á kvöld og við leggjum mikla áherslu á að upplifunin sé fjölbreytt og hlý.“
Húsið býður einnig upp á margvíslega viðburði – allt frá að vinahópar hittist upp í 500 manna samkomur. „Við hönnuðum húsið þannig að það sé hægt að stúka rýmin niður í minni samkomur eða opna það fyrir stórviðburði. Hvert rými hefur sinn karakter og hönnun, og heldur vel utan um stemninguna,“ segir Hrefna.
Yfirkokkur staðarins er enginn annar en Ómar Stefánsson, einn af virtustu kokkum landsins.
„Við fullyrðum að við séum með eitt besta eldhús landsins,“ segir Hrefna stolt. „Ómar og hans frábæra teymi hafa farið langt fram úr okkar villtustu væntingum. Við gerum miklar kröfur en þeir hafa algjörlega sannað sig.“
Á matseðlinum eru brauðtertur, tartalettur, villigæsaborgarar og mömmumatur sem breytist reglulega. „Við höfum boðið upp á hakkabuff með spældu eggi, og lambalæri með brúnuðum kartöflum, rauðkáli og rabarbarasultu – hlýja og hefðir á disknum,“ segir hún.
„Sérstaða okkar er þessi tenging við gamlar hefðir en með pönkuðum snúningi sem Ómar og teymið hans galdra fram á frumlegan og skemmtilegan hátt. Við vorum til dæmis með pönnukökur fylltar með reyktri silungskremu, ferskri piparrót og silungahrognum. Þetta er algjört sælgæti – og svo gaman að sjá hve gestir eru hissa en ánægðir með útkomuna,“ bætir hún við.
Þegar þau horfa yfir framkvæmdatímann segja hjónin að það hafi komið þeim á óvart hve margt þurfi að hafa í huga í svona risaverkefni.
„Það er ótrúlegt hverju þarf að huga að – allt frá hljóðvist og birtu til þjónustuflæðis og rýmisskipulags,“ segir Ýmir. „Við þurftum að breyta ýmsu á leiðinni til að tryggja að heildarupplifunin yrði sem best – bæði fyrir gesti og starfsfólk.“
Markmiðið er að Bryggjuhúsið verði samkomustaður sælkera og leiðandi í nýstárlegri matargerð og drykkjarupplifun. „Við viljum líka skapa besta vinnustaðinn – velja frábært fólk fyrir hvert svið og rými og hlúa vel að því. Mannauðurinn er lykillinn að velgengni,“ segja þau Hrefna og Ýmir einróma.
Þessa dagana er undirbúningur fyrir jólahátíðina kominn á fullt.
„Við erum á fullu að taka við borðapöntunum fyrir einstaklinga og hópa fyrir jólin og áttum ekki von á svona frábærum móttökum, enda aðeins búið að vera opið í fimm vikur,“ segir Ýmir.
„Jólaseðillinn er tilbúinn og afar jólalegur og spennandi. Einn af kokkum okkar er frægur fyrir að gera heimsins bestu purusteik – og við ætlum að deila þeirri dýrð með gestum okkar um jólin,“ bætir hann við með bros á vör.