„Lakkrísinn var lykillinn að velgengninni“

Auður Ögn Árnadóttir og Sylvía Haukda hjá 17 Sortum fagna …
Auður Ögn Árnadóttir og Sylvía Haukda hjá 17 Sortum fagna 10 ára afmæli á föstudaginn þannn 17.október næstkomandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kökusjoppan 17 Sortir fagnar 10 ára afmæli þann 17. október næstkomandi og af því tilefni tók ég hús á eigendum fyrirtækisins, Auði Ögn Árnadóttur og Sylvíu Haukdal.

Það hefur margt breyst á þessum 10 árum síðan Auður opnaði kökusjoppu í gömlu verbúðunum úti á Granda sem vakti engu að síður mikla athygli á þeim tíma. Staðsetningin var einstaklega frumleg og skemmtileg og má segja að 17 Sortir hafi gert mikið fyrir Grandann á þessum tíma.

Átti bara að vera sjoppa

„Í upphafi átti þetta einmitt bara að vera það – sjoppa með sælkerakökur sem seldar voru í sneiðatali ásamt alls kyns bollakökum og öðru gúmmelaði til að taka með sér heim,“ segir Auður.

„En það breyttist fljótlega þegar fólk fékk að smakka kökurnar – þá fór að rigna inn fyrirspurnum um sérpantanir. Ég setti saman lakkrískökuna okkar sem varð alveg feikilega vinsæl, en það hafði ekkert þessu líkt verið á markaði hér áður og við vitum sem er að Íslendingar eru alveg lakkríssjúkir,“ segir Auður hlæjandi.

„Kakan samanstóð af djúsí amerískri súkkulaðiköku, frönsku smjörkremi með leynilakkríshráefni, brytjuðum Heksehyl-lakkrís og muldum Turkis Peber-brjóstsykri – sem sagt algjör lakkrís- og súkkulaðibomba.“

Auður með afmælisköku ársins, lakkrískökuna frægu.
Auður með afmælisköku ársins, lakkrískökuna frægu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kakan sló algjörlega í gegn og oft var löng röð eftir henni, sérstaklega um helgar. „Því má segja að lakkrísinn hafi verið lykillinn að velgengninni. Í kjölfarið fór fólk að vilja sérpanta þessa köku til að hafa í veislum og við ýmis tilefni. Það var ekki fyrr en við höfðum haft opið í nokkra mánuði að við létum loks undan og hófum að taka við sérpöntunum.“

Sérpantanir í öllum stærðum og gerðum

Sérpantanir eru nú stór hluti starfseminnar og í stöðugum vexti. „Það sést þegar úrvalið á heimasíðunni okkar er skoðað hvað sérpantanir geta verið fjölbreyttar og af öllum stærðum og gerðum. En við kvikum samt aldrei frá upphaflegu mottói: að þær verði að bragðast vel fyrst og fremst og að gæðin séu í lagi. Það er lykilatriði að gefa aldrei afslátt af þeim,“ segir Auður alvörugefin, en hún er þekkt fyrir að vanda til verka og leggja allan sinn metnað í að það sem fer út bragðist vel og útlitið sé óaðfinnanlegt.

„Ég var svo heppin fyrir þremur árum síðan að fá Sylvíu Haukdal, eftirrétta- og kökugerðarmeistara frá Le Cordon Bleu, til liðs við mig og erum við búnar að reka fyrirtækið saman síðan þá. Með henni kom inn í fyrirtækið þekking og hæfni í kökuskreytingum sem var hreinlega á öðru plani en áður hafði þekkst hér á landi.“

Auður segist hafa verið heppin að fá Sylvíu Haukdal, eftirrétta- …
Auður segist hafa verið heppin að fá Sylvíu Haukdal, eftirrétta- og kökugerðarmeistara frá Le Cordon Bleu, til liðs við sig. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýtt fyrirkomulag með Hagkaup 

Eftir að hafa rekið tvær verslanir, bæði á Granda og í Kringlunni, tók Auður þá erfiðu en góðu ákvörðun, að hennar mati, að loka þessum sérverslunum og gera samning við Hagkaup.

„Covid-tíminn var fyrirtækinu erfiður eins og mörgum fyrirtækjum í þessum geira og mig langaði að hugsa hlutina upp á nýtt. Hagkaupsmenn tóku hugmyndinni strax vel og nú leigjum við hjá þeim aðstöðu fyrir kökusjoppuna okkar í Hagkaup Smáralind og sendum þaðan kökur í allar Hagkaupsverslanirnar.“

Aðspurð segir Sylvía að þetta fyrirkomulag hafi gefist afskaplega vel. Það sé gott fyrir þær að vera með alla starfsemina á einum og sama staðnum og geta síðan dreift aðföngum þaðan út.

Tapaði vinsældastríðinu við saltkaramelluæðið

En aftur að lakkrískökunni góðu – hvað varð síðan um hana?

„Hún tapaði í vinsældastríðinu þegar saltkaramelluæðið reið yfir og smám saman lagðist sá bakstur af. Við erum enn þá með 17 sortir af bragðútfærslum – bara svo við stöndum undir nafni,“ svarar Auður og hlær dátt. „En þessar bragðtegundir koma svolítið og fara, og oft bryddum við upp á nýjungum.“

Til að fagna afmælinu ætla Auður og Sylvía að standa vaktina í Hagkaup Smáralind á föstudaginn næstkomandi, þann 17. október. „Þá ætlum við að gefa gestum og gangandi sneið af lakkrískökunni góðu og, svona upp á nostalgíuna, ætlum við að hafa hana líka í sölu þá vikuna – tilvalið fyrir gamla aðdáendur hennar að rifja upp gömul kynni,“ segja þær stöllur saman í kór.

Falleg og stílhrein sem fangar bæði augu og munn, algjör …
Falleg og stílhrein sem fangar bæði augu og munn, algjör nostalgía að njóta. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert