Jón Gunnar Geirdal, hugmyndasmiður, ljóstrar fyrir lesendum Matarvefsins skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar. Hann hefur mikla ástríðu fyrir mat, og maturinn sem mamma hans lagar er í fyrsta sæti.
Hann rekur fyrirtækið Ysland sem sérhæfir sig í markaðs- og kynningarmálum fyrir fjölbreytt fyrirtæki.
„Áunnin fjölmiðlaumfjöllun“ heitir það víst sem ég hef verið að gera undanfarna áratugi þar sem ég aðstoða fyrirtæki við að finna sögurnar sem nauðsynlegt er að finna og koma út í kosmósið samhliða öflugum auglýsingaherferðum – sem ég aðstoða sömuleiðis við að hugmyndavinna og teikna upp. Að mínu mati er gríðarlega mikilvægt í allri vörumerkjavitund að leggja mikla áherslu á að láta þetta tvennt vinna sterkt saman,“ segir Jón Gunnar og bætir við:
„Einnig er ég hluthafi í Kontent sem framleiðir hágæða íslenskt sjónvarpsefni og margt mjög spennandi er framundan hjá okkur sem landinn mun njóta góðs af á komandi árum.“
Þegar matur er annars vegar segist Jón Gunnar vera mikill sælkeri.
„Ástríðan fyrir mat er til staðar en við systkinin deilum henni, enda ekki langt að sækja hana þar sem móðir okkar er heimsins besti kokkur. Stórfjölskyldan hittist reglulega í ótrúlega skemmtilegum matarboðum hjá mömmu og við erum varla búin að smakka matinn þegar við byrjum að ræða hvað á að borða í þeirri næstu.“
Aðspurður segist hann elska að elda mat og það sé eitt það allra skemmtilegasta sem hann geri.
„Ég sanka að mér uppskriftum sem ég gríp til og finnst æðislegt að vera með góða tónlist eða Dr. Football í eyrunum og dunda mér við að undirbúa kvöldmatinn. Ég kenndi sjálfum mér eldamennsku á unglingsárunum og með því brasi byrjaði ást mín á mat og matargerð.
En þó að ég elski að elda mat þá er fátt skemmtilegra en að láta elda góðan mat fyrir sig. Ég t.d. býð sjálfum mér reglulega í mat til góðra vina og fjölskyldumeðlima sem taka því oftast fagnandi, því það er víst gaman að elda fyrir mig þar sem ég tek hraustlega til matar míns,“ segir Jón Gunnar.
Skvísukoffínið ræsir hann inn í daginn
Jón Gunnar svarar hér nokkrum laufléttum spurningum um matarvenjur sínar sem gefa lesendum innsýn í matarsmekk hans og venjur.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég borða aldrei morgunmat nema í fríi hjá Hótel Tengdó á Akureyri sem sér allt of vel um mann norðan heiða. Annars byrja ég virku dagana mína á rækt og sundi og þegar sú mikilvæga rútína er búin, ásamt því að kryfja helstu mál með hinum fastagestunum, þá er það bara skvísukoffínið mitt sem ræsir mig inn í daginn – Nocco eða Collab. Ég er lítill kaffikarl og því sjá orkudrykkir að mestu um mína koffínfíkn.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Nei, alls ekki. En ef ég fæ mér eitthvað þá er það einna helst hnetumix eða möndlur sem ég er með í bílnum.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Já, það finnst mér, þar sem ég fæ mér engan morgunmat þá verð ég að borða mjög góðan hádegismat og oftast er það Spíran sem sér um það, enda einn allra besti veitingastaður borgarinnar.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Það litast af heimilisfólkinu og þá sérstaklega sex og tíu ára gömlum bræðrum sem eru stöðugt svangir. Við eigum alltaf til ost, skinku, kæfu, smjör, skinkumyrju, pítsasósu, epli, vínber, banana, mjólk og fleira í þeim dúr. En sömuleiðis hvítlauk og lauk sem eru notaðir í allt sem við eldum.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað – hvert ferðu?
„OTO og ÓX eru í algjörum sérflokki að mínu mati. Ég er stöðugt með löngun í japanska mjólkurbrauðið og smyrjurnar á OTO sem eru ekki af þessum heimi. Eins er Apótekið í miklu uppáhaldi, alltaf gaman að detta þar í steik og rautt. Í drykk eru Port 9 og Gilligogg í miklu uppáhaldi – og Vinnustofa Kjarval sem tekur alltaf vel á móti manni.“
Hvað viltu á pítsuna þína?
„Pepperóní, mikið af lauk, ferskt chili, jalapenó, döðlur og gráðost og nýja uppáhaldið nduja – en lykillinn er svo chili-hunang og heimagerð hvítlauksolía sem toppar allar pítsur. Svo uppgötvaði ég kartöflupítsur um daginn hjá nágranna mínum sem er með doktorsgráðu í pítsugerð – algjört sælgæti.“
Hvað færð þú þér á pylsuna þína?
„Eina með öllu, mikið sinnep og helst sterkt sinnep líka.“
Hefur þú fengið þér kampavín með pylsunni þinni?
„Nei, en það er hins vegar frábær hugmynd og pottþétt eitthvað sem ég á eftir að prófa.“
Hvað viltu fá á hamborgarann þinn?
„Kál, slatta af sósu og osti og mikið af svissuðum lauk – aldrei of mikið af lauk. Súrar gúrkur með til hliðar.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Alltaf kartöflur en mætti vera duglegri í salatinu.“
Haustuppskeran er nú komin í verslanir, er eitthvað sem þér finnst ómissandi að fá úr nýju uppskerunni?
„Smælki og gulrætur. Haustið er minn uppáhaldstími og þá sérstaklega í matargerð. Ég elska matarmiklar súpur og þar toppar ekkert kjötsúpan hennar mömmu. Síðan elda ég mikið hægeldaða pottrétti, elska franska eldhúsið, henda einhverju í pott og láta það malla í fleiri klukkutíma – elda mjög oft t.d. lambaskanka sem eru minn allra mesti sælkeramatur.“
Hver er uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Íslenska vatnið er mitt uppáhald en svo fagna ég góðu rauðvíni með góðum mat. Hið líbanska Chateau Musar er mitt uppáhald ásamt góðu Amarone eða Pinot.“
Ertu með æði fyrir einhverju þessa dagana?
„Árið um kring er ég með æði fyrir því að mæta í mat til mömmu sem eldar minn uppáhaldsmat. Sama hvort það er eitthvað gamalt og gott fyrir nostalgíu karl eins og mig – kjötbollur, hakkabuff, kjötsúpa, nætursöltuð ýsa eða fiskibollur – eða það allra besta, lambahryggur með grænum baunum, rauðkáli, rabarbarasultu og brúnni sósu. Sama hversu margir Michelin-staðir opna, þá er einfaldlega ekkert sem toppar þá veislu.“