Guðdómlega góð tælensk súpa með risarækjum

Þessi tælenska risarækjusúpa er dásamlega góð og yljar á köldum …
Þessi tælenska risarækjusúpa er dásamlega góð og yljar á köldum vetrardegi. Ljósmynd/Thelma Þorbergsdóttir

Gott er að ylja sér við matarmikla og bragðgóða súpu á köldum vetrardögum og skemmir ekki ef hún er borin fallega fram. Ilmandi súpa gerir alla daga betri. Þessi tælenska risarækjusúpa er bæði bragðmikil og góð þar sem karríkryddið í er í forgrunni. Þeir sem elska karrí verða hrifnir og svo er fátt betra en að bera fram nýbakað brauð með súpunni. Til dæmis passar japanskt mjólkurbrauð mjög vel með. Uppskriftina að því er að finna hér fyrir neðan.

Heiðurinn af uppskriftinni að súpunni á Thelma Þorbergsdóttir matarbloggari með meiru. Uppskriftina gerði hún fyrir uppskriftavefinn Gott í matinn.

Tælensk risarækjusúpa

Fyrir 4

  • 1 dl hrísgrjón soðin í 2 dl vatni
  • 3 msk.smjör
  • 400 g risarækjur, afþýddar
  • 3 stk. hvítlauksgeirar
  • 1 stk. laukur
  • 1 msk.rauð paprika
  • 2 cm ferskt engifer
  • 4 tsk. rautt karrí paste
  • 1 tsk. karrí
  • 3 dl matreiðslurjómi frá Gott í matinn
  • 400 mlkókosmjólk í dós
  • 1 l vatn
  • 2 stk. grænmetisteningar
  • 4 msk.ferskt kóríander
  • 1 límóna, safinn
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða hrísgrjónin í 2 dl af vatni.
  2. Gott er að slökkva undir hrísgrjónunum þegar vatnið er alveg að verða búið og setja lokið á pottinn, þannig klárast þau að eldast í gufunni.
  3. Setjið smjör á pönnu, setjið rækjurnar á pönnuna ásamt salti og pipar og steikið þar til þær eru tilbúnar. Passið ykkur að elda þær ekki of mikið því þá verða þær seigar. Gott er að elda þær í um 3 mínútur á hvorri hlið.
  4. Þegar rækjurnar eru fulleldaðar setjið þær í skál og geymið þar til súpan er tilbúin.
  5. Þeir sem nota eldaðar rækjur þurfa ekki að steikja þær heldur setja þær beint ofan í súpuna.
  6. Skerið lauk, papriku og hvítlauk niður og steikið á pönnunni.
  7. Rífið engifer saman við og hrærið saman.
  8. Bætið rauðu karríi og karríi saman við ásamt kókosmjólk og rjóma.
  9. Blandið vatni saman við ásamt grænmetisteningunum og hrærið þar til súpan fer að sjóða.
  10. Gott er að leyfa súpunni að sjóða í rúmar 10 mínútur til að leyfa henni þykkna.
  11. Setjið hrísgrjónin saman við ásamt rækjunum og kóríander.
  12. Berið fram með nýbökuðu brauði að eigin vali.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert