„Ég klára kexpakka á 5 mínútum“

Ketill Ágústsson er ungur og upprennandi tónlistarmaður, einungis 19 ára …
Ketill Ágústsson er ungur og upprennandi tónlistarmaður, einungis 19 ára gamall, sem er að hefja feril sinn. Hann ljóstrar upp skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar að þessu sinni. mbl.is/Eyþór

Ketill Ágústsson ljóstrar upp skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar að þessu sinni á Matarvefnum. Hann elskar að borða, en þrátt fyrir það segist hann ekki kunna að elda nokkurn skapaðan hlut.

Hann er ungur og upprennandi tónlistarmaður, einungis 19 ára gamall, sem er að hefja feril sinn. Hann sendi frá sér sitt fyrsta lag í fyrra, Rætur, sem hann samdi aðeins 15 ára gamall. Lagið hefur vakið mikla athygli, enda gullfallegt og persónulegt. Ketill er mikill matmaður og nýtur þess að borða góðan mat. Hann býr enn í heimahúsum og á sjö systkini.

„Ég er nýútskrifaður úr Menntaskólanum við Sund og er að vinna núna og taka gigg. Ég er að fara að gefa út lag í nóvember til heiðurs ömmu sem lést 22. mars síðastliðinn, og lagið fjallar um hana. Það má segja að ég sé að upplifa mjög skrítna tíma núna — ég er með valkvíða.

Ég þarf að fara að ákveða hvort ég ætli í skóla eða skoða heiminn, vinna heima eða flytja út og prófa að vinna erlendis. Það er svo margt sem mig langar að gera, en þetta eru allt eðlilegar tilfinningar sem ég held að flestir 18–19 ára einstaklingar upplifi. Annars reyni ég að hafa það gott — hreyfi mig, les, borða hollt, sef vel og minnka símanotkun. Þá líður mér best,“ segir Ketill með bros á vör.

Dónaskapur að kvarta yfir matnum

Þegar matur er annars vegar líður Ketli vel.
„Ég elska mat og borða það sem er í matnum hverju sinni og kvarta aldrei. Það er dónaskapur.

Ég fæ mér alltaf morgunmat, hádegismat, síðdegiskaffi, kvöldmat og kvöldsnarl. Þetta lærði ég hjá ömmu í sveitinni. Ég veit að þetta er ekki hollur lífstíll, en ég reyni að passa mig,“ segir Ketill og hlær.

Ketill játar fúslega að hann eldi ekki.
„Ég kann ekki að elda neitt, skammast mín smá fyrir það. Mig langar einn daginn að kunna að elda. Ætli ég fái þá bakteríu ekki úr sveitinni,“ bætir Ketill við og glottir. Svo er sumt sem hann elskar meira en annað. „Ég elska Sylvíuköku meira en allt. Mamma bakar hana einstaklega vel.“

„Kvenfólki finnst óaðlaðandi að kunna ekki að elda“

Hefur þú dálæti á því að matreiða eða finnst þér meira gaman að láta matreiða fyrir þig?

„Ég elda því miður aldrei — ég kann það bara ekki. Mamma og Dommi elda ávallt ofan í okkur á heimilinu. Þegar ég fer að búa einn verð ég að læra þetta. Ég hef líka heyrt að kvenfólki finnst mjög óaðlaðandi að kunna ekki að elda.“

Ketill segist aldrei muna drekka kaffi, finnst það algjör viðbjóður.
Ketill segist aldrei muna drekka kaffi, finnst það algjör viðbjóður. mbl.is/Eyþór

Matarvenjur Ketils

Hvað færðu þér í morgunmat?
„Eitthvað létt, t.d. banana og vatn.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Já, ég geri það. Oftast síðdegiskaffi klukkan 16.00, þá er kex og kruðerí. Ég klára kexpakka á fimm mínútum.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Já, hádegismaturinn er mikilvægastur hjá mér.“

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Egg, mjólk og pítusósu.“

Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað, hvert ferðu?
„Ætli það sé ekki bara að fá sér pítsu á Rauða Ljóninu — þær eru rosalegar þar.“

Hvað viltu á pítsuna þína?
„Pepperóní, beikonkurl og rjómaost.“

Hvað færð þú þér á pylsuna þína?
„Pylsu með öllu nema hráum.“

Hvernig viltu hafa hamborgarann þinn?
„Alls ekki of mikið af áleggjum — þá lekur hann út allt og það er ekki gaman. Ost, eina kálsneið sem nær yfir kjötið, fjórar ágætlega þykkar gúrkur undir kjötið svo þær fari ekkert á flakk, og svo tómatsósu undir og yfir kjötið.“

Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Kartöflur allan daginn.“

Áttu þér uppáhaldsvetrarétt?
„Lambakjöt eða brodd (ábrysti).“

Hver er uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Grænn Vit-Hiti — mæli með því að drekka hann í staðinn fyrir orkudrykki.“

Hver er versti drykkur sem þú hefur smakkað?
„Kaffi. Ég mun aldrei drekka kaffi — algjör viðbjóður.“

Fer í ísbúð 2-3 í viku

Ertu með æði fyrir einhverju þessa dagana?
„Já. Bragðaref á Ísbúð Huppu — nýi ísinn, kökudeig, Oreo og jarðarber. Ég gæti borðað hann á hverjum degi. Ísbúð Huppa er líka beint fyrir neðan þar sem ég bý — það er mjög hættulegt. Ég fer þangað tvisvar til þrisvar í viku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert