Skemmtilegar hugmyndir að hryllilega góðum kræsingum

Hrekkjavakan nálgast óðum og verður án efa haldin með usla á morgun, 31. október. Miðað við veðurspár morgundagsins getur verið lag að eyða tímanum í eldhúsinu í kvöld og á morgun og útbúa skemmtilegar hrekkjavökukræsingar til að bjóða upp á annað kvöld.

Hér koma nokkrar ógurlegar hugmyndir á borðið sem hafa birst á Matarvefnum á liðnum árum og eiga eftir að slá í gegn. Sífellt algengara er að fólk haldi upp á hrekkjavökuna hér á landi, og margir leggja mikinn metnað í skreytingarnar, kræsingarnar og máltíðirnar í anda hennar.

Þórunn Högna gerði tryllingslegt hrekkjavökuborð með hryllilegum kræsingum þar sem óvættir og skrímsli eru í alls konar formum. Á borðinu má finna fullt af skemmtilegum og frumlegum hugmyndum að kræsingum sem eiga vel heima í hrekkjavökupartíinu og auðvelt er fyrir alla að útbúa. Svarti liturinn, kóngulóarvefir og hauskúpur eru í forgrunni og drungalegt yfirbragð yfir öllu. Blöðrufígúrurnar eru ógurlegar í bland við gyllta litinn sem fær að brjótast aðeins í gegn við hrekkjavökuhlaðborðið.

Anna Marín Bentsdóttir gerði þetta hrekkjavökutart. Þetta tart er rosa einfalt, bragðgott og hittir algjörlega í mark. Það er fullkomið fyrir hrekkjavökuveislurnar eða bara til að bjóða upp á heima í kósí og rólegheitum. Tartið er með súkkulaðikexbotni, rauðri karamellu í botninum sem líkist blóði og síðan er súkkulaði ganache ofan á og tartið skreytt með köngulóarvef og köngulóm ofan á.

Valgerður Gréta Gröndal, betur þekkt sem Valla, bakaði og skreytti þessa krydduðu súkkulaðitertu með hræðilegum draugum.

Anna Marín Bentsdóttir gerði líka þessar skemmtilegu hrekkjavökukræsingarnar, súkkulaðibúðing, Drakúla Red velvet bollakökur og dökkar súkkulaðibitakökur í hrekkjavökubúningi sem passa vel á hryllingsborðið ógurlega.

Valla Gröndal gerði líka þessa litríku og frumlegu kleinuhringi í hrekkjuvökubúning sem upplagt er að prófa.

Linda Ben gerði þessar pöddupitsur sem er sniðug, einföld og ljúffeng hugmynd fyrir bæði börn og fullorðna til að gera saman. Einum skammti af pitsadeigi er einfaldlega skipt í 4 hluta, flatt út og sett á það sósa og ostur. Síðan er hægt að nota ólífur, pepperóní og papriku til að gera pöddur. Einfaldara getur það ekki verið og börnunum þykir spennandi að borða þessar pitsur. Til að gera pitsurnar krúttlegri er sniðugt að setja nammiaugu á pepperóníið.

Eva María Hallgrímsdóttir eigandi Sætra Synda er mikilli aðdáandi hrekkjavökunnar og elskar að bjóða upp á blóðugar kræsingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert