Nói Síríus fagnar nú 90 ára afmæli konfektgerðar sinnar og minnist þess með því að kynna til leiks nýjan hátíðarmola með Malt og Appelsín fyllingu sem kemur skemmtilega á óvart að því fram kemur í tilkynningu frá þeim. Það má með sanni segja að þetta er samsetning sem fáa hefði grunað að liti dagsins ljós.
Konfekt hefur verið órjúfanlegur hluti íslenskra hátíða í áratugi jafnt um jólin, páskana sem aðrar fjölskyldustundir og hefur Nói Síríus gegnt lykilhlutverki í að skapa þessar sætu hefðir. Í tilefni 90 ára afmælisins hefur fyrirtækið ákveðið að bjóða þjóðinni einstakt tækifæri til að njóta nýs og spennandi bragðs sem fangar bæði hefð og nýsköpun. Á sama tíma fagnar hin sígilda Malt og Appelsín blanda 70 ára afmæli í ár, sem gerir tilefnið enn hátíðlegra.
„Nýi hátíðarmolinn sameinar bragð af malti og appelsínu í mjúka og dásamlega fyllingu, hjúpaða hinu vandaða súkkulaði Nóa Síríus. Appelsína og súkkulaði hafa löngu sannað sig sem fullkomið bragðapar, en með malti, sem minnir á karamellu, verður úr einstök samsetning sem fangar anda hátíðarinnar á nýjan hátt,“ segir Anna Fríða Gísladóttir framkvæmdastjóri markaðssviðs Nóa Síríus.
„Við viljum heiðra þá langvarandi hefð sem Íslendingar eiga með konfekti og gleðjast yfir því að fá að vera hluti af hátíðarstundum þjóðarinnar,“ segir Anna Fríða enn fremur og bætir við: „Afmælisárið markar bæði virðingu fyrir fortíðinni og spennandi framtíð þar sem við höldum áfram að þróa nýjar bragðtegundir fyrir næstu kynslóðir.“
Við þróun hátíðarmolans tók Nói Síríus höndum saman við Ölgerðina og var samstarfið að sögn fyrirtækjanna bæði ánægjulegt og eðlilegt skref, þar sem vörumerkin tvö eru hvort um sig ómissandi hluti af jólunum hjá Íslendingum.
„Þetta skemmtilega hátíðlega samstarf verður varla meira viðeigandi. Sígildar jólahefðir mætast hér í sameiginlegu afmælispartíi eins og móðins þykir og bjóða upp á ævintýralega bragðveislu. 90 ár af Nóa Konfekti og 70 ár frá upphafi Egils Appelsíns í bland við 112 ára reynslu Egils Malts. Við erum full tilhlökkunar að heyra hvað Íslendingum finnst um þessa nýjung og eigum við ekki að reikna með að konfektmolinn verði með okkur næstu 100 árin,“ segir Davíð Sigurðsson, vörumerkjastjóri Malt og Appelsín.
„Við ákváðum að framleiða hátíðarmolann í hentugum umbúðum fyrir þau sem vilja prófa eitthvað nýtt, án þess þó að sleppa sínu uppáhalds Nóakonfekti.“ segir Anna Fríða. Hátíðarmolinn verður aðeins í boði í takmörkuðu magni og fæst í helstu verslunum landsins á meðan birgðir endast.