Hildur Gunnlaugsdóttir, arkitekt og áhrifavaldur, er að toppa sig með skemmtilegum hugmyndum að hrekkjavökumat og sælgæti. Hún er óstöðvandi þessa dagana enda mikill aðdáandi hrekkjavökunnar.
Hún er búin að ákveða hrekkjavökumáltíðina fyrir föstudagskvöldið og deilir henni hér með lesendum Matarvefsins.
„Í ár gerði ég litlar spooky quesadillas sem líta út eins og graskershausar eða beinagrindarandlit, sem stelpurnar elska,“ segir Hildur og glottir.
„Ég nota litlar tortillukökur, legg eina neðst, set salsasósu yfir og svo baunir sem ég hef hitað á pönnu með tilbúinni tacos-kryddblöndu. Síðan bæti ég við rauðri papriku, gulum baunum og öðru grænmeti sem ég á til. Ofan á fer önnur tortilla, en áður en ég legg hana á, skeri ég út andlit – annaðhvort brosandi grasker eða skelfilegt beinagrindarandlit. Ég baka þær í ofni við 200°C í um það bil fimm mínútur, eða þar til þær verða gullinbrúnar og stökkar. Stundum nota ég líka flatt samlokugrill.“
„Það besta er að börnin borða baunir og grænmeti án þess að taka eftir því.“
„Við maðurinn minn, Hreiðar Leví, höfum bæði búið í Skandinavíu og þar er ótrúlega vinsælt að vera með tacos-fredag, svona mexíkóskan mat með skandinavísku yfirbragði. Við höfum haldið í þá hefð hér heima, því það er svo notalegt að enda vikuna á samveru og góðum mat,“ segir Hildur, sem er líka búin að skreyta heimilið fyrir gleðina á morgun, föstudaginn 31. október, sem er dagur hrekkjavökunnar.
„Það sem er svo frábært við tacos og quesadillas er að allir borða það sama, en geta samt valið hvað þau setja á sinn disk. Með öllum þessum sérþörfum í fjölskyldunni er það smá kraftaverk. Og þar sem hrekkjavaka og Día de los Muertos, dagur hinna dauðu, eru á svipuðum tíma, finnst mér sérstaklega gaman að vera með mexíkóskt þema í október. Það er bæði litríkt, hátíðlegt og dálítið draugalegt.“
Sjáið Hildi galdra fram hrekkjavökumáltíðina hér fyrir neðan:
Hrekkjavöku-quesadillas
(Miðið magn við fjölda þeirra sem eru í mat)
Aðferð: