Bleiki dagurinn er framundan og þá eru margir sem brjóta upp á hversdagsleikann og bjóða upp á bleikar sælkerakræsingar. Hann verður haldinn þann 22. október næstkomandi og tilefnið er ærið, en markmiðið er að allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni fyrir stuðningi landsmanna og samstöðu.
Guðrún Erla Guðjónsdóttir, bakari og konditor, ætlar að taka þátt í deginum og tók forskot á sæluna í bakstrinum með því að baka þessar dásamlegu Berlínarbollur með hindberjasultu.
„Ég ætla að klæða mig í bleikt þennan dag og styrkja Bleiku slaufuna. Síðan baka ég einhverjar fleiri bleikar kræsingar og prufa eitthvað nýtt. Mér finnst skipta máli að taka þátt – það þarf ekki mikið til, bara að sýna að maður sé með og veiti stuðning, til dæmis með því að bjóða upp á kræsingar í bleikum búningi.
Ég er alltaf bara eitthvað að leika mér heima í eldhúsinu og finnst gaman að prufa alls konar hluti. Þannig urðu til dæmis þessar Berlínarbollur – þær eru ekki yfirgnæfandi bleikar, auðveldar í gerð og skemmtilegar í framsetningu,“ segir Guðrún um bollurnar sínar.
200 g mjólk
560 g hveiti
100 g smjör
50 g sykur
1 egg
1 pk. þurrger
½ tsk. salt
1 tsk. kardimommudropar
Hindberjasulta eftir smekk
Aðferð:
Bræðið smjörið og hellið því í mjólkina í könnu eða skál.
Blandið þurrefnunum saman í skál og hellið smjörblöndunni út í.
Bætið við egginu og kardimommudropunum og hrærið vel saman í um það bil 10 mínútur.
Hnoðið deigið vel, setjið í fituborna skál, leggið klút yfir og látið hefast í um það bil 30 mínútur á hlýjum stað.
Þegar deigið hefur tvöfaldast í stærð, fletjið það út á borði.
Skerið út bollur með glasi og leggið á plötu klædda bökunarpappír.
Látið hefast aftur í 20 mínútur og steikið síðan í djúpsteikingarolíu við 180°C.
Steikið í um það bil 5 mínútur á hvorri hlið og kælið á grind.
Þegar bollurnar hafa kólnað, stingið gati í hliðina með pinna eða grillspjóti.
Setjið sultuna í sprautupoka og sprautið inn í bollurnar.
Blandið saman glassúr, til dæmis bleikum, og skreytið bollurnar eftir eigin smekk.

