Unnur Pálmarsdóttir deilir með lesendum fallegum bleikum drykk sem ber nafnið Bleiki Pardusinn og passar ákaflega vel við þema mánaðarins á Matarvefnum, sem er bleikt til stuðnings öllum þeim konum sem hafa greinst með krabbamein.
Hún er eigandi Fusion Fitness Academy, hóptímakennari og þjálfari hjá Kötlu Fitness, einkaþjálfari og mannauðsráðgjafi, svo fátt sé nefnt.
Einnig er hún fararstjóri í ferðinni „Heilsurækt huga, líkama og sálar“ til Kanaríeyja og fleiri áfangastaða í Evrópu. Það er aldrei lognmolla í kringum Unni – hún vill helst hafa marga bolta á lofti í einu og nýtur þess að vera til.
Í sumar gaf Unnur lesendum nokkrar af hollum og bragðgóðum drykkjum sem nutu mikilla vinsælda, og því vildi hún bæta við nokkrum sem eiga vel við nýja árstíð. Nýjar uppskriftir eru eitt af því sem heillar Unni mest.
„Það hefur verið áhugamál mitt lengi að finna upp nýjar og spennandi uppskriftir að hollum, góðum og ferskum drykkjum sem allir geta nýtt sér. Það þarf að vera einfalt og fljótlegt að gera drykkina, og ég hvet lesendur til að vera óhræddir við að breyta uppskriftum og prófa sig áfram,“ segir Unnur.
„Ég er aðdáandi Whey próteins og hafra, og hér er uppskrift að ljúffengum, saðsömum og bragðgóðum morgunverði eða drykk eftir æfingu. Ég hef gert margar uppskriftir og er spennt að deila þessari nýju uppskrift með ykkur.“
Hér gefur að líta uppskriftina að Bleika Pardusinum, sem vert er að prófa og heiðra um leið bleika málstaðinn. Hér eru ávextir og grískt jógúrt í aðalhlutverki.
Bleiki Pardusinn
2 dl grískt jógúrt (eða minna)
Bláber, eftir smekk
Jarðarber, eftir smekk
Hindber, eftir smekk
1 skeið Whey prótein með jarðarberja- eða vanillubragði
1 msk. chia-fræ
1 banani
Klakar, eftir þörfum
Aðferð:
Skolið hráefnin.
Setjið öll innihaldsefnin í blandara.
Blandið á hæsta hraða í 30–60 sekúndur.
Hellið í glas við hæfi og stráið chia-fræjum yfir þeytinginn að vild.
Berið þeytinginn fallega fram.