„Nýta fleiri tækifæri til að skála í kampavíni en áður“

Jóhanna Húnfjörð er einn eigenda og rekstraraðila að Kampavínsfjelaginu. Hún …
Jóhanna Húnfjörð er einn eigenda og rekstraraðila að Kampavínsfjelaginu. Hún fagnar deginum í dag. mbl.is/Eyþór Árnason

Í tilefni þess að í dag er alþjóðlegi kampavínsdagurinn heimsótti ég Jóhönnu Húnfjörð, sem á og rekur Kampavínsfjelagið ásamt Styrmi Bjarka Smárasyni og Hrefnu Sætran.

Kampavínsfjelagið hefur staðið fyrir fjölda viðburða síðastliðin misseri þar sem kampavín hefur verið í forgrunni – hvort sem það hefur verið parað með mat eða kynnt eitt og sér.

Lifandi starfsemi allt árið um kring

Hvað hefur verið í gangi hjá Kampavínsfjelaginu á árinu og hvað er framundan?

„Það er alltaf margt í gangi hjá Kampavínsfjelaginu og aldrei lognmolla. Í september héldum við stóra vörukynningu á Hótel Parliament við Austurvöll þar sem yfir 50 tegundir af vínum voru smakkaðar, og heppnaðist hún virkilega vel. Fjöldi fólks lagði leið sína til okkar og prófaði sig áfram í smakkinu.

Einnig höfum við haldið viðburði í samstarfi við Te & kaffi sem hafa slegið í gegn. Núna í vikunni erum við með framleiðendur frá Þýskalandi og Japan á landinu og stóðum fyrir viðburði með þeim á veitingastaðnum Fiskmarkaðnum, þar sem sex rétta seðill með Riesling- og Sake-pörun var í boði. Við erum því ekki eingöngu með kampavín – flóran hefur aukist hjá okkur til muna.

Síðan eru jólin handan við hornið og við eigum von á fleiri framleiðendum til landsins í desember, svo það er ávallt fjör og lifandi dagskrá í gangi,“ segir Jóhanna með bros á vör.

Jóhanna með meðeigendum sínum, Styrmi Bjarka Smárasyni og Hrefnu Rósu …
Jóhanna með meðeigendum sínum, Styrmi Bjarka Smárasyni og Hrefnu Rósu Sætran. mbl.is/Eyþór Árnason

Fólk skálar oftar – ekki bara í brúðkaupum

Eru Íslendingar farnir að drekka meira kampavín en áður og við fleiri tilefni en áður?

„Íslendingar eru svo sannarlega farnir að nýta fleiri tækifæri til að drekka kampavín. Áður fyrr, eins og þú nefnir, var þetta aðalbrúðkaupsdrykkurinn, en í dag sjáum við að fólk skálar í kampavíni bara til að njóta – og jafnvel para það með mat.“

Rétta glasið skiptir máli

Mikið hefur verið rætt um að glösin skipti máli – hvernig er hið fullkomna kampavínsglas að þínu mati?

„Glösin skipta miklu máli fyrir kampavín, eins og öll önnur vín. Að mínu mati eru handblásnu Zalto-glösin sem við flytjum inn best í allt – þau eru örþunn og leyfa víninu að njóta sín til fulls. Lehmann er einnig með frábært kampavínsglas sem ber nafnið Grand Champagne, og við flytjum þau líka inn.“

Hvaða kampavínstegundir njóta mestrar hylli?

„Við flytjum inn frá mörgum framúrskarandi framleiðendum og erum í raun með allt úrvalið af tegundum á lista hjá okkur. En ætli Philipponnat og Piper-Heidsieck séu ekki vinsælust eins og stendur.“

Hvaða kampavínshús er í uppáhaldi hjá þér?

„Mitt uppáhaldshús er Philipponnat, og stór hluti af því er líklega vegna þess að þar byrjaði Kampavínsfjelagið í grunninn. Úr því varð þetta ævintýri og samfélag sem er til í dag.“

Skál fyrir lífinu!

Hvað ætlar þú að gera í tilefni alþjóðlega kampavínsdagsins – og hvað mælir þú með að aðrir geri?

„Ég mæli með því að allir skáli í kampavíni og njóti með sínu fólki. Það er alltaf tilefni fyrir gott kampavín og góða samveru. Sjálf ætla ég að eiga góða stund með mínu fólki og njóta með kampavín í glasi,“ segir Jóhanna að lokum með bros á vör.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert