Elín Kristín Guðmundsdóttir, betur þekkt sem Ella Stína, á og rekur fyrirtækið sem ber sama nafn. Fyrirtækið framleiðir vegan matvörur og er orðið þekkt vörumerki.
„Vörumerkið er alltaf að stækka og verða þekktara meðal neytenda og ég er virkilega þakklát mínum viðskiptavinum sem versla hjá mér aftur og aftur. Þá get ég haldið áfram að gera það sem mér finnst skemmtilegt – að finna nýjungar og þróa góðar vörur sem einkennast af hreinleika.
Það er okkur því sönn ánægja að kynna nýtt samstarf við WAUW Falafel – ljúffenga og næringarríka falafelbollur sem eru gerðar úr plöntum, með ástríðu fyrir hreinu hráefni og góðu bragði,“ segir Ella Stína og bætir við:
„Þessar falafelbollur eru bæði vegan, próteinríkar og henta fullkomlega í hollan hversdagsmat – hvort sem er í salat, pítur eða með ferskum sósum úr Ella Stína-línunni.“
Aðspurð segir Ella Stína að hún elski fátt meira en að sameina kraft íslenskrar nýsköpunar og plöntumiðaðs matar – og búa saman til vörur sem gera hollt val auðvelt.
Ella Stína setti saman hér nokkrar uppskriftir í samstarfi við Þórdísi Ólöfu Sigurjónsdóttur grænkera sem geta gefið lesendum Matarvefsins innblástur til að búa til litríka og næringarríka rétti þar sem nýjustu afurðir Ellu Stínu koma við sögu.
Falafelbakki Ellu Stínu og Þórdísar Ólafar
Hér er kominn saman falafel-bakki sem er bæði litríkur, bragðmikill og næringarríkur réttur sem á rætur sínar að rekja til Mið-Austurlanda.
„Hann sameinar klassísk hráefni svæðisins í fallega heild – stökkar, kryddaðar falafelbollur bornar fram með úrvali af dásamlegum ídýfum og meðlæti. Má þar nefna hummus, baba ganoush, muhammara, jógúrtsósu og tahini-sósu. Með þessu fylgja oft ólífur, grænmeti og pítubrauð sem gerir réttinn bæði saðsaman og fjölbreyttan,“ segir Ella Stína.
Girnilega samsetning þar sem falafel fer í forgrunni.
Ljósmynd/Þórdís ´Ólöf
„Falafelbakki er fullkominn fyrir þá sem vilja plöntumiðaðan, hollan og bragðmikinn rétt sem hentar jafnt sem létt máltíð, partíréttur eða kvöldverður með fjölskyldunni. Hann sameinar mýkt, stökkleika og hlýleg krydd í einni skál – sannkallað veisluævintýri fyrir bragðlaukana,“ segir hún enn fremur.
Eins og áður sagði eru uppskriftirnar unnar í samstarfi við Þórdísi Ólöf, sem jafnframt hefur séð um að taka myndir af því sem þær gera saman.
Svo gott að setja síðan saman í pítubrauð og njóta.
Ljósmynd/Þórdís Ólöf
Falafelbakki
- 1 skál hummus (sjá uppskrift fyrir neðan)
- 1 skál baba ganoush (sjá uppskrift fyrir neðan)
- 1 skál muhammara-ídýfa (sjá uppskrift fyrir neðan)
- 1 skál jógúrtsósa (sjá uppskrift fyrir neðan)
- 1 skál tahini-sósa (sjá uppskrift fyrir neðan)
- 1 pk. WAUW Falafel original
- 1 pk. WAUW Falafel með gulróta- og engiferbragði
- 1 pk. pítubrauð frá Ellu Stínu
- Kirsuberjatómatar, eftir smekk
- Ólífur, eftir smekk
- Gúrka og paprika, eftir smekk
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 180°C.
- Setjið falafelbollurnar í eldfast mót eða á bökunarplötu og bakið í 20–30 mínútur eða þar til þær eru stökkar að utan.
- Skerið pítubrauðin langsum og svo í fjórar sneiðar.
- Leggið sneiðarnar á bökunarplötu, dreifið ólífuolíu yfir og stráið sjávarsalti. Bakið í um 10 mínútur, þar til þær brúnast.
- Setjið ídýfurnar (hummus, baba ganoush og muhammara) í skálum á stóran bakka ásamt jógúrtsósunni og tahini-sósunni.
- Setjið falafelbollurnar á bakkann ásamt kirsuberjatómötum, gúrkum og papriku sem skornar eru í strimla, og bætið ólífunum við.
- Setjið loks pítubrauðin á bakkann og berið fram.
Hummus
- 1 dós kjúklingabaunir, ásamt ca. fjórðungi af safanum
- 1 msk. tahini
- 1 msk. sítrónusafi
- 1–2 hvítlauksrif, pressuð
- Handfylli fersk steinselja
- 3 msk. ólífuolía
- ½ tsk. cumin
- ¼ tsk. paprikukrydd
- Salt eftir smekk
- Cayenne-pipar eða chili eftir smekk
Aðferð:
- Setjið sítrónusafa, tahini og kjúklingabaunir (ásamt fjórðungi af safanum) í matvinnsluvél og blandið þar til silkimjúkt.
- Bætið næst hinum hráefnunum út í, fyrir utan ólífuolíuna.
- Þegar áferðin er orðin mjúk er 2 msk. af ólífuolíunni bætt út í og blandað áfram.
- Smakkið til og bætið við sítrónusafa, tahini, cumin eða salti eftir smekk.
- Setjið hummusinn í skál og hellið afganginum af ólífuolíunni yfir.
- Svo má strá smá cayenne- eða chili-pipar yfir.
Baba Ganoush
- 2 stór eggaldin
- 2 msk. ljóst tahini
- Safi úr 1 sítrónu
- Handfylli fersk steinselja
- 2 hvítlauksrif, pressuð
- ½ tsk. cumin
- Salt eftir smekk
- 2–3 msk. ólífuolía
- Cayenne-pipar eftir smekk
- Fræ úr granatepli til skrauts (má sleppa)
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 180°C.
- Skerið eggaldin langsum og penslið að innan með ólífuolíu.
- Setjið bökunarpappír á ofngrind og leggið eggaldinhelmingana á hvolf (skurðsárið niður).
- Bakið í ofni í um það bil 20 mínútur eða þar til eggaldinið er mjúkt.
- Takið úr ofni, látið kólna og skafið innvolsið úr með skeið.
- Setjið í sigti og látið vökvann renna frá.
- Flytjið eggaldinmaukið í skál og bætið tahini, sítrónusafa, hvítlauk, steinselju, cumin, salti og ólífuolíu saman við.
- Smakkið til og toppið með granateplafræjum eða smá ólífuolíu.
- Geymið í kæli þar til borið fram.
Muhammara-ídýfa
- 3 rauðar paprikur
- 50 g valhnetur
- 1–2 hvítlauksgeirar
- 1 msk. sítrónusafi
- 2 tsk. granateplasíróp eða handfylli af fræjum úr granatepli
- ½ tsk. cumin
- ½ tsk. cayenne-pipar
- 2 msk. ólífuolía
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 180°C.
- Skerið paprikurnar í helminga og hreinsið fræin úr. Penslið með ólífuolíu og leggið á bökunarpappír.
- Bakið í ofni í um það bil 20 mínútur eða þar til paprikurnar eru mjúkar og dökkar að utan.
- Leyfið þeim að kólna og fjarlægið húðina.
- Ristið valhneturnar á pönnu og setjið síðan allt í matvinnsluvél.
- Blandið þar til ídýfan er mjúk en örlítið kornótt.
- Ef hún er of þunn má bæta við brauðmylsnu eða fleiri valhnetum.
- Smakkið til og toppið með söxuðum valhnetum eða ferskri steinselju.
Raita – jógúrtsósa
- 2 dl vegan jógúrt (t.d. sykurlaus sojajógúrt)
- 2 dl Oatly sýrður rjómi
- ½ gúrka, rifin smátt
- 1 hvítlauksrif
- 2–3 tsk. sítrónusafi
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Rífið gúrkuna smátt og kreistið vökvann frá.
- Pressið hvítlauk og blandið síðan saman öllum hráefnum.
- Geymið sósuna í kæli þar til hún er borin fram.
Tahini-sósa
- 1 dl tahini (Ella Stína mælir með ljósu)
- 1 dl kalt vatn
- 1 hvítlauksrif, pressað
- 4 msk. sítrónusafi
- 1 tsk. hlynsíróp
- ½ tsk. salt
Aðferð:
- Blandið öllum hráefnunum saman í skál og hrærið þar til silkimjúk sósa fæst.
- Smakkið til og bætið við sítrónusafa, hlynsírópi eða salti eftir smekk.
- Ef til er fersk steinselja eða kóríander er gott að saxa það smátt og hræra út í tahini-sósuna ásamt örlitlu cumin-dufti.
Nýjasta samstarf Ellu Stínu er við fyrirtækið WAUW falafel við gerð þessara falafelbolla.
Ljósmynd/Þórdís Ólöf