„Ítalía stal hjarta mínu“

Fagurkerinn og sælkerinn Berglind Guðmundsdóttir elskar ítalskan mat og uppáhaldsmatarborgin …
Fagurkerinn og sælkerinn Berglind Guðmundsdóttir elskar ítalskan mat og uppáhaldsmatarborgin hennar er Róm. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Berglind Guðmundsdóttir, fagurkeri og ástríðukokkur, hefur óendanlega mikla ástríðu fyrir ítalskri matarmenningu og Ítalíu yfirhöfuð.

„Ítalir bera djúpa virðingu fyrir mat og sinni matarmenningu. Þeir elda með hjartanu og halda fast í hefðirnar,“ segir Berglind um hughrifin.

Berglind starfar sem hjúkrunarfræðingur hjá Auðnast, leiðsögumaður hjá Aventura og sánuleiðbeinandi hjá Litla sánahúsinu.

„Svo held ég líka úti Lífsgleðinni á Instagram, þar sem ég deili öllu sem tengist vellíðan, ferðalögum og þeim ævintýrum sem lífið hefur upp á að bjóða hverju sinni. Það er ósjaldan sem matur kemur þar við sögu – enda er matur mannsins megin.“

Berglind sumarleg og fín á Ítalíu.
Berglind sumarleg og fín á Ítalíu. Ljósmynd/Aðsend

„Kolféll þegar ég fór ein til Sikileyjar“

Berglind kom fyrst til Ítalíu eftir að hún varð fertug og segir hún að Ítalí hafi stolið hjarta sínu.
„Ég var svo ótrúlega heppin að þurfa á þeim tíma að fara til Ítalíu vegna vinnu og heillaðist af gestrisni þeirra. Það má í raun segja að það hafi verið eins og ást við fyrstu sýn. Ég var að minnsta kosti mjög hrifin, en ég held að ég hafi endanlega kolfallið þegar ég fór ein til Sikileyjar í þrjár vikur og flakkaði um eyjuna. Síðan þá hef ég haldið áfram að kanna nýja staði víðs vegar um Ítalíu og gleðst yfir því að eiga enn nóg eftir.“

Stemningin í hverfinunum er sjarmerandi og heillar Berglindi.
Stemningin í hverfinunum er sjarmerandi og heillar Berglindi. Ljósmynd/Berglind Guðmunds

Matur sem samfélagsmiðill

Eins og fram kemur í máli Berglindar er matarmenning Ítala einstök – þar lifir fólk til að njóta og borða saman.

„Matur er ekki bara næring, hann er samfélagsmiðill þeirra. Að borða saman er eins og að anda – það er hluti af lífinu sjálfu. Þeir leggja áherslu á hreint hráefni, gæði og einfaldleika. Það er þessi ítalska einlægni í eldhúsinu sem heillar mig hvað mest. En svo eru alls konar bönn og reglur í gangi, til dæmis má alls ekki setja parmesan út á pasta með sjávarréttum. Það er þó mismunandi hversu strangir þeir eru á þessu, en þetta eru alla vega tilmæli.“

Sælkerabakki með grænmeti og ostum og skinku eins og Ítalir …
Sælkerabakki með grænmeti og ostum og skinku eins og Ítalir setja hann saman. Ljósmynd/Berglind Guðmunds

Einfaldleiki, litadýrð og ástríða

Þegar matur er annars vegar, hvað er henni þá efst í huga?

„Ég elska litríkan mat og finnst gott að hafa mikið af grænmeti í bland við prótein. Ég er ekkert endilega með mikla matarlyst þegar hitinn fer yfir 30°C og þá finnst mér best að fá forréttaplatta með grænmeti, ostum og skinkum eða burratasalat. Ég er mikil forréttakona og finnst eiginlega skemmtilegra að panta mér nokkra forrétti en stóra, þunga máltíð. En auðvitað fer maður líka stundum í pasta eða góða steik. Svo dýrka ég að fá mér ískúlu með amarena- og kirsuberjabragði.“

Ferðalög í gegnum bragðið

Matarástin spilar stórt hlutverk í lífi Berglindar og hún segist vera matgæðingur af lífi og sál.

„Stór hluti af ferðalögum mínum felst í því að kynna mér matarmenningu viðkomandi staðar. Mitt besta ferðaráð er að skrá sig í food tours með góðum meðmælum í upphafi ferðar – þá tengist maturinn oft sögunni og maður fær frábæra innsýn í hvað er ómissandi að smakka og hvar. Þetta er hægt að bóka á síðum eins og Viator eða Tripadvisor. Það er líka gaman að rölta um hverfin og fá sér ferskan og góðan street food, eða eins og við segjum, götumat.“

Ljósakrónan hjá Barböru.
Ljósakrónan hjá Barböru. Ljósmynd/Berglind Guðmunds

Róm – borg ástarinnar og matarins

Aðspurð um uppáhaldsmatarborgina sína nefnir hún Róm.

