Gulli Arnar Ingason, bakari og konditor, leggur ávallt metnað sinn í að bjóða upp á bleikar kræsingar í októbermánuði í bakaríinu sínu í Hafnarfirði, sem ber nafn hans, og styður í verki málstaðinn sem Krabbameinsfélagið stendur fyrir með Bleiku slaufunni og Bleika deginum.
Í tilefni þess að Bleiki dagurinn er handan við hornið, miðvikudaginn 22. október næstkomandi, gefur Gulli lesendum uppskrift að sinni uppáhaldsmöndluköku.
„Hún slær alltaf í gegn, sama hvort sem það er með kvöldkaffinu heima eða í kaffinu í vinnunni,“ segir Gulli um kökuna góðu.
Bakaríið hans Gulla Arnars við Flatarhraun 31 fagnar 6 ára afmæli í vor og starfsemin hefur stækkað ört á þessum árum.
„Tíminn hefur liðið hratt og þetta ferðalag mitt með bakaríið verið mikið ævintýri. Við höfum byggt upp mikla sérstöðu í Hafnarfirði og eigum dyggan hóp viðskiptavina sem standa þétt við bakið á bakaríinu. Hjá mér starfa tveir bakarar og fimm bakaranemar ásamt afgreiðslustarfsfólki og aðstoðarfólki, svo við höfum stækkað mikið og myndað sterkt teymi sem hefur sameiginlega ástríðu og metnað fyrir bakstri.
Hjá okkur hafa útskrifast fjórar bakaranemar á síðustu tveimur árum sem hafa hlotið viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur. Ég er því mjög stoltur af nemunum okkar og þeim metnaði sem þeir sýna,“ segir Gulli stoltur í bragði.
„Nú er Bleiki dagurinn framundan og er það einn stærsti dagur ársins hjá okkur. Við setjum bakaríið í bleikan búning og skreytum allt hátt og lágt. Vörurnar fá bleika upplyftingu og það sem skiptir okkur mestu máli er bleiki eftirrétturinn, en hann hefur ávallt verið styrktarverkefni okkar með Bleiku slaufunni, þar sem 60% af sölunni af honum rennur til Bleiku slaufunnar,“ segir Gulli og bætir við:
„Vikan fyrir Bleika daginn er mjög annasöm og minnir mann á vikuna fyrir bolludag, svo stór er þessi dagur orðinn fyrir okkur. Við bjóðum upp á ýmislegt sniðugt eins og kaffihlaðborð fyrir vinnustaðina þar sem bakkelsið verður með bleiku ívafi. Einnig er mjög sniðugt að grípa með sér bleikar tertur, bleika eftirréttabakka eða möndlukökur, svo eitthvað sé nefnt. Inni á vefsíðunni okkar hér er að finna ýmsa möguleika fyrir Bleika daginn.“
Strax eftir Bleika daginn byrjar Gulli að undirbúa jólavertíðina, sem hann segir líka vera skemmtilega. „Það er skemmtilegur og snarpur tími þar sem við byrjum að framleiða jólavörur – meðal annars sörur, lagtertur, jólatertur og eftirrétti. Bakkelsið fer í jólaskap og fleira til.
Svo er ég strax kominn með hugann við næsta ár og hvað sé hægt að gera nýtt og spennandi. Ég er mjög hrifinn af því að reyna að vera nýjungagjarn, breyta til og reyni að vera stöðugt að bæta mig og bakaríið. Ég vil alls ekki staðna og tel það vera galdurinn bak við velgengnina,“ segir Gulli að lokum og fer beint í næsta verkefni sem bíður hans í bakaríinu.
Nú er að koma helgi og þá er lag að reyna að leika listina eftir Gulla og baka þessa dásamlegu möndluköku og bjóða upp á hana með kaffinu. Þessi uppskrift er mjög fljótleg og krefst lítils undirbúnings.
Möndlukaka með bleiku kremi
Aðferð: