Nói Síríus kynnti á dögunum til leiks nýja og hátíðlega útgáfu af Nóa Kroppi sem er með Bismark-kurli að því fram kemur í tilkynningu frá þeim.
Nóa Kroppið með Bismark-kurli sameinar klassíska mjólkursúkkulaðið frá Nóa Síríus með fíngerðum, myntu- og karamellutónum sem minna á hinn sívinsæla Bismark-brjóstsykur.
„Við höfum fengið fjölda ábendinga frá fólki sem saknar Bismark-brjóstsykursins, og ákváðum að leika okkur aðeins með það bragð í nýrri útgáfu af Kroppi,“ segir Birna María Másdóttir, markaðsstjóri hjá Nóa Síríus.
„Útkoman er bæði hátíðleg og krönsí – og við teljum að margir muni kannast við þetta bragð“ og bætir við að nýja Nóa Kroppið sé með hvítu og rauðu kurli sem gerir vöruna enn þá skemmtilegri í skál og lúku, „Nóa Kropp þarf að lúkka vel í lúku,“ segir Birna.
Þetta er þó ekki eina hátíðarvaran sem Nói Síríus kynnir í ár, á dögunum kynntu þau nýjan konfektmola með malt- og appelsínufyllingu sem hefur fengið gífurlega góðar viðtökur.
„Konfektmolinn rauk út á fyrstu dögum og við fórum strax að teikniborðinu til að skoða hvort við hefðum færi á að bæta við framleiðslu á molanum. Þetta er allt handpakkað og í öllum konfektundirbúningum getur verið erfitt að koma aukaframleiðslu að en við sjáum fram á að ná að framleiða örlítið meira.“ Að lokum segir Birna þau einnig ætla koma með nýja tegund af Trítlum fyrir hátíðarnar, sem heitir Hátíðarhlaup Trítlanna og er blandað ávaxtahlaup sem passar vel í nammiskálarnar um jólin.
„Þetta lendir í verslunum í næstu viku, ég er mikil Trítlakona sjálf og ég er mjög spennt fyrir þessu,“ segir Birna.
Hátíðarvörurnar verða aðeins fáanlegar í takmörkuðu magni á meðan birgðir endast og eru fáanlegar í öllum helstu verslunum.