„Án alls vafa er það Róm. Það er engin borg eins og Róm – þar má finna endalaust úrval af góðum mat. Trastevere-hverfið er sérstaklega skemmtilegt fyrir fólk með áhuga á mat. Líkurnar á að fara léttari heim en þegar maður kom út eru nær engar!“

Í matarboði hjá Barböru þar sem gleðin er í fyrirrúmi.
Í matarboði hjá Barböru þar sem gleðin er í fyrirrúmi. Ljósmynd/Berglind Guðmunds

Berglind segir frá eftirminnilegri upplifun:
„Ég hef tvisvar farið í matarboð hjá Barböru í Róm á vegum Eat with. Það er sniðugt konsept þar sem maður fær að borða hjá heimafólki og hitta fólk hvaðanæva úr heiminum. Mjög skemmtileg upplifun. Barbara er algjör stuðbolti. Ég og mamma fórum fyrst til hennar þegar mamma fagnaði stórafmæli sínu í Róm árið 2017 og skemmtum okkur konunglega. Ég fór svo aftur til hennar í fyrra og kynntist þar frábæru fólki. Barbara sýndi mér bók sem hún hafði fengið að gjöf – Why Are Icelanders So Happy? eftir Heiðrúnu Ólafsdóttur og Hrefnu Guðmundsdóttur. Mjög góð spurning!“

Ekta hverfiskaffihús.
Ekta hverfiskaffihús. Ljósmynd/Berglind Guðmunds

Veitingastaðir sem heilla

„Það er mjög auðvelt að finna góðan veitingastað í Róm. Ég elska Da Enzo al 29 fyrir ekta rómverska máltíð. Hann er lítill og krúttlegur, með frábæra stemningu. Þar er ekki tekið við borðapöntunum og því þarf að mæta snemma eða bíða í röð – en það er hluti af upplifuninni!“

Berglind á sína uppáhaldsrétti sem henni finnst vert að panta á staðnum.

„Þar er geggjað pasta, kjötbollur, himneskur burrata og tiramisú sem er ómissandi. Gæðin í matnum eru frábær og stemningin heimilisleg og kósí.“

Fleiri veitingastaðir sem Berglind mælir með:

  • Giulio passami L’olio – frábært carpaccio

  • Cul de Sac – ljúffengur matur og vín

  • Roscioli Salumeria – klassískur og líflegur

  • Sofia – kósý og nálægt Spanish Steps

  • Da Cicero – fyrir pítsurnar

  • Osteria Da Fortunata

  • Da Fabrizio al 56

  • Tonnarello

  • Otello

  • Taverna Trilussa

„Bestu staðirnir eru oft án íburðar – útlitið segir ekki allt. Það er gott veganesti út í lífið,“ segir hún brosandi.

Þakbarir, kaffi og lífsgleði

„Það er skemmtileg upplifun að fara á þakbar og fá sér drykk með útsýni yfir borgina,“ segir Berglind og mælir með:

  • Six Senses Hotel – þakbarinn á Via del Corso

  • Zuma – efst á Fendihúsinu

  • Terrazza Caffarelli

  • Terrazza Borromini

Kaffimenningin á Ítalíu heillar Berglindi líka og það ekki vandfundið að finna gott kaffi þar.

„Kaffið er alls staðar framúrskarandi, jafnvel á bensínstöðvum! Er Baretto í Monti-hverfinu er í miklu uppáhaldi – þar fæst gott kaffi, ostabakkar og pítsur. Ég panta mér yfirleitt un espresso doppio, per favore. Morgunverðurinn er gjarnan einfaldur espresso og cornetto, þeirra útgáfa af croissant með vanillufyllingu.“

Morgunverðurr Berglindar er gjarnan einfaldur espresso og cornetto, sem er …
Morgunverðurr Berglindar er gjarnan einfaldur espresso og cornetto, sem er þeirra útgáfa af croissant með vanillufyllingu. Ljósmynd/Berglind Guðmunds

Ferðalög, fegurð og þakklæti

„Byggingarlistin og menningin á Ítalíu eru stórkostleg. Það er magnað að ganga um á meðal forna minja sem hafa varðveist svo vel. Orkan, fegurðin og þakklætið fyrir að fá að upplifa þetta – þetta nær dýpt sem erfitt er að lýsa,“ segir Berglind.

„Ég fæ alltaf smá ferðablús þegar ég kveð Ítalíu – hún er einfaldlega stórfengleg. Það eru forréttindi að geta stokkið upp í flugvél og lent í allt annarri menningu á nokkrum klukkustundum. Ég vil hvetja fólk sem finnur hjá sér ferðalöngun til að láta verða af því. Ekki bíða eftir rétta félaganum eða fullkomnum tímapunkti. Keyptu miðann og skelltu þér – hver veit nema staðurinn sem þig hefur alltaf langað að heimsækja geymi lykilinn að nýjum kafla í lífi þínu,“ segir Berglind að lokum.

Bók um hamingju Íslendinga.
Bók um hamingju Íslendinga. Ljósmynd/Berglind Guðmunds
Rómversk hringleikahús heilla.
Rómversk hringleikahús heilla. Ljósmynd/Berglind Guðmunds
Einstök byggingarlist á tímum Rómverja.
Einstök byggingarlist á tímum Rómverja. Ljósmynd/Berglind Guðmunds
Sækkeraverslun á Ítalíu.
Sækkeraverslun á Ítalíu. Ljósmynd/Berglind Guðmunds
Sælkerakræsingar út um alla verslun.
Sælkerakræsingar út um alla verslun. Ljósmynd/Berglind Guðmunds
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert