Fallegt og bragðgott haustsalat með epla- og sinnepsdressingu

Þetta fallega og lítríka haustsalat gleður bragðlaukana og á vel …
Þetta fallega og lítríka haustsalat gleður bragðlaukana og á vel við á mánudagskvöldi. Ljósmynd/Kristjana Steingrímsdóttir

Á mánudögum er oft gott að fá sér létt og gott salat í stað þess að fá sér þunga máltíð eftir matarmikla rétti helgarinnar. Kristjana Steingrímsdóttir, betur þekkt sem Jana heilsumarkþjálfi, kann listina að búa til falleg og bragðgóð salöt.

Hér er eitt þeirra sem hún kallar haustsalat og hún toppar það með epla- og sinnepsdressingu sem er dásamlega góð. Vel er hægt að mæla með þessu í kvöldmáltíð og fyrir þá sem vilja meira er upplagt að bera salatið fram sem meðlæti með léttum fiskrétti eða kjúklingi.

Haustsalat með epla- og sinnepsdressingu

  • 90–150 g blandað salat frá VAXA, frábært að nota blöndu af babyleaf eða klettasalati og salatblöndu
  • 2 epli
  • 1 stór sætkartafla
  • ½ dl saxaðar valhnetur eða pekanhnetur
  • ½ dl þurrkuð trönuber
  • ½ dl graskersfræ
  • 15 g radísu- og sólblómasprettir frá VAXA

Aðferð

  1. Skerið sætu kartöfluna í litla bita og bakið í ofni við 200°C í 20 mínútur.
  2. Kryddið með chiliflögum, salti og skvettu af ólífuolíu og bakið þar til bitarnir eru vel gylltir. Leyfið þeim að kólna örlítið.
  3. Skerið eplin í þunnar sneiðar.
  4. Setjið salatblönduna fyrst í skál, raðið svo fallegu eplaskífunum yfir salatið.
  5. Stráið sætukartöflubitunum, hnetunum, trönuberjunum og graskersfræjunum yfir.
  6. Toppið með epla- og sinnepsdressingu (sjá uppskrift hér fyrir neðan).
  7. Í lokin skuluð þið toppa salatið með sprettunum til að fullkomna bragðið og framsetninguna.

Epla- og sinnepsdressing

  • 1 msk. eplaedik
  • 3 msk. ólífuolía
  • ½ msk. Dijon-sinnep
  • 1 msk. hunang eða sæta að eigin vali
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Finnið góða skál.
  2. Setjið allt hráefnið í skálina og hrærið vel saman.
  3. Geymið á köldum stað fyrir notkun.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert